Flytjum höfnina, látum flugvöllinn vera

Um skipulagsmál Reykjavíkurborgar hef ég skrifað bæði hér á Deiglunni og á eigin bloggi. Það þarf svo sem ekki að taka það fram hversu nauðsynleg öflug umræða um skipulagsmál er þessa daga. Landspítali mun rísa í kjarna borgarinnar, flugvöllurinn skal fara eða vera kyrrsettur, gömul og niðurnýtt hús í miðbæ borgarinnar skulu rifin eða varðveitt, ný íbúðarhverfi vaxa í útjaðri borgarinnar og hugmyndir um lestarsamgöngur eru settar fram á ný. Þá hefur verið ákveðið að gera úttekt á léttlestarkerfi fyrir höfuðborgarsvæðið annars vegar og lest til Keflavíkurflugvallar hins vegar.

Um skipulagsmál Reykjavíkurborgar hef ég skrifað bæði hér á Deiglunni og á eigin bloggi. Það þarf svo sem ekki að taka það fram hversu nauðsynleg öflug umræða um skipulagsmál er þessa daga. Landspítali mun rísa í kjarna borgarinnar, flugvöllurinn skal fara eða vera kyrrsettur, gömul og niðurnýtt hús í miðbæ borgarinnar skulu rifin eða varðveitt, ný íbúðarhverfi vaxa í útjaðri borgarinnar og hugmyndir um lestarsamgöngur eru settar fram á ný. Þá hefur verið ákveðið að gera úttekt á léttlestarkerfi fyrir höfuðborgarsvæðið annars vegar og lest til Keflavíkurflugvallar hins vegar.

Lestardraumar
Deiglupenninn Samúel T. Pétursson skrifaði nú nýlega um þessa úttekt og er það ljóst að ekki er hagkvæmt að setja upp lestarkerfi innan höfuðborgarinnar eða milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Þetta eru og verða því áfram lestardraumar.

Hafa menn velt fyrir sér þeirri sjónmengun sem fylgir slíku kerfi? Þeir sem hafa heimsótt til dæmis Ósló átta sig fljótlega á þessu. Um þetta hef ég bloggað nýlega. Þar bendi ég á sjónmengun sem fylgir venjulegri lest annars vegar og léttlestarkerfi hins vegar. Mig mun því seint dreyma um lestir.

Flugvöllurinn
Hjartans mál margra stjórnmálamanna. En afstaða mín er einföld, ég vil hafa flugvöll í höfuðborginni. Ég hef áttað mig á því að íbúðauppbygging í Reykjavík þarf ekki einungis að eiga sér stað í Vatnsmýrinni. Að mínu mati er óbreytt staðsetning flugvallarins skynsamleg. Fjölmargar höfuðborgir gætu hugsað sér að hafa flugvöll í slíkri nálægð. Hvað varðar önnur þróunarsvæði í kjarna höfuðborgarinnar þá lýsi ég þeim hugmyndum aðeins hér á eftir.

Laugavegur
Ein frægasta gata þjóðarinnar. Sumir vilja sjá allan Laugaveginn sem göngugötu. Ég er ekki viss um að það muni leysa einhver vandamál frekar en að gera slíkt við Austurstræti og Pósthússtræti. Við munum ávallt lifa við fjölbreytt veðurfar og því ættum við að aðlaga gatnakerfi miðbæjarins eftir því. Nauðsynlegt er að setja upp kerfi til að loka fyrir bílaumferð á einstökum götum þegar veður gefur tilefni til.

Hvað varðar 19. aldar svip Laugavegs þá er ég svo sem ekki mótfallinn því að vernda ímynd gamla Laugavegarins. Hins vegar er ég ósammála því að Reykjavíkurborg verji skattpeningum borgaranna til að kaupa húsin og gera þau upp. Nauðsynlegt er að setja reglur um ytra útlit nýrra bygginga á þessu svæði. Í því fælist að gerður væru kröfur um ákveðinn stíl en að allt annað mætti vera eftir þörfum eiganda. Hugsanlega væri æskilegt að setja reglur um hæð bygginga. Með þessu væri ytra útlit varðveitt án þess að haldið væri upp á spýtnadrasl sem gerir ekkert gagn – hvorki menningarlegt né sögulegt.

Landspítali Háskólasjúkrahús
Mitt hjartans mál. En ég kom allt of seint inn í umræðuna. Talaði við vegginn þegar ég lýsti óánægju minni við þá ákvörðun að byggja nýja Landspítalann í miðborg Reykjavíkur. Niðurstaða þessa máls er dapurleg þótt ég telji heilbrigðismál þjóðarinnar í góðum höndum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Undir hans forystu munum við sjá miklar framfarir í íslensku heilbrigðiskerfi á næstu árum og hlakka ég sérstaklega til að sjá hvernig aukin aðkoma einkaaðila mun reynast kerfinu.

Hafnarsvæði – einkavæðing væntanleg?
Hér er um að ræða nokkuð sem ég hef verið að velta fyrir mér undanfarna daga. Ég er sammála því að ágætt væri að þétta byggð í kjarna Reykjavíkurborgar. En hvar ætti að byggja? Upprunalega fannst mér ágæt hugmynd að byrja á því að byggja þar sem nýr Landspítali verður við Hringbraut. En nú er sá draumur úr sögunni og hef ég því nokkrar aðrar hugmyndir sem gera byggð í Vatnsmýrinni hugsanlega óþarfa:

1) Það ætti að fylla upp í bryggjusvæðið við hlið nýja Tónlistarhússins og alla leið út í Örfisey og byggja íbúðir og þjónustufyrirtæki meðfram strandlínunni. Minnsta mál er svo að koma fyrir aðstöðu fyrir smábáta utan núverandi hafnargarða. Íbúum miðbæjarins myndi fjölga þar sem nú þegar er byrjað að byggja við Granda. Þannig yrði aukið framboð af svokölluðum bryggjuhverfum í Reykjavík.

2) Hafnarsvæðið sem meðal annars Samskip og Eimskip hafa til afnota er afar óheppilega staðsett og ætti að flytja annað, svo sem nær Kjalarnesi/Hvalfirði. Að mínu mati væri heppilegra að taka þetta svæði undir íbúabyggð. Þarna væri hægt að koma fyrir miklu magni af nýju húsnæði ásamt því að gera mætti brú yfir í Viðey og jafnvel byggja einnig þar. Og svo áfram brú frá Viðey yfir í Geldingarnes. Algjör synd að nýta ekki þetta landsvæði.

3) Faxaflóahafnir, fyrirtækið sem rekur meðal annars hafnarsvæðin í Reykjavík og er að stórum hluta í eigu Reykjavíkurborgar, ætti að halda sig við minniháttar hafnarstarfsemi. Erlendis er það víða þekkt að bryggjur eru í eigu einkaaðila. Ég tel að Reykjavíkurborg eigi ekki að vera í slíkum rekstri og réttast væri að Eimskip og Samskip rækju sín hafnarsvæði sjálf. Í þessu sambandi má benda á nýlega ábendingu Icelandair um óviðeigandi gjaldtöku opinberra aðila í rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Það er því spurning hvort Eimskip og Samskip vilja fjárfesta í eigin hafnarsvæði í stað þess að greiða gjöld til opinbers fyrirtækis? Slíkt gæti tvímælalaust leitt til hagræðingar í rekstri.

Þótt þessi tilflutningur á hafnarstarfsemi kostar auðvitað sitt mundu tekjur af lóðaúthlutunum á núverandi hafnarsvæði vega upp á móti. Menn skyldu hafa í huga að flutningur flugvallarins úr Vatnsmýrinni og tilheyrandi uppbygging lestarsamgangna mundi að öllum líkindum hirða verulegan hluta hagnaðar af sölu lóða í Vatnsmýrinni.

Kosturinn við þessar hugmyndir er að hægt væri að hrinda þeim í framkvæmd á mun skemmri tíma heldur en að flytja Reykjavíkurflugvöll burt. Það er kominn tími til að leysa skipulagsmál borgarinnar úr þeirri úlfakreppu sem þau eru búin að vera í um allt of langan tíma.

rej1@hi.is'
Latest posts by Reynir Jóhannesson (see all)