Kornið sem fyllir mælinn

Eftir margra vikna friðsamlegt þref gegn ólöglegum mótmælum og sérhagsmunagæslu atvinnubílstjóra kom að því að lögreglan ákvað að marka vald sitt með því að senda mikinn liðsafla á vettvang mótmælanna. Bílstjórarnir ákváðu að storka því valdi með pústrúm og ögrunum. Við slíkar aðstæður getur lögreglan ekki annað en varið sitt svæði með þeim ráðum sem hún hefur. Ekki verður annað séð en að hún hafi beitt því valdi af hófstillingu gagnvart hópi sem sýndi af sér ógnandi hegðun.

Það er óhætt að segja að sjónvarpsmyndir síðustu daga frá átökum lögreglunnar við atvinnubílstjóra hafi verið býsna ólíkar því sem við eigum að venjast á Íslandi. Uppþot atvinnubílstjóra, sem gengið hafa langt út fyrir það sem kallast má friðsamleg mótmæli, hafa á síðustu dögum snúist upp í algjöra vitleysu. Sem betur fer er óalgengt í að lögregla á Íslandi þurfi að beita alsgáð fólk valdi. En það að vera alsgáður virðist engin gulltrygging fyrir því að dómgreindin sé óskeikul. Atvinnubílstjórarnir hafa sýnt fram á það því aðgerðir þeirra og hegðun gáfu yfirvöldum í raun engan valkost annan en að beita valdi til þess að stöðva hinar ólöglegu aðgerðir.

Sumt í málstað atvinnubílstjóra virðist hafa vakið ákveðna samúð meðal almennings til að byrja með – að minnsta kosti að svo miklu leyti sem hægt var að skilja hann. En það ef hlustað var á málflutning forystumanna þeirra í fjölmiðlum mátti vera augljóst að ofsabræði þeirra myndi á endanum leiða þá í ógöngur og þá var hætt við að engin leið önnur yrði fær lögreglunni en að beita valdi til þess að stöðva aðgerðirnar.

Þegar lögreglan hafði ítrekað reynt að tala vit í bílstjórana og gefið þeim mikið svigrúm til þess að verða friðsamlega við tilskipunum hlaut að koma að því að þolinmæði yfirvalda brysti. Það gerir sér engin leik að því að beita valdi eða ofbeldi en atvinnubílstjórarnir höfðu svo ítrekað þverskallast við að sýna sama jafnaðargeð og lögreglan að það hefði engum átt að koma á óvart að á endanum þyrfti lögreglan að marka sér svæði og taka völdin. Það gerði hún með aðgerðum sínum í Norðlingaholti.

Úr því talið var að til þess gæti komið að stöðva þyrfti hinar ólöglegu aðgerðir með valdi þá gátu forsvarsmenn lögreglunnar verið vissir um að það yrði vandasamt verk og umdeilt. Sá mikli liðssafnaður sem lögreglan kvaddi til í Norðlingaholti er ekki til marks um að markmiðið hafi verið að beita ofbeldi, heldur einmitt þveröfugt. Þar sem lögreglan sýndi slíkan liðsafla hefði öll skynsemi átt að segja mótmælendum að leiknum væri lokið og þeir kæmust ekki upp með annað en að sætta sig við þau lög sem gilda í landinu og það vald sem lögreglan hefur til þess að framfylgja þeim.

En þetta báru forsvarsmenn og foringjar bílstjóranna ekki gæfu til að skilja og upphófu þeir því ógnandi hegðun gagnvart laganna vörðum. Í slíkri stöðu getur lögreglan vitaskuld ekkert annað gert en að verja svæði sitt og vettvanginn. Og ef mótmælendur gera tilraunir til þess að þvinga lögregluna til þess þá er lögreglunni nauðugur sá kostur að beita valdi – þeim er það vafalaust mjög óljúft, en engu að síður skylt. Í þessu tilfelli var bersýnilegt að lögreglan reyndi að notast við eins mildileg úrræði og frekast var kostur, án þess þó að gefa færi á sér gagnvart hópi sem greinilega bar litla eða enga virðingu fyrir yfirvaldi lögreglunnar og gerði sig líklegan til þess að reyna að yfirbuga hana með ofbeldi, eða gefa til kynna að það væri ætlun hans.

Eðlilega valda svona pústrar lögreglu gagnvart borgurunum óróleika hjá okkur mörgum. Best er að vald lögreglunnar felist í því að borgararnir hafi vitneskju um að hún sé fær um að beita ofbeldi ef þess þurfi en að aldrei þurfi að koma til þess í raun. En ef gengið er of langt í ögrunum gagnvart valdi lögreglunnar, eins og bifreiðastjórarnir gerðu í gær, þá þarf að beita raunverulegu valdi. Þar reynir á dómgreind manna og ætíð er hægt að deila um þá ákvarðanir sem taka þarf í skyndingu á vettvangi þar sem er æsingur og átök. Þar er líklegt að eitthvað geti farið úrskeiðis og sem betur er það svo í okkar samfélagi að mjög ríkar kröfur eru gerðar til lögreglunnar að hún taki réttar ákvarðanir jafnvel við svo ofsafengnar aðstæður. Eðlilegt er að valdbeiting lögreglunnar sé gagnrýnd gangi hún of langt en slík gagnrýni má þó ekki breytast í sjálfvirka fordæmingu á hverjum þeim aðgerðum sem lögreglan neyðist til að grípa til. Aðgerðir lögreglunnar í þetta skipti voru gegn mótmælum sem eru augljóslega ólöglegar – og því ekki á nokkurn hátt sambærilegar við þau dæmi þegar lögreglunni hefur sannarlega verið beitt gegn lögmætum mótmælum.

Atvinnubílstjórar hafa neytt stjórnvöld til þess að skella skollaeyrum við kröfum þeirra – því engin stjórnvöld geta látið það spyrjast út um sig að sérhagsmunahópar geti í krafti ofbeldis og lögbrota þrýst sér fremst í röð þeirra málefna sem taka þarf afstöðu til. Og nú hafa þeir neytt lögregluna til þess óyndisúrræðis að verja almannaheill með valdi úr því að góðmennska hennar gagnvart mótmælendum var misskilin sem undirgefni eða linkind. Lögreglan og stjórnvöld eiga að sýna þolinmæði og umburðarlyndi. En í lýðræðisþjóðfélagi verður að gera kröfu til þess að pólitísk deiluefni séu ekki útkljáð með ofbeldi eða ólöglegum aðgerðum. Og til þess er lögreglan að verja samfélagið frá því að þannig staða skapist. Þótt enginn hafi viljað að aðgerðir bílstjóranna enduðu með leiðindum þá hlaut á endanum að koma að korninu sem fyllti mælinn.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.