Fyrirsagnir og fylgissveiflur

Það þótti tilefni til forsíðuuppsláttar í Fréttablaðinu í lok janúar þegar Samfylkingin bætti fylgi sitt um fimm prósentustig. Þegar sami flokkur missir rúm átta prósentustig og VG nær að auka fylgi sitt um helming nær sú frétt ekki á forsíðuna, heldur á blaðsíðu fjögur.

Fréttablaðið hefur að miklum myndaskap staðið fyrir gerð skoðanakannanna um hin ýmsustu mál undanfarin ár. Þetta er virðingarvert framtak hjá blaðinu, enda kostnaðarsamt að standa í því að hringja út og vinna úr svona könnunum en á móti koma oft hinir ýmsustu fréttapunktar. Þetta snertir eðli málsins samkvæmt oftar en ekki fylgi stjórnmálaflokkanna og fylgisbreytingar fram og til baka. Slíkar fréttir eru oftar en ekki hinar safaríkustu, lesendur hafa áhuga á að rýna í tölur og breytingar og vel þekkt er að stjórnmálamennirnir sjálfir eru afar spenntir fyrir könnunum á borð við þessar – lesa þær nánast eins og nemandi að fá einkunnaspjaldið sitt.

Í nýjustu könnun blaðsins var spurt nokkurra spurninga og í kjölfarið voru unnar upp úr niðurstöðunum fréttir. Á sunnudaginn kom frétt um hve mikill áhugi væri á því að Ísland tæki upp aðildarviðræður við ESB og í ljós kom að meira en tveir þriðju aðspurðra voru jákvæðir fyrir því að slíkar viðræður hæfust. Hvort það jafngildi áhuga á ESB-aðild er kannski annað mál en augljóslega sýnir þessi könnun að Evrópusambandsmálin eru ofarlega í hugum landsmanna um þessar mundir.

Í morgun birtust svo fleiri fréttir upp úr könnuninni, annars vegar um fylgi stjórnmálaflokkanna og hins vegar um traust almennings til Seðlabankans. Hvort tveggja athyglisverðar spurningar. Í ljós kom að 48,2% bera nokkuð traust, mikið traust eða mjög mikið traust til Seðlabankans en 51,8% bera til hans lítið eða mjög lítið traust. Til samanburðar má nefna að í nýlegum Þjóðarpúlsi Capacent kom fram að traust á bankakerfinu er 40%. Niðurstöður varðandi fylgi flokkanna voru hins vegar ekki síður athyglisverðar enda mikið gengið á í pólitíkinni að undanförnu. Í ljós kom að Sjálfstæðisflokkurinn hélt nokkurn veginn sínu frá síðustu könnun Fréttablaðsins, lækkaði að vísu örlítið en er með 38,6% og má vel við una. Samfylkingin, sem hefur verið á mikilli siglingu í vetur, verður hins vegar fyrir miklu höggi – eða flengingu eins og varaborgarfulltrúi flokksins túlkar niðurstöðurnar sjálfur – þar sem fylgið lækkar úr 35,2% í 26,8%. Þetta eru 8,4 prósentustig eða nærri því fjórðungslækkun. Á sama tíma bæta VG við sig 6,7 prósentustigum, fara úr 14,2% í 20,9% sem er tæplega helmingsaukning.

Þetta þætti nú fréttnæmt á einhverjum bæjum, jafnvel tilefni til stórfrétta. En Fréttablaðið fer þá skringilegu leið við framsetningu á þessum fréttum að leggja forsíðuna undir fréttina um Seðlabankann og lítið traust á bankanum, en segja þar ekkert frá fylgi flokkanna. Sú frétt er hins vegar sett á blaðsíðu 4 í blaðinu undir hinni hógværu fyrirsögn „Samfylking tapar en Vinstri græn sækja á“. Í fréttinni er valinn sá aðalpunktur að samkvæmt könnuninni myndi Sjálfstæðisflokkurinn halda sínum 25 þingmönnum ef kosið yrði nú. Þvílík frétt! Það er síðan ekki fyrr en eftir fyrstu millifyrirsögn að fram kemur að fylgi Samfylkingarinnar dragist verulega saman frá síðustu könnun. Með öðrum orðum er frétt um fjórðungslækkun Samfylkingarinnar og helmingsaukningu VG ekki talin sérstakt fréttaefni, heldur bara meðal þess sem greint er frá í fréttinni – á eftir fréttapunktum um að aðrir flokkar haldi sínum þingmannafjölda frá síðustu kosningum.

Hvernig samræmist þessi framsetning fyrri verkum blaðsins? Í Fréttablaðinu þann 31. janúar sl. er greint frá niðurstöðum úr sambærilegri könnun blaðsins á fylgi stjórnmálaflokkanna, sem unnin hafði verið daginn áður. Þá blésu vindar nokkuð öðruvísi, Sjállfstæðisflokkurinn var með 36,7% fylgi en Samfylkingin 34,8% og hafði bætt sig talsvert frá því í síðustu könnun þegar flokkurinn mældist með 29,8% (aukningin er þá 5 prósentustig, eða um 17%). Hvernig skyldi fréttamatið hafa verið þá?

Í það skiptið dugði ekkert minna en forsíðuuppsláttur með fyrirsögninni „Samfylking í mikilli sókn“ og í undirfyrirsögn stóð „Ekki er marktækur munur á fylgi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins“. Það var sem sagt engum blöðum um það að fletta hver fréttapunkturinn var að mati blaðamannsins þá.

Þetta er óneitanlega einkennilegt. Þegar VG nær að auka fylgi sitt um helming er það lítill fréttapunktur inn í blaðinu. Þegar Samfylkingin bætir fylgi sitt um minna en fimmtung er það forsíðuuppsláttur og til marks um mikla siglingu viðkomandi stjórnmálaflokks.

Hvernig stendur á þessu? Þótt framtak Fréttablaðsins að standa fyrir könnunum sem þessum sé afar jákvætt, er ljóst að samræmi í fréttamati er ekki aðalsmerki þeirra sem vinna úr niðurstöðunum.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.