Ríkissjónvarpið: Besta sætið

Knattspyrnuáhugamenn landsins eru líkast flestir farnir að bíða óþreyjufullir eftir Evrópumóti karlalandsliða sem verður sýnt í beinni útsendingu á RÚV í sumar. Þvílík heppni að allir elska knattspyrnu!

Evrópumót karlalandsliða í knattspyrnu hefst þann 7. júní næstkomandi og þá fer í hönd tuttugu og tveggja daga knattspyrnuveisla. Mótið verður að vanda í beinni útsendingu á Ríkissjónvarpinu, öllum til mikillar gleði og eftirvæntingar. Útsendingarnar sjálfar munu líkast til taka um fimm klukkutíma af dagskrártíma sjónvarpsins þegar mest lætur og því verður óþarfa dagskrárliðum, líkt og fréttatímum, hliðrað til eða þeir einfaldlega geymdir til betri tíma. Þetta er þó bara rjóminn því ekki má gleyma öðrum tengdum dagskrárliðum svo sem samantektum, leikgreiningum og upphitunum. Leiktímar eru einnig mjög heppilegir: 16:00 og 18:45.
Það vill svo skemmtilega til að þetta herrans ár 2008 má á Íslandi enn finna byggðir sem einungis hafa aðgang að „fríu“ sjónvarpsefni í gegnum RÚV. Íbúum þessara byggða bíður því óneitanlega uppbyggilegt sumarfrí í júní mánuði. Knattspyrnuáhugamennirnir geta fjárfest í þykkum gluggatjöldum og notið þess að fylgjast með stórmótinu óáreittir enda engin samkeppni um sjónvarpið á leiktímum. Hinna (þessara örfáu sem ekki fylgjast með fótbolta) bíður þó ekkert slor; íslenska sumarið er handan við hornið með tilheyrandi vellistyngum.
Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Það getur einfaldlega ekki verið réttlætanlegt að dagskrá Ríkissjónvarpsins sé nánast einskorðuð við útsendingar frá einni íþrótt á „primetime“ sjónvarpstíma í rúmar þrjár vikur. Hver einasti sjónvarpseigandi er skikkaður til að greiða afnotagjald fyrir Ríkissjónvarpið og forgangsröðun sem þessi þjónar einfaldlega ekki hagsmunum meirihlutans. Það er vissulega frábært fyrir áhugamenn að hafa svo greiðann aðgang að mótinu en fórnarkostnaður hinna er ekki réttlætanlegur.
Forsvarsmenn RÚV bera því við að dreifikerfi annarra stöðva nái ekki til allra landsmanna. Lausnin er því afskaplega einföld og löngu tímabær; tryggja þarf aðgang allra landsmanna að fullkomnu dreifikerfi fyrir sjónvarp og internet hið allra fyrsta og engar refjar.
Í júní ætla ég hins vegar að svekkja mig á því að geta ekki sleikt sólina á Austurvelli á meðan ég horfi á Spánverja vinna EM 2008.