Borgaraleg óhlýðni

Mótmæli er hægt að stunda með ýmsu móti, og yfirleitt er gott að hafa meðalhófsregluna til hliðsjónar þegar mótmælaaðferð er valin. Jafnvel þótt mótmælendur komist að þeirri niðurstöðu að friðsamleg mótmæli dugi ekki til eru ýmsar leiðir til áður en gripið er til slagsmála við lögreglu.

Mótmæli er hægt að stunda með ýmsu móti, og yfirleitt er gott að hafa meðalhófsregluna til hliðsjónar þegar mótmælaaðferð er valin. Jafnvel þótt mótmælendur komist að þeirri niðurstöðu að friðsamleg mótmæli dugi ekki til eru ýmsar leiðir til áður en gripið er til slagsmála við lögreglu.

Sem dæmi má nefna hefðbundin verkföll, og einnig „regluverkfall“ (rule-book slowdown), þar sem einstaklingar túlka lög á þann hátt sem veldur minnstri framleiðni og truflar sem flesta. Dæmi um það eru aðgerðir vörubílstjóra fyrir nokkrum árum, þar sem þeir mótmæltu akreinaskorti með því að aka þjóðvegi landsins á löglegum hámarkshraða vöruflutningabíla.

Ef friðsamleg mótmæli, regluverkföll, eða hefðbundin verkföll skila ekki tilætluðum árangri (og ef krafan þykir nógu mikilvæg til að ganga lengra), er hægt að grípa til borgaralegrar óhlýðni eða annarrar friðsamlegrar andstöðu (nonviolent resistance).

Borgaraleg óhlýðni byggir á því að brjóta vísvitandi gegn lögum sem talin eru óréttlát, og knýja yfirvöld til að beita viðurlögum gegn athæfinu. Viðurlögin vekja athygli á athæfinu, reglunum og framferði stjórnvalda, og getur sú athygli valdið miklum þrýstingi á yfirvöld að breyta reglunum. Töluverð hefð er fyrir beitingu slíkra aðferða, sem Mahatma Gandhi beitti töluvert í sjálfstæðisbaráttu Indverja. Meðal annars lagði hann fram eftirfarandi reglur um slík mótmæli.

Meðal þess sem kemur fram í þeim reglum er að þótt mótmælandi skuli ekki hlýða fyrirskipunum yfirvalda, skuli hann ekki streitast á móti handtöku. Hann skal einnig þola yfirgang og árásir yfirvalda, án þess að svara fyrir sig. Hann skal hvorki beita blótsyrðum né níði, og undir engum kringumstæðum beita embættismenn ofbeldi. Að lokum ber mótmælanda skylda til að koma embættismönnum til varna ef einhver á vettvangi ræðst á þá.

Reglur Gandhi voru settar á blað í tengslum við erfiða sjálfstæðisbaráttu og sér í lagi í tengslum við borgaralega óhlýðni. Þær reglur sem hér eru teknar til heyra þó til þess kjarna sem hefur sýnt sig að skilar mestum árangri í friðsamlegri andstöðu við stjórnvöld.

Þau mótmæli sem vörubílstjórar hafa haft í frammi undanfarið hafa að mestu verið af þeim toga að hægt hefur verið að flokka þau sem friðsamlega andstöðu, en það er hverjum manni ljóst að reglur Gandhi um slíka andstöðu voru þverbrotnar í gær. Ef mótmælendur hefðu unnið samkvæmt þessum reglum hefðu þeir einfaldlega látið handtaka sig og draga í burtu bílana. Það gerðu þeir ekki og því fór sem fór.

Ekki skal útilokað hér að lögreglan hafi einnig gert einhver mistök í aðgerðum sínum. Sem betur fer fær íslensk óeirðalögregla ekki mörg tækifæri til að reyna starfsaðferðir sínar við raunverulegar aðstæður, og því kann að vera að einhverjar ákvarðanir sem teknar voru í hita leiksins hafi verið rangar. Slíkt ber að rannsaka af fullri alvöru og taka á ef tilefni er til athugasemda.

Hér á Deiglunni hafa birst fjölmargir pistlar þar sem starfsaðferðir lögreglunnar eru gagnrýndar. Meðal annars var valdbeiting lögreglu vegna mótmæla á Austurvelli, þann 17. júní 2003 gagnrýnd, og sömuleiðis röksemdir lögreglu við það sama tilefni um að aðgerðirnar hafi verið nauðsynlegar til að tryggja allsherjarreglu og almannaheill. Slíkir pistlar munu birtast aftur ef sambærileg mál koma upp.

Tilburðir mótmælenda með úðabrúsa ýmiss konar, og grjótkast að lögreglu, voru hins vegar þess eðlis að áhyggjur lögreglu af eigin öryggi og annarra sem á vettvangi voru, voru fullkomlega raunhæfar. Lögreglu bar skylda til að koma í veg fyrir ólöglega lokun umferðar og í ljósi viðhorfs mótmælenda er skiljanlegt að sérsveit og táraúða hafi verið beitt, þótt það hafi að sjálfsögðu verið óheppilegt. Vel færi á því að vörubílstjórar sýni í verki á næstu dögum að yfirlýsingar um að herða átökin hafi einungis fallið í hita leiksins og hafi ekki víðtækan stuðning. Hófsamari aðgerðir eru mun líklegri til að bera árangur en áframhaldandi skrílslæti.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)