Að hengja prest fyrir…

Samfélag þar sem samskipti milli fólks fara í auknum mæli fram með tölvupósti, sms-skeytum eða skilaboðum á vefsíðum býður það kannski ekki upp á að menn sýni blíðu- eða vinahót með líkamlegum hætti. Ef prestur getur ekki faðmað sóknarbörnin sín án þess að verða krossfestur sem pervert á forsíðum dagblaðanna þurfum við að draga andann djúpt og hugsa um þau manngildi sem við viljum að beri samfélagið okkar uppi.

Sú vakning sem hefur verið á kynferðisafbrotum gagnvart börnum á undanförnum árum er ótrúlega jákvæð og þó mann hrylli við frétta flutningi af þessum kynferðisofbeldi þá er betra að málin komist upp og hætt en að ofbeldið haldi áfram.

Það er undarlegt til þess að hugsa að forvarnir fyrir kynferðisafbrotum séu nýjar af nálinni hér á landi. Samtökin Blátt áfram voru formlega stofnuð árið 2006 og þó að einhverjar aðrar forvarnir hafi verið fyrir kynferðisofbeldi gegna samtökin lykilhlutverki í fræðslu fyrir börnin, unglingana, foreldra og aðstandendur og kynferðisafbrotamennina og konurnar.

Það verður líklega aldrei hægt að meta það hversu mörgum börnum þessi fræðsla bjargar frá því að lenda í þeim hörmulegum atburðum sem kynferðisafbrot eru og er hún því ómetanleg.

Annað sem einnig hefur breyst á undanförnum árum er að við fáum fréttir fyrr en áður og úr fleiri áttum en áður. Hinir ýmsu miðlar, misjafnlega vandaðir, flytja okkur fréttir af alvarlegum málum eins og kynferðisafbrotum og stundum taka miðlarnir dómarahlutverk sitt helst til of alvarlega.

Mannorð hvers manns er eitt það mikilvægast sem hann hefur og það er því grafalvarlegt mál að grafa undan mannorði einstaklings sem sakir hafa bornar á, án þess að þær ásakanir hafa verið sannaðar og viðkomandi dæmdur fyrir brot sín. Grundvallarreglan í siðuðu samfélagi er að menn teljist saklausir þar til sekt hefur verið sönnuð.

Ýmislegt hefur verið skrafað og skrifað um mál séra Gunnars Björnssonar, sóknarprests á Selfossi, sem hefur verið kærður fyrir að hafa sært blygðunarsemi stúlkna sem eru í kórstarfinu í Selfosskirkju, stúlkna sem eru á viðkvæmum aldri og eru mjög næmar fyrir umhverfi sínu.

Því miður hefur umfjöllun fjölmiðla um þetta mál í flestum tilvikum verið í miklum æsifréttastíl. Kynferðisafbrot prests gagnvart sóknarbörnum er safaríkt fréttamál. Fæstir fjölmiðlar hafa séð ástæðu til þess að fjalla um eðli þeirra ásakanna sem á prestinn eru bornar.

Það er mikill munur á kynferðisbrotum og þeirri háttsemi sem fallið getur undir að særa blygðunarsemi annarrar manneskju. Eftir því næst verður komist snýst mál þetta um að faðmlög og kossar á kinn hafi valdið stúlkunum sem kært hafa prestinn óþægindum. Án þess að lítið verði gert úr tilfinningum þeirra, þá leiðir þetta mál óneitanlega hugann að því hvernig samfélagið er að þróast.

Samfélag þar sem samskipti milli fólks fara í auknum mæli fram með tölvupósti, sms-skeytum eða skilaboðum á vefsíðum býður það kannski ekki upp á að menn sýni blíðu- eða vinahót með líkamlegum hætti. Ef prestur getur ekki faðmað sóknarbörnin sín án þess að verða krossfestur sem pervert á forsíðum dagblaðanna þurfum við að draga andann djúpt og hugsa um þau manngildi sem við viljum að beri samfélagið okkar uppi.

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)