Obama – Clinton baráttan harðnar

Í gær fóru fram forkosningar í Pennsylvaníu um útnefningu forsetaefnis demókrataflokksins í Bandaríkjunum. Það er skemmst frá því að segja að Clinton fór þar með sigur af hólmi, er hún hlaut 55% atkvæða en Obama hlaut 45%. Staðan var hins vegar orðin þannig að sigur var ekki nóg fyrir Clinton.

Í gær fóru fram forkosningar í Pennsylvaníu um útnefningu forsetaefnis demókrataflokksins í Bandaríkjunum. Það er skemmst frá því að segja að Clinton fór þar með sigur af hólmi, er hún hlaut 55% atkvæða en Obama hlaut 45%. Staðan var hins vegar orðin þannig að sigur var ekki nóg fyrir Clinton.

Það var fyrirfram ljóst að Clinton mundi vinna Pennsylvaníu. Að sama skapi var ljóst að Clinton þurfti að vinna með um eða yfir 10% mun til að teljast eiga einhverja möguleika á að halda áfram þátttöku. Þessum árangri náði Clinton rétt svo í Pennsylvaníu í gær. Baráttan um útnefninguna heldur því áfram og staðan er nánast óbreytt frá því fyrir kosningarnar í gær.

Staðan eftir kosningarnar í gær virðist nokkurn veginn sú að Obama hafi 1720 kjörmenn (þeir sem kjósa á landsfundi flokksins í ágúst) en Clinton 1588. Forskot Obama á Clinton er því um það bil 130 kjörmenn, en heimildum ber ekki alveg saman um nákvæman fjölda kjörmanna. Enn eru um 400 kjörmenn eftir, en nánast engar líkur eru til þess að Clinton vinni þær forkosningar sem eftir eru með það miklum yfirburðum að hún nái að saxa á forskot Obama. Stærsta fylkið sem á eftir að kjósa er Norður-Karólína með 115 kjörmenn, en búist er við að Obama vinni þar með yfirburðum, líkt og hann vann Suður-Karólínu (55%). Næstu kosningar fara fram í Norður-Karólínu og Indíana þann 6. maí.

Það er samdóma álit fréttaskýrenda í Bandaríkjunum að Clinton þurfi að láta af þeirri skotgrafa og árásarpólitík sem hún hefur stundað undanfarnar vikur ef henni á að takast að sannfæra flokksmenn sína um eigið ágæti, eða eins og New York Times segir í leiðara í dag um þessa taktík hennar: „She undercuts the rationale for her candidacy that led this page and others to support her…“

Þá er ljóst að það verður mjög erfitt fyrir Clinton að keyra áfram kosningabaráttu í þessari stöðu. Til að Clinton geti háð kosningabaráttu í Norður-Karólínu og Indíana þarf Clinton að afla fjár í kosningasjóði sína, en kosningasjóðir hennar eru nánast þurrausnir. Það verður erfitt að sannfæra styrktaraðila um að leggja fram mikið fé þegar óljóst er hvað mun fást fyrir það. Þá þarf Clinton að fá peninga ekki seinna en strax til að geta háð kosningabaráttu af krafti næstu 2 vikurnar. Þetta var augljóst af orðum hennar og stuðningsmanna hennar í fjölmiðlum eftir sigurinn í gær, þar sem því var ítrekað beint til kjósenda að fara inn á heimasíðu hennar og leggja fram fé í baráttuna.

En tvær vikur eru langur tími í pólitík og því virðist allt eins líklegt núna að úrslitin ráðist á atkvæðum svokallaðra „super delegates“ á landsfundi demókrata í ágúst. Súper-kjörmenn eru þeir sem vegna stöðu sinnar (þingmenn, ríkisstjórar og aðrir trúnaðarmenn) kjósa á landsfundinum en eru ekki hluti þeirra sem eru kosnir í forkosningunum. Fjöldi súper-kjörmanna hefur ekki enn lýst því yfir hvorn aðilann þeir munu styðja og má ætla að margir þeirra ætli að fylgja þeirri niðurstöðu sem verður á landsvísu og allt bendir til að verði Obama í vil.

Obama er enn sigurstranglegri kandítatinn og ef eitthvað er að marka þær getgátur að sá frambjóðandi vinni alltaf sem kjósendur mundu helst vilja fá sér bjór með, þá er sigurinn yfirvofandi hjá Obama; bæði í forkosningunum og kosningunum sjálfum í nóvember. Obama getur því haldið áfram að „Count down to change“.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.