Mannhatarar!

Þú sagðir að Íslendingar væru forvitnir um hvað væri að gerast hjá mér. Þeir geta farið til fjandans. Bölvaðir mannhatarar. Gleðilega Páska“. Svo mörg voru þau orð tónlistarkonunnar í nýlegu tölublaði Séð og Heyrt. Söngkona þessi er ósátt við framkomu Íslendinga í hennar garð. Það kann að vera skiljanlegt og hafa sínar skýringar. Engu að síður er umhugsunarefni hvort þessi páskakveðja innihaldi örlítið sannleikskorn um afstöðu Íslendinga til nýbúa. Lögð var könnun fyrir 12 þúsund framhaldsskólanema í vetur. 60% þeirra telja nýbúa of marga.

Á vef menntamálaráðuneytisins má finna skýrsluna Ungt fólk 2007– Framhaldsskólanemar Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn ungmenna í framhaldsskólum á Íslandi. Í stuttu máli eru nemendur í framhaldsskólum landsins mun neikvæðari í garð nýbúa en áður. 60% af þeim 12 þúsund nemendum sem tóku þátt eru frekar eða mjög sammála fullyrðingunni um að of margir nýbúar séu búsettir hér á landi. Um 28% taka ekki afstöðu. Einungis 12% eru frekar eða mjög ósammála. Fleiri strákar en stelpur telja nýbúa hér of marga eða rúmlega 40% stráka og 27% stelpna. Árið 2000 töldu um 39% svarenda að nýbúar væru of margir. Árið 2004 var þetta hlutfall komið í rúm 41%.

Í samhengi við þessar niðurstöður hefur erlendum ríkisborgurum á Íslandi fjölgað talsvert frá árinu 2000. Þá var hlutfall íbúa með erlent ríkisfang 2,6% af mannfjölda á Íslandi en það hlutfall komið í 6% árið 2007. Þessi afstaða nemenda í framhaldsskólum til nýbúa er sennilega ekki eingöngu bundin við þann tiltekna þjóðfélagshóp og kæmi ekki á óvart ef svipaðar niðurstöður myndu fást ef gerð væri sambærileg könnun meðal allra Íslendinga. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft og hin glaða æska þessa lands metur það greinilega svo að henni sé betur borgið í framtíðinni ef útlendingar væru hér færri. Ýmislegt á æskan eftir ólært í þessum efnum sem og aðrir.

Atvinnuþjófur?
Því miður er það viðhorf, að útlendingar steli vinnu af Íslendingum, alltof algengt. Hinir ýmsu forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar hafa á undanförnum árum gerist sekir um slíkan hræðsluáhróður og ekki batnaði stemmningin þegar stjórnmálaflokkur, sem kennir sig við frjálslyndi, fór að magna þessa fordóma upp í leit að atkvæðum.

Deiglan hefur í gegnum árin jafnharðan brugðist við slíkum dylgjum og vitleysu. Má í því sambandi benda á ritstjórnarpistil frá apríl 2004. Þar segir í niðurlagi: „Það er auðvitað ekkert annað en aðdáunarvert þegar einstaklingar, sem við kröpp kjör búa, hafa kjark til þess að flytja til fjarlægs lands til að öðlast betri lífskjör fyrir sig og sína. Það minnir um margt á þrautseigju og dugnað genginna kynslóða hér á landi. Þessir nýju meðlimir íslensks samfélags eiga því jafnvel meira skilið en margir hinna innfæddu að vera kallaðir góðir Íslendingar.“

Um meintan atvinnuþjófnað útlendinga má sérstaklega vísa til pistils frá 27. nóvember 2002. Þar fjallaði Pawel Bartoszek um að atvinna væri fjarri lagi takmörkuð auðlind og því engin rök fyrir því að útlendingar gætu komið hingað og stolið vinnu af Íslendingum. Ekki frekar en að konur hafi getað stolið vinnu af karlmönnum þegar atvinnuþátttaka kvenna fór að aukast jafnt og þétt á seinni hluta síðustu aldar.

Ólíkir menningarheimar
Kreddan um atvinnuþjófnað útlendinga er röng eins og margoft hefur verið sýnt fram á. Öllu alvarlegri er sú þróun, sem virðist vera að eiga sér stað hér og landi og víða í nágrannalöndunum, að í auknu mæli er talið að útlendingar séu slæmir vegna þess að þeir eru bara öðruvísi. Þeir tala annað tungumál, aðhyllast öðrum trúarbrögðum, líta öðruvísi út, hlusta á öðruvísi tónlist og því eigi þeir ekki heima hérna. Án þess að gera lítið úr kennslukorni Leo Strauss um hvernig umræðan endar þegar Hitler er nefndur á nafn, er ekki hjá því komist að benda á þessi umræða á sér hliðstæðu við þann jarðveg sem hatur nasista á öðrum kynstofnum spratt uppúr og hvernig þeim tókst að hrinda stefnu sinni í framkvæmd.

Þá, eins og nú, höfðu átt sér stað gríðarlegir þjóðflutningar í Mið- og Austur Evrópu áratugina fyrir Heimstyrjöldina 1914 og héldu áfram á millistríðsárunum. Á sama tíma hafði efnahagslegur uppgangur Vesturlanda verið mikill með tilheyrandi þjóðfélagsumbreytingum. Breska heimsveldið hafði flest tögl og haldir í heimsmálunum en víða kraumaði ólga og önnur vestræn ríki kepptu hart við Bretana. Hugmyndir þjóðernissinna náðu jafnt og þétt þar að auki sífellt meiri útbreiðslu. Á endanum og í kjölfar flókinnar atburðarrásar sprakk púðurtunnan. Á furðulegan hátt og mitt í allri vitleysunni náði Hitler völdum og ein mesta menningar- og menntaþjóð Evrópu fór að drepa fólk á úthugsaðan og skipulegan hátt af því það taldi að öðruvísi fólk ætti skilið að deyja.

Endurtekur sagan sig?
Í bók sinni War of the World rekur höfundurinn Niall Ferguson þessa atburðarrás og bendir á að nú á tímum megi víða sjá svipuð aðvörunarljós blikka. Eitt af þessum ljósum er vaxandi óþol gagnvart útlendingum í kjölfar mikilla þjóðflutninga og efnahagslegra umbreytinga. Því miður virðist sem svo að umburðarlyndi og virðing fyrir náunganum hverfi þegar harðna tekur á dalnum og fólk kýs að öðlast viðurkenningar á eigin verðleikum með því að taka stöðu í skilgreindum hópi líkra aðila og snúast gegn þeim sem eru öðruvísi. Hræðsla við breytingar og hið ókunna nær yfirhöndinni á sama tíma og skynsemi og siðferðisreynsla kynslóðanna hverfur af sjónarsviðinu.

Það er því mikið áhyggjuefni að stór hluti æsku þessa lands er hrædd og óttast breytingar. Þeim mun ríkari ástæða er að halda baráttunni fyrir umburðarlyndi og náungakærleik áfram. Mannréttindi þykja mörgum vera sjálfsagður hluti íslenskt samfélags. Stjórnarskrárgjafinn hafði sem betur fer þó séð ástæðu til að setja í stjórnarskrá sérstakan kafla um mannréttinda og þýðingu þeirra í íslenskum lögum og samfélagi. Það er einmitt á þeim tíma, þegar hræðsla og óvirðing gagnvart náunganum vex, þegar á reynir hvort samfélagi tekst að framfylgja lögunum og tryggja rétt hvers og eins einstaklings til að lifa í samfélagi með öðrum án íþyngjandi afskipta ríkisvalds eða yfirgangi annarra einstaklinga. Ef það bregst hafa mannhatarar sigrað.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.