Gullegginu verpt

Fyrir um viku síðan lauk í fyrsta sinn keppninni um Gulleggið – Frumkvöðlakeppni íslenskra háskólanema og nýútskrifaðra. Gulleggið er samkeppni um gerð viðskiptaáætlana sem haldin er af Innovit að fyrirmynd MIT háskólans í Bandaríkjunum. Fyrir tæpum þremur mánuðum voru sendar inn yfir 100 viðskiptahugmyndir. Þar af komust átta þeirra í úrslit og í fyrstu þremur sætunum urðu Eff2 technologies úr HR, CLARA frá HÍ og Bjarmalundur frá Bifröst.

Fyrir um viku síðan lauk í fyrsta sinn keppninni um Gulleggið – Frumkvöðlakeppni íslenskra háskólanema og nýútskrifaðra. Gulleggið er samkeppni um gerð viðskiptaáætlana sem haldin er af Innovit að fyrirmynd MIT háskólans í Bandaríkjunum. Fyrir tæpum þremur mánuðum voru sendar inn yfir 100 viðskiptahugmyndir. Þar af komust átta þeirra í úrslit og í fyrstu þremur sætunum urðu Eff2 technologies úr HR, CLARA frá HÍ og Bjarmalundur frá Bifröst.

Gulleggið er að okkar mati tákn um nýtt líf, nýjar og ferskar hugmyndir sem enn eru óskrifað blað en eru við það að brjótast út úr skurninni og líta dagsins ljós, vaxa og dafna. Það verður því mjög spennandi að fylgjast áfram með þeim viðskiptatækifærum sem sáu ljósið í keppninni og sjá hvort einhverjum þeirra takist að klekjast út, vaxa og dafna á næstu árum.

Það er nefnilega staðreynd að einungis lítið brot þeirra fyrirtækja sem stofnuð eru lifir af fyrstu árin. Því munu væntanlega fá þeirra fyrirtækja sem verða stofnuð í kjölfar keppninnar nokkurn tíman ná flugi, það er óumflýjanleg staðreynd viðskiptaheimsins. Munu einhverjar þessara viðskiptahugmynda leiða af sér rísandi stjörnur eða verða þær allar gleymdar eftir nokkur ár. Það eitt mun tíminn leiða í ljós, en með raunverulega virku stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja, marktækri þjálfun frumkvöðla og keppni sem þessari verður vonandi hægt að bæta árangur íslenskra sprotafyrirtækja. Hann hefur því miður ekki verið upp á marga fiska undanfarna áratugi, með örfáum undantekningum.

Þrátt fyrir að vera skemmtileg og hvetjandi keppni er meginmarkmiðið með slíkri keppni ofureinfalt: Að þjálfa upp frumkvöðla og framtíðarstjórnendur íslenskra fyrirtækja úr röðum háskólamenntaðs fólks. Því var þátttakendum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og leiðsögn samhliða keppninni. Mælingar á sambærilegum keppnum erlendis s.s. í MIT hafa sýnt að ekki er marktækur munur á milli árangurs stjórnenda þeirra fyrirtækja sem komast í úrslit, þ.e. sætið sem keppendur enda í skiptir ekki höfuðmáli. Hins vegar er vel marktækur munur á milli fyrirtækja sem fara í gegnum slíka keppni samanborið við önnur fyrirtæki.

Keppnin sameinar því í raun tvo mikilvæga þætti til að efla nýsköpun. Í fyrsta lagi er frumkvöðlum veitt þjálfun, aðhald og stuðningur en auk þess er með keppninni búin til ákveðin umgjörð sem með árunum mun vonandi verða gæðastimpill á viðskiptahugmyndir og þannig vettvangur fyrir viðskiptaengla og fjárfesta til þess að meta hugmyndir og sía þær vænlegustu út snemma í vaxtarferli fyrirtækjanna. Á Íslandi er til nægt fjármagn en hins vegar hefur verið mikill skortur á þolinmóðu áhættufjármagni til sprotafyrirtækja. Það má telja líklegt að hluti af ástæðunni sé að hér hafi annars vegar skort nægjanlega þekkingu og þjálfun frumkvöðla til að standast kröfur fjárfesta um hraðan vöxt en hins vegar hefur vantað skilvirkan vettvang til að tengja saman fjárfesta og sprotafyrirtæki á byrjunarstigum.

Innovit var stofnað árið 2007 af nokkrum núverandi og fyrrverandi nemendum við HÍ og er einkarekið frumkvöðlasetur sem er rekið í almannaþágu. Það er trú okkar sem stofnuðum Innovit að einkaframtakinu og atvinnulífinu sjálfu sé best treystandi til að byggja upp stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja. Því er Frumkvöðlakeppnin framlag okkar og þeirra öflugu bakhjarla úr íslensku atvinnulífi sem hafa lagt okkur lið. Það er von okkar að keppnin muni með tímanum marka sér sess í íslensku viðskiptalífi og sá fræjum nýrra vaxtarsprota í jarðveg atvinnulífsins.

Lesa nánar um verðlaunahugmyndirnar

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)