Heillavænleg lögleiðing brasks

Nú er í meðferð frumvarp á Alþingi sem leyfir verðbréfasjóðum að lána verðbréf sín. Þetta er mjög jákvætt skref en alltaf eru einhverjar efasemdaraddir.

Á flestum þróuðum mörkuðum er skortsala verðbréfa mjög viðtekinn og eðlilegur fjármálagerningur. Skortsala felst í því að aðili A fær lánað verðbréf frá aðila B með loforði um að skila því á ákveðnum tíma aftur. A selur bréfið á markaði með væntingar um að markaðsverð bréfsins lækki þar sem hann þarf að kaupa bréfið fyrir tiltekinn tíma til þess að skila aðila B bréfinu. Ef bréfið lækkar frá því A selur það þar til hann kaupir það aftur þá hagnast hann en tapar annars.

Mörgum hugnast ekki að hægt sé að græða á því að eignir lækki og mótmæla því að svona fjármálagerningar séu mögulegir. Sérstaklega finnst sumum óeðlilegt að eignir lífeyrissjóðanna, aðalsparnaður þjóðarinnar, tengist svona “braski”.

Af hverju er lögleiðing skortsölu heppileg?

Skortsala er eins og áður sagði mjög viðtekinn og eðlilegur fjármálagerningur á helstu fjármálamörkuðum heims. Það að hafa möguleika á skortsölu dýpkar markaðinn með viðkomandi verðbréf og auðveldar skoðanaskipti á markaðnum. Eins og staðan er nú er skortsala íslenskra verðbréfa algjör undantekning. Þetta þýðir að það er annars vegar hægt að kaupa bréf eða ekki. Ef verð er óeðlilega hátt mun það haldast þannig á meðan þeir sem eiga bréfin ákveða að selja ekki. Þetta þýðir að verðmyndun endurspeglar ekki væntingar markaðarins í heild og þar með geta væntanlegir kaupendur bréfa ekki treyst því jafnvel og ella að um fullkomlega sanngjarnt og rétt markaðsverð sé að ræða. Skortsala gerir þeim, sem telja gengi bréfa of hátt, kleift að selja þau og því endurspeglar markaður með mögulegri skortsölu mun betur væntingar og mat markaðarins en markaður án skortsölu.

Af hverju eiga lífeyrissjóðir að lána sín bréf?

Ástæða þess að markaður með skortsölu er jafnlítill og vera ber á Íslandi er sú að það hefur vantað aðila sem geta eða vilja lána bréf. Litlir fjárfestar vilja geta selt sín bréf hvenær sem þeim hentar. Verðbréfasjóðir þurfa að geta selt sín bréf ef eigendur í sjóðnum vilja innleysa sína eign. Stórir hluthafar vilja oftar en ekki hafa áhrif á stjórnun félaganna og þurfa því að halda á sínum bréfum. Lífeyrissjóðir, hins vegar, eru langtímafjárfestar sem hafa fjárhagslega ávöxtun að aðalmarkmiði. Það skorðar starfsemi þeirra að litlu sem engu leyti að lána sín bréf.

Í verðbréfalánum er einnig jafnan greidd þóknun til þess sem lánar. Þannig geta lífeyrissjóðir lánað bréf og fengið þau aftur síðar án þess að missa neitt í fjárhagslegri ávöxtun og fá jafnframt greidda þóknun sem bætir bara ávöxtun sjóðsins.

Að sjálfsögðu er hagsmuna þess sem lánar verðbréf gætt til hins ýtrasta. Sá sem lánar bréf skal, samkvæmt frumvarpinu, fá tryggingar sem nema að minnsta kosti markaðsvirði bréfanna. Þá skulu allar arð- eða vaxtagreiðslur sem falla til á lánstíma bréfanna greiðast til lánveitandans. Með þessu er þess fyllilega gætt að hvorki verði lánveitandinn af ávöxtun né sé hann útsettur fyrir áhættu ef lántakandinn getur ekki staðið skil á bréfinu.

Þessi lagabreyting er í alla staði eðlileg og heppileg fyrir íslenskan fjármálamarkað. Hún er jafnframt til þess fallin að bæta ávöxtun lífeyrissjóðanna sem ætti að vera öllum Íslendingum ánægjuefni. Það að rýra hana trausti og tortryggja með “brask”-köllum og öðrum uppnefningum er algjör óþarfi.