Hin sýnilega hönd

Ríkisstjórnin kynnti í gær aðgerðir til að sporna við kólnun á fasteignamarkaði. Útlánaheimildir Íbúðalánasjóðs verða rýmkaðar stórlega, og sjóðurinn verður nú eins konar heildsölubanki fyrir bankana sem munu geta endurfjármagnað fasteignaútlán sín hjá sjóðnum, auk þess að fjármagna ný lán. Ríkisstjórnin hefur því horfið frá fyrri yfirlýsingum sínum um að Íbúðalánasjóður eigi fyrst og fremst að vera félagslegt úrræði.

Ríkisstjórnin kynnti í gær aðgerðir til að sporna við kólnun á fasteignamarkaði. Útlánaheimildir Íbúðalánasjóðs verða rýmkaðar stórlega, og sjóðurinn verður nú eins konar heildsölubanki fyrir bankana sem munu geta endurfjármagnað fasteignaútlán sín hjá sjóðnum, auk þess að geta fjármagnað ný lán. Ríkisstjórnin hefur því horfið frá fyrri yfirlýsingum sínum um að Íbúðalánasjóður eigi fyrst og fremst að vera félagslegt úrræði.

Allt frá því að útlánaheimildir Íbúðalánasjóðs voru rýmkaðar eftir þarsíðustu Alþingiskosningar fyrir tilstilli Framsóknarflokksins, hafa afskipti hins opinbera af fasteignamarkaðnum verið óeðlieg. Eins og oft hefur komið fram á Deiglunni hefur Íbúðalánasjóður markvisst unnið gegn peningastefnu Seðlabankans með því að bjóða lán með vöxtum lægri markaðsvöxtum. Sjóðurinn er með ríkisábyrgð og þess vegna býðst honum hagstæðari fjármögnun en einkafyrirtækjum. Lögbundið hlutverk Íbúðalánasjóðs er síðan að bjóða eins hagstæð útlán og hægt er – enginn fyrirvari er settur um hvort lánakjör stangist á við peningamálastefnuna. Því hefur fylgni vaxta Íbúðalánasjóðs við stýrivexti Seðlabankans verið lítil eða jafnvel neikvæð. Lágir vextir verka hvetjandi til fjárfestingar í húsnæði, og afleiðingin er gríðarleg hækkun fasteignaverðs.

Þrátt fyrir að Íbúðalánasjóður sé ábyrgur fyrir stærstum hluta útistandandi fasteignalána þjóðarinnar komu viðskiptabankarnir einnig við sögu í fasteignaverðshækkunum síðustu ára. Bankarnir tóku þá ákvörðun að taka slaginn við hið opinbera og bjóða einnig fasteignalán. Til að vera samkeppnishæfir þurftu þeir auðvitað að bjóða svipuð kjör og Íbúðalánasjóður. Munurinn á bönkunum og Íbúðalánasjóði er hins vegar sá að fyrrnefndu aðilarnir hækkuðu vexti á húsnæðislánum með hækkandi stýrivöxtum og erfiðari aðstæðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, en hinn síðarnefndi ekki. Afleiðingin er skert virkni peningamálastefnunnar. Það er því vandséð hvernig rýmkaðar heimildir Íbúðalánasjóðs „eru til þess ætlaðar að bæta virkni peningamálastefnunnar,“ eins og segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í gær.

Nú á að hækka hámarkslán úr 18 milljónum í 20 milljónir. Stærsta breytingin er hins vegar sú að nú munu lánveitingar miðast við kaupverð en ekki brunabótamat. Ríkið mun einnig bjóða bönkum fjármögnun fyrir nýjum húsnæðislánum og endurfjármagna útistandandi lán. Áður hafði hið opinbera óeðlileg áhrif á fasteignamarkaðinn með ríkistryggðum lánum í samkeppni við einkaaðila. Nú mun ríkið nánast ákveða kjörin sem bankarnir ráða við að bjóða upp á. Á meðan fasteignaútlán verða áfram ríkistryggð mun vöxtum verða haldið lægri en eðlilegt getur talist mun sú staða koma upp aftur að færri en fleiri hafa ráð á nýju húsnæði. Þarf þá ekki að hækka hámarkslánsfjárhæð aftur? Hvað er unnið með þessum vinnubrögðum? Skynsamlegra væri að leyfa markaðnum að leiðrétta sig og letja fólk til fasteignakaupa á meðan erfiðleikar ríða yfir. Það er sorglegt að horfa upp á stjórnmálamenn segjast aðhyllast markaðslögmálin þegar vel árar, en þegar þörf er á leiðréttingu og nýju jafnvægi er gripið inn í og vandamálunum frestað.

Félagsmálaráðherra sagði í samtali við Ríkisútvarpið að þessar aðgerðir væru nauðsynlegar til að varðveita fjármálastöðugleika í landinu. Það var og – nú á sumsé að gefa endanlegt frat í Seðlabankann. Það er nefnilega svo að hér á landi er starfað eftir verðstöðugleikamarkmiði. Þrátt fyrir að gengisleki sé einn helsti valdur hárrar verðbólgu um þessar mundir, hefur húsnæðisliður vísitölu neysluverðs verið helsti drifkraftur verðbólgunnar á síðustu árum. Nú þegar allt leit út fyrir að húsnæðisliður gæti haft lækkandi áhrif á verðlagsmælingar ákveður ríkisstjórnin að dæla fé inn á fasteignamarkaðinn. Þó að fjármálastöðugleiki sé auðvitað mikilvægur öllu þjóðfélaginu er ankannalegt að ríkisstjórnin ákveði að starfa eftir fjármálastöðugleikamarkmiði, á meðan Seðlabankanum er gert að stuðla að verðstöðugleika.

Það virðist vera gegnumgangandi stef í hagsögu Íslands að þegar vel gengur er hið opinbera jafnan eftirlátssamt og kærulaust. Útgjöld og umsvif aukast jafnt og þétt, en fæstir gera athugasemdir við það þar sem hagur flestra annarra en hins opinbera er einnig vænkast á sama tíma. Þegar fer að gefa á bátinn virðast hins vegar flestir leggjast á eitt og kalla eftir aðgerðum fá hinu opinbera. Afleiðingin er sú að stórkarlalegum, sértækum efnahagsaðgerðum er gjarnan beitt í niðursveiflum. Sagan hefur sýnt að slík breytni hefur ekki alltaf tilætluð áhrif, nema þó síður sé. Fyrir ekki svo mörgum árum voru það gengisfellingar og lán til óarðbærra fyrirtækja með neikvæðum vöxtum – í dag eru það mótvægisaðgerðir og ríkisvæðing fasteignamarkaðarins.

Latest posts by Þórður Gunnarsson (see all)