Byggðastefna og vítahringur sjálfsvorkunnar

Umræðan um byggðastefnu stjórnvalda skýtur alltaf upp kollinum annars lagið og eru skoðanir manna æði misjafnar á þeirri stefnu. Oft er kvartað og kveinað yfir því að byggðastefnan sé ekki nægjanlega skýr, að ég tali nú ekki um þann grátkór sem oft og iðulega hljómar í ljósvakamiðlunum um aukið fjármagn og færslu opinberra starfa út á land. Staðreyndin er hins vegar sú að grundvallarhugmyndin um byggðastefnu er alröng að mati höfundar.

Umræðan um byggðastefnu stjórnvalda skýtur alltaf upp kollinum annars lagið og eru skoðanir manna æði misjafnar á þeirri stefnu. Oft er kvartað og kveinað yfir því að byggðastefnan sé ekki nægjanlega skýr, að ég tali nú ekki um þann grátkór sem oft og iðulega hljómar í ljósvakamiðlunum um aukið fjármagn og færslu opinberra starfa út á land. Staðreyndin er hins vegar sú að grundvallarhugmyndin um byggðastefnu er alröng að mati höfundar. Stjórnvöld eiga yfir höfuð ekki að marka sér sérstaka byggðastefnu og reyna að stýra því hvar byggðakjarnar myndist, hvar ný störf verða til eða hvert fólk flytur. Slík handvirk stýring getur einfaldlega ekki endað vel, enda stenst það ekki skoðun að pólitíkusarnir á mölinni viti hvað sé fyrir bestu í sveitum landsins.

Það virðist vera frekar vinsælt þessa dagana, sérstaklega í kjölfar niðurskurðarins á Þorskkvótanum, að flytja opinber störf út á land. En hefur það alltaf jákvæð áhrif á samfélögin og eru það opinberu störfin sem sniðugt er að stofna til í litlum byggðakjörnum? Einmitt ekki. Oft eru þetta nefnilega illa launuð “bakvinnslustörf” sem seint verða talin spennandi valkostur fyrir til að mynda ungt fólk sem nýkomið er úr námi. Til að ná raunverulegum árangri verða sveitarfélögin og fólkið sjálft að skapa spennandi störf til framtíðar á sínu svæði. Að treysta á ríkið í þessum efnum er skammgóður vermir.

Svo er það annað þessu tengt sem er stórhættulegt sveitarfélögum og jafnvel heilu landshlutunum. Það er þessi vítahringur sjálfsvorkunnar sem viðgengst á ýmsum stöðum. Þessi vítahringur endurspeglast í því að sveitastjórnarmenn og frammámenn í atvinnulífinu koma fram í fjölmiðlum og lýsa því hvað allt sé vonlaust og erfitt á þessum stöðum. Þetta hefur síðan þau áhrif að unga fólkið, sem fluttist til höfuðborgarinnar að mennta sig og vill gjarnan flytja heim aftur, fær þá tilfinningu að allt sé að fara á versta veg í heimahögunum. Niðurstaðan er sú að líkurnar á því að þetta fólk snúi heim aftur minnka til muna – út af nöldri gamalla sveitastjórnarmanna. Þau eru þó örfá sveitarfélögin sem hafa áttað sig á þessu og vinna markvist í því að ímynd sveitarfélagsins sé jákvæð útávið. Þessi jákvæða ímynd mun til framtíðar gera það að verkum að ungt og vel menntað fólk flytur aftur heim og mun sjálft skapa sín eigin tækifæri. Þetta er sú “byggðastefna” sem raunverulega virkar.

Það er vissulega mikilvægt fyrir byggðirnar í landinu að fólk flytjist ekki umvörpum á brott og unnið sé að því að byggja upp atvinnutækifæri og auka lífsgæði. Frumkvæði um allar aðgerðir í þess átt verða hins vegar að koma frá sveitarfélögunum og byggðunum sjálfum, í stað þess að byggjast á tilfærslum í stjórnsýslunni og handstýrðum ákvörðunum frá höfuðborginni. Hið forna máltæki “Hver er sinnar gæfu smiður” á afskaplega vel við í þessu samhengi. Til langtíma litið munu þau sveitarfélög og byggðakjarnar sem skapa sér sín tækifæri sjálf ná mun betri árangri en þau sem gráta um niðurskurð og sækjast eftir sértækum aðgerðum og skyndilausnum.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)