Ruslakista á stærð við heimsálfu

Plast er alveg magnað efni. Það er endingargott og létt, sterkt, ódýrt og hægt að gera úr því nánast hvað sem er. Það er ástæðan fyrir að það er notað í bókstaflega hvað sem er. Helstu kostir plastsins eru jafnframt helstu gallar þess. Það virðist vera ódrepandi með öllu og því gríðarlegur ógnvaldur fyrir umhverfið. Eigum við samt bara ekki að tala um eitthvað annað?

Ísskápurinn minn er fullur af plasti sem er á leiðinni í ruslið. Eldhússkáparnir eru líka fullir af plasti. Öll hreinsiefni á heimilinu eru í plastílátum. Leikfangakassar dóttur minnar eru úr plasti og líka fullir af plasti. Við drekkum úr plasti, borðum af því, sitjum á því, göngum í því og jafnvel ferðumst um í plasti. Plast er alveg magnað efni. Það er endingargott og létt, sterkt, ódýrt og hægt að gera úr því nánast hvað sem er. Það er ástæðan fyrir að það er notað í bókstaflega hvað sem er.

Þessir góðu eiginleikar plastsins eru á sama tíma verstu eiginleikar þess. Sú staðreynd að það virðist vera algjörlega ódrepandi veldur því að það er mikill ógnvaldur fyrir náttúruna. Eina sönnun þessa er að finna á svæði úti á Kyrrahafinu þar sem vegna hafstrauma safnast á endanum saman allt rusl sem skolast hefur út í hafið. Sjávarlíffræðingar segja að 80% þess sem sé að finna í þessari ruslakistu Kyrrahafsins sé plast. Sorpið vegi um 3,5 milljón tonn og nái yfir svæði sem er jafnstórt og Ástralía! Langmest af þessu sorpi hefur borist í hafið frá landi og eru bara einfaldir hlutir sem við notum daglega eins og t.d. kveikjarar og tannburstar.

Eins og fram hefur komið er plast ódrepandi og óeyðandi. Það rotnar því ekki í sjónum heldur brotnar það niður í örsmáar, nánast ósýnilegar agnir, sem eru ómeltanlegar. Slíkar agnir hafa fundist í maga bæði fugla og fiska á svæðinu. Þetta er hins vegar ekki það versta. Agnirnar safna í sig ýmsum eiturefnum sem borist hafa í hafið og eru ekki vatnsleysanleg. Ýmis smádýr sjávarins á neðstu stigum fæðukeðjunnar gleypa þar með þessi eiturefni. Þannig berast þau í fiskana og/eða fuglanna og loks á endanum til okkar mannfólksins. Enn er ekki vitað hvaða áhrif þetta hefur á heilsu okkar en grunur leikur á að áhrifin geti verið þó nokkur.

Það er ekki talinn raunhæfur kostur að hreinsa þetta svæði. Það er einfaldlega of stórt og agnirnar ná frá yfirborði að a.m.k. 30 metra dýpi. Þar að auki er þetta hafsvæði sem er hvorki notað til veiða eða siglinga og því enginn beinn efnahagslegur ávinningur af hreinsuninni og ólíklegt að nokkur myndi verja þeim peningum í hana sem þörf væri á.

Þrátt fyrir að vitað sé um þá hættu sem umhverfinu stafar af plastnotkun almennings virðist ekkert lát verða á plastframleiðslu í heiminum. Það þykir sjálfsagt að öllum hlutum sé pakkað inn í plast, jafnvel fleiri en eitt lag. Það er hægt að kaupa kexpakka þar sem hverri kexköku er pakkað inn í plast, þeim raðað á plastbakka sem svo er settur í plastpakkningu. Svona vörur seljast eins og heitar lummur og fólk virðist lítið velta því fyrir sér hvað verður um allt þetta plast eftir að það er komið út í tunnu. Ég ræddi þetta „plastvandamál“ við ágætan vin um síðustu helgi og hann sagði mér að hann hefði nokkrum sinnum reynt að vekja máls á þessu máli í hópi vina og vinnufélaga og allaf fengið á tilfinninguna að hann væri „leiðinlegasti maðurinn í partýinu“. Nánast eins og hann hefði sett viðmælendur sína í óþægilega stöðu. Það er einfaldlega svo orðið svo erfitt að sneiða hjá plasti í nútímasamfélagi að það er betra að loka augunum fyrir þessu og vona að einhver annar kippi þessum skaðvaldi bara úr umferð. Tölum frekar um kreppuna, forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, veðrið – eða eitthvað annað sem við getum ekkert gert í.

Eins og fram hefur komið er langstærstur hluti þess plastúrgangs sem er að finna í umhverfinu frá almenningi kominn. Frá okkur sjálfum! Það er því alveg ljóst að eina leiðin til að sporna við mengun eins og þeirri sem lýst er hér að ofan er því að við tökum okkur á og minnkum notkun plasts. Það er ekki þægilegt það er alveg klárt. En er hinn kosturinn eitthvað þægilegri þegar til langs tíma er litið?

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)