Störfin sem vaxa ekki á trjánum

Það virðist einhvern veginn gleymast stundum í umræðunni að störf hvorki vaxa á trjánum né detta af himnum ofan. Þau birtast heldur ekki allt í einu eins og óvæntur lottóvinningur sem galdraður er upp úr hatti stjórnmálamanna eða erlendra fjárfesta.

Það virðist einhvern veginn gleymast stundum í umræðunni að störf hvorki vaxa á trjánum né detta af himnum ofan. Þau birtast heldur ekki allt í einu eins og óvæntur lottóvinningur sem galdraður er upp úr hatti stjórnmálamanna eða erlendra fjárfesta.

Það er vissulega dagljóst að mikilvægasta verkefni samfélagsins er að skapa fleiri störf á næstu árum. Eins ákjósanlegt og það nú væri er jafn ljóst að það gerist ekki á einni nóttu. Ekki frekar en á einu ári eða jafnvel heilu kjörtímabili. Raunsætt en blákalt mat er því miður að um langtímaverkefni er að ræða og þarf að nálgast sem slíkt.

Það virðist vera útbreiddur misskilningur að eitt stærsta verkefni stjórnmálamanna, bæði alþingismanna og sveitastjórnarmanna, sé að búa til ný störf. Undir þetta viðhorf ýta þeir sjálfir með því að lofa upp í ermina á sér „þúsundum nýrra starfa“ fyrir kosningar og reglulega í fjölmiðlum. Síðan reyna þeir margir á örvæntingarfullan hátt að standa við stóru orðin með hvers kyns skyndilausnum eða bjarga sér fyrir horn með fallegri orðræðu. Að sama skapi kyndir hópur fólks, að því er virðist, undir þetta viðhorf með því að ganga að því sem sjálfgefnu að stjórnvöld eða sveitarfélög geti og skuli búa til ótakmarkaðan fjölda starfa á hverjum stað.

Rangt.

Stjórnmálamenn eiga ekki að skapa störf, enda eru þeir almennt lélegir í því. Þeir eiga fyrst og fremst að skapa hagstætt umhverfi fyrirtækja til þess að einstaklingarnir skapi fleiri störf. Stjórnmálamönnunum væri nær að lofa „besta fyrirtækjaumhverfi í heimi“. Það er bæði mun líklegra að þeim tækist að standa við það loforð og fá endurkjör að launum, en jafnframt mun líklegra að þúsundir nýrra starfa skapist í kjölfarið.

Ekki þarf annað en að hugsa um gamla góða dæmið um loðdýraræktina til að láta sér fljúga í hug að íslendingar gætu átt, eins og í svo mörgu öðru, heimsmeistaratitil í skyndilausnum – per capita – þegar kemur að atvinnumálum. En óraunhæfar væntingar og skyndilausnir eru ekki líklegar til að bæta mikið úr skák til lengri tíma litið.

Störf eru sköpuð af ósköp venjulegu fólki og uppskriftin er einföld: Blandið saman teymi af duglegu fólki við dass af fjármagni, stingið inn í hagstætt og hvetjandi fyrirtækjaumhverfi, stillið stýrivextina á lágan hita og bíðið í dágóða stund.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)