Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum

Mikilvægasta verkefnið sem íslenskt þjóðfélag stendur frammi fyrir í dag er að ná upp atvinnustigi og efla hagvöxt. Það er ljóst að kúltúrinn í íslensku samfélagi er á rangri leið þegar sístækkandi hópur einstaklinga og fyrirtækja virðist treysta á að hið opinbera dragi vagn atvinnusköpunar og hagvaxtar. Einkaaðilar eru einfaldlega mun betur til þess fallnir að draga þann vagn, til dæmis með því að fjárfesta í athafnasömu fólki og arðbærum fyrirtækjum.

Mikilvægasta verkefnið sem íslenskt þjóðfélag stendur frammi fyrir í dag er að ná upp atvinnustigi og efla hagvöxt. Fjölmargar raddir keppast þessa dagana við að benda á ábyrgð hins opinbera í þeim efnum og er vissulega ljóst er að þar á bæ mega menn ekki skorast undan þeirri ábyrgð að skapa hagstætt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulífið að vaxa í. Það er hins vegar jafn ljóst að kúltúrinn í íslensku samfélagi er á rangri leið þegar sístækkandi hópur einstaklinga og fyrirtækja virðist treysta á að hið opinbera dragi vagn atvinnusköpunar og hagvaxtar. Einkaaðilar eru einfaldlega mun betur til þess fallnir að draga þann vagn, til dæmis með því að fjárfesta í athafnasömu fólki og arðbærum fyrirtækjum.

Fjárfestingar eru lykilforsenda þess að hagvöxtur fari aftur af stað og vandamálið er ekki fjármagn. Á Íslandi er nefnilega enginn skortur á fjármagni, það er einfaldlega allt of stór hluti þess sem liggur í banka- og lífeyriskerfinu með mjög lága eða jafnvel neikvæða raunávöxtun. Þessu þarf að breyta, því það er jafn mikilvægt að koma fjármagni í „vinnu“ og það er mikilvægt að koma fólki í vinnu.

Ein af fjölmörgum leiðum til að ávaxta fé til lengri tíma litið eru fjárfestingar í sprotafyrirtækjum. Hér á landi hefur því miður ekki verið jafn rík hefð fyrir fjárfestingum í ungum fyrirtækjum og víða annars staðar þó að töluverður uppgangur hefur verið hjá íslenskum sprotafyrirtækjum undanfarin 3-4 ár og væri hægt að nefna fjölmörg fyrirtæki úr ólíkum atvinnugreinum sem eiga bjarta framtíð fyrir höndum. Í þessum fyrirtækjum liggja ónýtt tækifæri fyrir uppbyggingarfjárfesta á Íslandi sem vilja ávaxta fé sitt vel til lengri tíma litið. Til viðbótar við þá miklu gerjum sem hefur átt sér stað á þessu sviði á Íslandi undanfarin ár þá segir sagan okkur segir okkur að umtalsverð tækifæri geta legið í því að fjárfesta í nýjum fyrirtækjum á tímum efnahagssamdráttar, en mörg af þekktustu fyrirtækjum heimsins hafa einmitt orðið til í kjölfar niðursveiflu.

Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum eru þó bæði vandasamar og áhættusamar. Það er því sérlega mikilvægt að reyna að vanda valið og dreifa áhættunni þegar fjárfest er í nýjum fyrirtækjum. Það hafa margir íslenskir sem erlendir fjárfestar farið flatt á því að reyna að „veðja“ á næsta Google. Það hefur sýnt sig að jafnvel færustu fjárfestar í Kísildalnum í Bandaríkjunum eiga erfitt með að hitta á réttu fyrirtækin, en með fjölbreyttum fjárfestingum og góðri áhættudreifingu ná þeir mjög hárri og stöðugri ávöxtun til lengri tíma litið.

Á meðal fyrirtækja sem hafa verið að ryðja sér til rúms víða um heim eru svokölluð örfjárfestingarfyrirtæki á borð við Ycombinator í Kísildalnum, Seedcamp í London og Startup-bootcamp í Kaupmannahöfn. Slík fyrirtæki eru nokkurs konar sambland af ráðgjafar- og fjárfestingarfyrirtæki þar sem fjárfest er í mjög mörgum fyrirtækjum fyrir litlar upphæðir en sprotafyrirtækjunum í er í kjölfarið boðið upp á mjög stíft ráðgjafar og þjálfunarferli. Í því ferli eru stofnendur fyrirtækjanna aðstoðaðir við að mynda fyrsta flokks stjórnunarteymi, búa til söluhæfa vöru og gera fyrirtæki sín fjárfestingarhæf, þ.e. tilbúin til að taka við vaxtarfjármagni frá fagfjárfestum á síðari stigum.

Í næstu viku fer af stað hvatningarátak til athafnasemi og nýsköpunar um allan heim undir hatti alþjóðlegrar athafnaviku þar sem kastljósinu verður beint að fjölbreyttum fyrirtækjum og athafnafólki. Nú er því kjörið tækifæri til að kynna sér íslensk sprotafyrirtæki og þau tækifæri sem felast í fjárfestingum í stórfyrirtækjum framtíðarinnar. Það er afar mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að hér verði smám saman til ríkari hefð fyrir fjárfestingum einkaaðila í sprotafyrirtækjum og nýsköpun. Fyrirtækin, fjármagnið og fólkið er til staðar og nú þurfa því að allir hlutaðeigandi aðilar að taka sig saman um að nýta að nýta tækifærin og koma atvinnulausu fjármagni sem fyrst í vinnu.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)