Eru íþróttamenn heimskir?

Það hefur lengi loðað við íþróttamenn að þeir séu heimskari en annað fólk. Þótt auðvitað sé hægt að halda því fram að slíkar staðhæfingar séu uppspuni frá rótum, er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvort vera kunni að fyrir þessari sögusögn sé einhver grunnur, og þá hversu traustur sá grunnur er.

Það hefur lengi loðað við íþróttamenn að þeir séu heimskari en annað fólk. Þótt auðvitað sé hægt að halda því fram að slíkar staðhæfingar séu uppspuni frá rótum, er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvort vera kunni að fyrir þessari sögusögn sé einhver grunnur, og þá hversu traustur sá grunnur er.

Færa má ágætisrök fyrir því að helstu birtingarmynd þessarar staðalímyndar sé að finna í bandarískum háskólabíómyndum, á borð við „Revenge of the Nerds“. Ef við ímyndum okkur að þeir kvikmyndagerðarmenn sem áttu upptökin að því að dreifa þessu áliti um heimsbyggðina hafi sjálfir myndað sér skoðun á grundvelli reynslu sinnar í bandarískum háskóla, komumst við hugsanlega eitthvað áleiðis í vangaveltum okkar.

Heimskir íþróttamenn
Ímyndum okkur til hægðarauka að í heiminum séu fjórir hópar fólks, allir jafnstórir: heimskir íþróttamenn, klárir íþróttamenn, heimskir antísportistar og klárir antísportistar. Ímyndum okkur einnig að það séu tvær leiðir færar til að komast inn í háskóla, annars vegar að komast í íþróttaliðið og hins vegar að ná góðum árangri á inntökuprófinu. Gerum að lokum ráð fyrir að allir vilji fara í háskólann.

Þá liggur fyrir að í háskólanum eru þrír hópar fólks: Heimskir íþróttamenn sem komust inn út á íþróttahæfileika, klárir antísportistar sem gekk vel á inntökuprófinu og klárir íþróttamenn sem gátu komist inn á hvorn vegin sem er. Kvikmyndagerðarmennirnir sem reyndu að átta sig á leyndardómum lífsins í þessu umhverfi sáu að allir antísportistarnir voru klárir, en helmingur íþróttamannanna var heimskur, og drógu af því þá ályktun að íþróttamenn væru upp til hópa vitlausari en annað fólk.

Heimskar ljóskur
Á nákvæmlega sama hátt má ímynda sér að hugmyndin um heimskar ljóskur hafi orðið til. Ímyndum okkur nú að þjóðfélagið samanstandi af ljóskum (heimskum og klárum) og brúnettum (heimskum og klárum), sem allar vilja vinna á dagblaði bæjarins. Gerum svo ráð fyrir að ráðningarferlið á dagblaðinu sé þess eðlis að til að fá vinnu þurfi umsækjendur annaðhvort að vera klárir eða ljóshærðir. Blaðamennirnir sem skrifa á blaðið horfa í kringum sig, sjá ekkert nema klárar brúnettur, á meðan önnur hver ljóska er heimsk. Þeir draga þá ályktun að ljóskur séu vitlausari en brúnettur og nota bæði myndasögusíðurnar og fólk í fréttum til að breiða út þann misskilning.

Klárar ljóskur
Við skulum enda þessa litlu hugarflugferð á því að ímynda okkur að dagblaðið úr dæminu hér að ofan sé ekki eini vinnustaðurinn í bænum. Gerum í staðinn ráð fyrir því að ljóskurnar eigi þess kost að módelast í stað þess að starfa á blaðinu, og að módel fái meiri peninga í vasann en meðalblaðamaður. Í harðnandi samkeppni um starfmenn á dagblaðið ekki kost á öðru en að ráða alla þá starfsmenn sem það nær í, og greiðir þeim fyrir hvern birtan dálksentimetra.

Nú snýst veraldarmyndin, eins og hún lítur út gagnvart blaðamönnunum á dagblaðinu okkar, algerlega við. Allar brúnetturnar – heimskar sem klárar – eru nú komnar til starfa á blaðið. Aftur á móti er mun meira aðlaðandi fyrir flestar ljóskurnar að fara í módelstörf. Það er einungis fyrir stjörnublaðamennina í ljóskuhópnum, sem dæla út stórfréttum dag eftir dag, sem blaðamannastarfið er samkeppnisfært. Blaðamennirnir sjá ekkert nema klárar ljóskur á meðan önnur hver brúnetta er heimsk, og draga sínar ályktanir í takt við það.

Það er vonandi að lesendur – heimskir sem klárir, íþróttamenn sem antísportistar, ljóskur sem brúnettur – taki ekki illa upp að hér hafi staðalímyndir þessara hópa verið hafðar í flimtingum. Þetta er auðvitað allt í gamni gert, og að svo miklu leyti sem þessu gamni fylgir einhver alvara, felst hún í tveimur atriðum.

Í fyrsta lagi sýna þessar litlu dæmisögur að þjóðfélagshópar sem eru sambærilegir að öllu leyti í atferli og háttalagi, geta engu að síður virst ólíkir þeim sem á horfir. Slíkt hendir ef samanburðurinn er gerður í aðstæðum þar sem einstaklingar í mismunandi hópum veljast ekki á sama hátt inn í aðstæðurnar. Sérstaklega getur verið villandi þegar annar hópurinn er mun minni en hinn, þar sem það getur ýkt muninn á milli hópa.

Í öðru lagi eiga þessi dæmi sér hliðstæður í tölfræðigreiningum, sem skila stundum jafnrangri niðurstöðu og ályktunargáfa kvikmyndagerðarmannanna og blaðamannanna hér að aofan. Í öllum þremur dæmunum var orsök villunnar svokölluð úrtaksbjögun (sampling bias), sem á sér stað þegar þær athuganir sem athugandinn sér eru kerfisbundið öðruvísi en þær sem hann sér ekki. Úrtaksbjögun er stöðugt vandamál í tölfræðirannsóknum, en eins og dæmin hér að ofan sýna (þótt þau séu auðvitað töluvert færð í stílinn), er auðvelt að falla í gryfju úrtaksbjögunar þótt ályktanirnar séu ekki dregnar á grundvelli tölfræðitóla heldur á gamaldags „heilbrigðri skynsemi.“

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)