Afburðaárangur Íslands vekur litla athygli

Bandaríska tímaritið Newsweek birti á dögunum úttekt á stöðu umhverfismála í heiminum þar sem Íslandi var hrósað í hástert fyrir árangur og stefnumörkun. Úttektin vakti þó litla athygli hér heima enda samræmist hún illa þeim áfellisdómi sem umhverfisverndarsamtök hafa fellt yfir landi og þjóð að undanförnu.

Það er ekki alltaf augljóst hvert umhverfisverndarsamtök á Íslandi eru að fara. Samtökin virðast hafa túlkað og teygt hugtakið umhverfisvernd svo hressilega að það nær fyrst og fremst yfir þeirra eigin kenningar um umhverfið og efnahagslíf þar sem þungamiðjan er að stóriðja skuli ekki vera hér á landi.

Samkvæmt kennisetningunum felst sönn umhverfisvernd í að hreyfa ekki við svæðum, ám eða fossum enda óafsakanlegur átroðningur mannsins í garð náttúrunnar að nýta orku með því að byggja virkjanir, jafnvel þó svo að orkuframleiðslan sé græn og orkan framleidd við bestu möguleg skilyrði. Sömu sögu má segja um áliðnaðinn – helst á að leggja hana alfarið niður, eða að minnsta kosti láta framleiða álið einhvers staðar allt annars staðar en á Íslandi fyrst mannkynið þarf endilega að vera að burðast við að nota þennan málm. Einhver annar getur allavega séð um skítverkin.

Þessi strangtrúarstefna umhverfisverndarsinna er ekki alveg í takti við umræðu í heiminum um umhverfismál. Þeir erlendu aðilar sem kynna sér stöðu umhverfismála hér á landi hafa hver á eftir öðru gefið henni háa einkunn og lofað hana í hástert. Síðast kom það fram í grein í hinu virta bandaríska tímariti Newsweek þar sem stefnumörkun og árangri Íslands í umhverfismálum og grænni orku er hrósað í hástert. Forsætisráðherra er sagður vera umhverfissinnaðasti þjóðarleiðtogi í heimi og blaðamaðurinn heldur því fram fullum fetum að aðrar þjóðir geti lært mikið af Íslendingum á þessu sviði.

Þessi glæsilegi vitnisburður hefur ekki vakið sérstaka athygli hér á landi. Um þetta voru birtar heldur fáar fréttir og smáar sem rímar ágætlega við þann málflutning sem orðið hefur ofan á í umræðum um umhverfismál undanfarin ár. Sá málflutningur hefur gengið út á að fyrst ráðamenn á Íslandi líði tilvist stóriðju hér á landi séu þeir umhverfissóðar, sem viðhafi hernað gegn landinu og skilji ekki umhverfisvernd, svo vitnað sé í lítið brot af stóryrtum fullyrðingunum. Einungis með því að ganga í gegnum hreinsunareldinn og umbreyta öllum sínum stefnumálum eiga stjórnmálamenn von en þó þannig að minnstu frávik frá trúnni hefur í för með sér miklar fordæmingar, eins og Samfylkingin hefur fengið að kynnast.

Úttekt Newsweek er síður en svo fyrsti jákvæði vitnisburðurinn um Ísland. Í Stern-skýrslunni svokölluðu sem kynnt var í fyrra og byggði á umfangsmikilli vinnu breskra stjórnvalda kemur fram að fyrirtæki verði að horfa langt fram á veginn þegar teknar eru ákvarðanir um staðsetningu og umhverfi framleiðslu sinnar og er þar bent á þær leiðir sem Ísland hefur farið í umhverfismálum. Al Gore, sem fjallað hefur mikið um loftslagsmál undanfarin ár, hrósaði stefnumörkun íslenskra stjórnvalda þegar hann flaug hingað um daginn á einkaþotu sinni og heimsótti forseta Íslands.

Þetta eru eðlileg og sanngjörn ummæli. Hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa við raforkuframleiðslu á Íslandi er það hæsta í heiminum. Fyrirtæki búa við ströng lagaskilyrði varðandi losun og mengun og margir líta til Íslands vegna þekkingar sinnar og reynslu í nýtingu grænnar orku.

Oft dýpkar það skilninginn að líta á hluti úr fjarlægð og setja þá í samhengi við ástandið annars staðar. Í umræðum um fátækt og misskiptingu á Íslandi var til að mynda fróðlegt að sjá evrópskan samanburð sem sýndi að staða mála hér á landi, samkvæmt þeim mælikvörðum sem notaðir eru til að meta fátækt, var betri en víðast hvar annars staðar. Sú könnun gekk þvert á þá tilfinningu sem margir höfðu fengið af umræðum um fátækt og vaxandi misskiptingu hér á landi. Svo er að mörgu leytið ástatt um umhverfismálin líka.

Hagstæður samanburður við önnur lönd þýðir auðvitað ekki að öll mál séu til lykta leidd á Íslandi eða að ástandið sé svo gott að það megi ekki bæta. En hins vegar sýna svona mælikvarðar að engin ástæða er til að mála myndina of svarta. Stundum er í góðu lagi að litirnir séu dálítið bjartir líka.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.