Spýtt á Spitzer

Viðskipti Eliot Spitzer við vændiskonuna „Kristen“ voru alvarleg brot á trúnaði fjölskyldu hans og kjósenda. Starfi hans sem fylkisstjóra var sjálfhætt í kjölfarið, og ekki útilokað að eins fari um hjónaband hans. Málið sýnir í hnotskurn tvískinnung Spitzer – en ekki síður tvískinnung þeirra sem hafa veist að honum undanfarnar vikur.

Viðskipti Eliot Spitzer við vændiskonuna „Kristen“ voru alvarleg brot á trúnaði fjölskyldu hans og kjósenda. Starfi hans sem fylkisstjóra var sjálfhætt í kjölfarið, og ekki útilokað að eins fari um hjónaband hans. Málið sýnir í hnotskurn tvískinnung Spitzer – en ekki síður tvískinnung þeirra sem hafa veist að honum undanfarnar vikur.

Tvískinnungur Spitzer er augljós, þar sem hann var sjálfur saksóknari áður en hann tók við fylkisstjórastöðinni og sótti hart að þeim sem ekki höfðu sína hluti á hreinu. Eins og hann sagði í afsagnarræðu sinni lagði hann alltaf áherslu á að menn bæru fulla ábyrgð á gjörðum sínum. Hann sagði þó ekki af sér fyrr en í fulla hnefana, með vantraustsyfirlýsingar yfirvofandi.

Tvískinnungur fjölmiðla liggur í því að þeir japla nú á framferði Spitzer, og gera mikið úr ósiðlegu framferði hans, en leggja um leið mikla áherslu á hversu hugguleg „Kristen“ sé, og birta af henni myndir, misklæðalítilli, sem koma málinu minna en ekkert við. Í einu orðinu stunda fjölmiðlar opinberar aftökur á grundvelli ósiðlegs framferðis Spitzer, en í öðru bjóða þeir almenningi upp á hold, brauð og leika.

Tvískinnungur lagaumhverfisins er svo sérkapítuli út af fyrir sig. Í fyrsta lagi hlýtur að teljast í meira lagi vafasamt hvernig upp komst um málið. „Fylgdarþjónustan“ sem Spitzer átti viðskipti við hafði starfað í lengri tíma og hélt úti heimasíðu, og augljóst af síðunni hvað þar fór fram. Útilokað er annað en að starfseminni hafi fylgt töluverð velta og umfang, en engu að síður starfaði þjónustan óáreitt. Í ljósi þess er athyglisvert að kveikja rannsóknarinnar á þessari fylgdarþjónustu á að hafa verið bankafærsla Spitzer, upp á rúmar 700.000 krónur, og með ólíkindum að það sé hending. Í kjölfarið var ráðist í umfangsmikla rannsókn, þar sem þúsundir símtala voru hleraðar, og sumum þeirra í kjölfarið lekið í fjölmiðla.

Frá upphafi var einnig ljóst að afsögn Spitzer myndi hafa mikil áhrif á það hvort hann yrði sóttur til saka fyrir framferði sitt, og líklegt að hann hafi komist hjá refsingu með því að gefa embættið upp á bátinn. Það heyrir til algerra undantekninga að lögunum um vændi sé beitt í Bandaríkjunum, og yfirleitt er þá um að ræða barnavændi eða aðra augljósa misbeitingu. Lög eru auðvitað lög, en dæmi á borð við þetta, þar sem víðtækum lagaheimildum er beitt valkvætt til að ná sér niður á pólitískum andstæðingum, minna mann óneitanlega á orð Lavrenti Beria. Beria, sem var yfirmaður KGB á tímum Stalíns, á að hafa sagt við yfirmann sinn: „Sýndu mér manninn, og ég skal sýna þér glæpinn.“

Hringurinn er svo fullkomnaður með þeim fréttum sem fram hafa komið undanfarna daga um að Eliot Spitzer hafi logið til um aðkomu sína að eftirliti með Joseph L. Bruno, þingmanns í New York þinginu. Það mál snerist einmitt um að Spitzer og samstarfsmenn hans í ríkisstjórninni lögðu á ráðin um eftirlit með Bruno, sem unnið var af lögregluyfirvöldum í New York, með það fyrir augum að sverta orðstír Bruno og koma á hann pólitísku höggi.

Slagurinn heldur áfram og ekki útilokað að fleiri flækist í málið. Hvernig sem þessi skrípaleikur endar er líklegt að ýmsir málsaðilar standi uppi reynslunni ríkari um hvað gerist þegar menn stunda grjótkast í glerhúsi.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)