Niðursveifla í efnahagslífi – tími til uppbyggingar

Nú er niðursveifla íslensks efnahagslífs í hámæli. Á öllum krísutímum, hvort heldur hjá einstaklingum, fyrirtækjum eða þjóðum er lykillinn að réttum viðbrögðum og lausn vandamálanna yfirleitt falin í jafnvægi á milli skammtíma- og langtímasjónarmiða. Ásamt því að huga að skammtímaaðgerðum er því nú kjörið að huga að grasrótinni og bæta rekstrar- og stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja.

Nú er niðursveifla íslensks efnahagslífs í hámæli og hver einasti landsmaður líklega búinn að mynda sér skoðun á því máli. Líklega æði misjafnar þó. Á öllum krísutímum, hvort heldur hjá einstaklingum, fyrirtækjum eða þjóðum er lykillinn að réttum viðbrögðum og lausn vandamálanna yfirleitt falin í jafnvægi á milli skammtíma- og langtímasjónarmiða. Þ.e. að finna hinn gullna meðalveg til að hámarka skammtímaábata (ráðstöfunartekjur heimila, lausafé fjármálastofnana o.þ.h.) en á sama tíma byggja upp hagstæðar langtímahorfur, hagvöxt og stöðugleika.

Síðustu ríkisstjórnir hafa yfirleitt staðið sig nokkuð vel hvað varðar þetta jafnvægi milli skammtíma- og langtímasjónarmiða í þeim krísum sem hafa komið upp. Nýlegasta dæmið um þetta er líklega hinn mikli niðurskurður á Þorskkvóta á síðasta ári. Ríkisstjórnin kynnti umdeildar mótvægisaðgerðir, sem að stóru leiti höfðu það að markmiði að efla innviðina, s.s. samgöngur og atvinnutækifæri til lengri tíma. Fínt mál.

Enn hefur ekkert bólað á umræðu um slíkar aðgerðum í tengslum við núverandi efnahagskrísu.

Nú þegar efnahagslífið er í mikilli niðursveiflu er ekki nóg fyrir stjórnvöld að hugsa einungis um stýrivexti, verðbólgu og vísitölu krónunnar – þó vissulega sé það mjög mikilvægt. Það þarf einnig að huga að grasrótinni og bæta umhverfi nýsköpunar og nýrra þekkingarfyrirtækja. Vel heppnuð hátækni-, þekkingar- og sprotafyrirtæki skapa alla jafna mun meiri hagvöxt og tekjur en önnur fyrirtæki, svo sem innflutningsfyrirtæki, smásölufyrirtæki og iðnaður – að þessum geirum algjörlega ólöstuðum.

Staðreyndin er sú að íslensk sprotafyrirtæki hafa, fyrir utan nokkrar undantekningar, náð afskaplega döprum árangri og það tekur þau sem ná árangri yfirleitt 8-10 ár að ná sambærilegum árangri og fyrirtæki vestanhafs ná á 5 árum. Þetta helgast af stóru leyti af lélegu umhverfi fyrir sprotafyrirtæki, bæði hvað varðar laga- og regluumhverfi, stefnu stjórnvalda, stuðningsumhverfið, þjálfun og þekkingu stjórnenda auk annarra þátta.

Í alþjóðlegum könnunum kemur ítrekað fram að frumkvöðlastarfsemi á Íslandi er mikil, en hlutfall háskólamenntaðra frumkvöðla er rétt um þriðjungur frumkvöðla samanborið við 60-70% í Bandaríkjunum, Bretlandseyjum og hinum norðurlöndunum (Heimild: Global Entrepreneurship Monitor). Þessa ónýttu auðlind, sem felst í frumkvöðlageni háskólamenntaðra íslendinga, þarf að virkja.

Svo yrði það líka dýrkeyptur biti fyrir íslensku þjóðina að vakna upp af værum blundi eftir 10-15 ár við að einungis verða til störf við hæfi fyrir kannski svona 70% háskólamenntaðs fólks?!? Vegna þess eins að þekkingarfyrirtækjum fjölgar ekki með sama hraða og háskólamenntað fólk. Það tekur 10-15 ár, hið minnsta, að byggja upp samkeppnishæfan þekkingariðnað og því ekki seinna vænna að byrja strax.

Í ályktun Vísinda- og tækniráðs frá því 18. desember (www.vt.is) er meðal áhersluatriða að:

“gera nýsköpunarstarfsemi að álitlegum fjárfestingarkosti og hvetja innlenda og erlenda fjárfesta og samkeppnissjóði til að veita sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum öflugan stuðning.”

Miðað við núverandi aðgerðir virðast stjórnvöld einmitt vera að sigla þveröfuga leið og ljóst að við þurfum á stjórnmálamönnum að halda sem gera annað en að tala bara á fallegu nótunum um mikilvægi nýsköpunar án þess að hafa litla hugmynd um hvað það þýðir.

Í næstu pistlum höfundar verður bent á ýmis atriði sem gætu unnið að þessum markmiðum og tillögur til úrbóta á núverandi umhverfi. Meðal þess sem fjallað verður um er:

– Tækniþróunarsjóður og margir aðrir sjóðir stjórnvalda á villigötum
– Stuðningsumhverfið verði rekið af einkaaðilum – ekki stjórnvöldum
– Einföldun og breytingar á laga- og regluumhverfi
– Koma á skipulögðu neti svokallaðra viðskiptaengla
– Almenn fræðsla og þjálfun á háskólastigi í stofnun og rekstri fyrirtækja
– Breyta viðhorfi íslendinga um “acceptance of honest failure”

Ljóst er að allar aðgerðir í þessa átt þurfa að vera vel ígrundaðar og til að vel takist til þarf umfangsmiklar breytingar sem taka munu nokkurn tíma. En ef þær aðgerðir verða vel útfærðar munu þær til langs tíma virka eins og hinar mjög svo jákvæðu, en yfirleitt umdeildu, skattalækkanir á fyrirtæki. Skammtímakostnaður (tekjumissir í tilfelli skattalækkanna) ríkissjóðs eykst, en langtímaskatttekjur aukast til muna vegna hávirðisskapandi þekkingarfyrirtækja og aukinna erlendra fjárfestinga í íslenskum fyrirtækjum.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)