Vatnsmýrarslagurinn um nemendur

Það er um margt að bítast í Vatnsmýrinni, ekki bara flugvöll, lóðir, skipulag, spítala og fleira í þeim dúrnum heldur verður þar einnig bitist um stúdenta. Báðir stóru háskólarnir stefna nær og nær hvor öðrum í Vatnsmýrinni og ljóst að innan skamms verður svæðið óvefengd þungamiðja háskólamenntunnar í landinu. Á næstu árum munu tugþúsundir nýrra fermetra á svæðinu taka á sig mynd Vísindagarða Háskóla Íslands og Þekkingarþorps Háskólans í Reykjavík.

Það er um margt að bítast í Vatnsmýrinni, ekki bara flugvöll, lóðir, skipulag, spítala og fleira í þeim dúrnum heldur verður þar einnig bitist um stúdenta. Báðir stóru háskólarnir stefna nær og nær hvor öðrum í Vatnsmýrinni og ljóst að innan skamms verður svæðið óvefengd þungamiðja háskólamenntunnar í landinu. Á næstu árum munu tugþúsundir nýrra fermetra á svæðinu taka á sig mynd Vísindagarða Háskóla Íslands og Þekkingarþorps Háskólans í Reykjavík. Frábært mál.

Samkeppnin um nemendur er raunar ekki ný af nálinni. Á hverju vori brosa auglýsingastjórar fjölmiðlanna út að eyrum yfir samkeppninni um nemendur. Þessi samkeppni hefur blossað upp undanfarin ár og hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif fyrir háskólana. Ekki hvað síst fyrir sumar deildir innan HÍ, sem ekki veitti af því að vakna upp af værum prinsessusvefninum. Um það þarf ekki að fjalla sérstaklega að þessi samkeppni hefur því á fáum árum gert geysilega góða hluti fyrir háskólamenntun í landinu.

En hvernig mun þessi samkeppni þróast á næstu árum og til framtíðar? Getur það verið að á Íslandi séu álíka margir háskólar og í Noregi þrátt fyrir að íbúar hér séu margfalt færri? Getur það nokkuð líka verið að flestir skólarnir, sérstaklega þeir í Vatnsmýrinni séu að stefna á að verða bestir á sömu, eða mjög svipuðum fræðasviðum?

Vegna smæðar þjóðarinnar eru líka eins og gefur að skilja fáir, ef einhverjir, framúrskarandi vísindamenn á heimsmælikvarða á hverju fræðasviði. Að skipta þessum örfáu á hverju sviði upp í tvo hópa og láta þá keppa milli skóla með nokkra kílómetra millibili, með móralinn oft stál í stál hljómar ekkert svo skynsamlega eftir allt. Í heildarsamhenginu væri líklega árangursríkara að hvor skóli væri með alla þessa örfáu framúrskarandi starfsmenn á ákveðnu sviði – innlenda samkeppnin væri síðan gagnvart öðrum fræðasviðum, annars vegar um að fá bestu nemendurna í hvert fag, og þar með skólann, og hins vegar um rannsóknarfé úr samkeppnissjóðum.

Hin raunverulega samkeppni sem máli skipti, snérist hins vegar um að skara fram úr á hverju sviði á alþjóðlegum vettvangi.

Það er mikilvægt að samkeppnin sé til staðar og auðvitað verður alltaf einhver skörun á fræðasviðum og deildum háskólanna, sérstaklega á milli þessara tveggja stóru í Vatnsmýrinni. En ef við horfum á heildarmyndina, væri þá ekki skynsamlegra að hver skóli myndi sérhæfa sig meira og stefna að því að verða framúrskarandi á heimsmælikvarða á afmörkuðum sviðum. Ekki bara framúrskarandi í samanburðinum á Vatnsmýrarsvæðinu. Vissulega stefna skólarnir báðir að því að verða framúrskarandi á alþjóðlegan mælikvarða á sínum sviðum, spurningin er einfaldlega hvort enn betri árangur myndi ekki nást ef á milli þeirra yrði meiri sérhæfing, meiri samvinna og þverfagleg skörun.

Samvinna og þverfaglega skörun fræðasviða, bæði innan skóla og á milli skóla, er lykilatriði ef háskólamenntun hér á landi ætlar að standast samanburð á alþjóðavísu. Þrjú hundruð þúsund manna samfélag verður í meginatriðum að keppa við umheiminn, ekki innbyrðis, á þessu sviði sem mörgum öðrum. Það er ekki mikið afrek að verða besti skólinn í litlu Vatnsmýrinni í Reykjavík – það væri afrek ef skólunum tækist að vinna betur saman og þannig skara fram úr á heimsmælikvarða.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)