Sannleikur og viðtekin sannindi

Höfundar bókarinnar Freakonomics eru óskoraðir meistarar þess sem allir ættu að tileinka sér; að skyggnast undir yfirborð hlutanna í stað þess að fallast hugsunarlaust á viðtekin sannindi.

Það lýsir Steven Levitt, hagfræðingnum á bak við költbókina Freakonomics, líklegast ekkert betur en umsögn Wall Street Journal um ritið; ef Indiana Jones væri hagfræðingur, þá væri hann Steven Levitt. Þessi samlíking er raunar ekki svo galin. Indiana Jones fór ótroðnar slóðir og hundsaði hefðbundnar vinnuaðferðir fornleifafræðinnar í leit sinni að sannleikanum. Levitt skar hinsvegar upp herör gegn viðteknum sannindum (e. conventional truth) og reynir enn þann dag í dag að fá umheiminn til að sjá hlutina í nýju ljósi og skyggnast undir yfirborð þeirra.

Þekktasta rannsóknarefni Levitts er glæpatíðni í Bandaríkjunum, orsakir hennar og afleiðingar. Árið 1995 voru glæpir orðnir ótrúlega tíðir vestan hafs, morð voru framin í meiri mæli en nokkru sinni fyrr og allir helstu sérfræðingar ríkisstjórnarinnar spáðu því að ástandið myndi versna enn frekar næsta áratuginn. Fjölskyldur í úthverfunum voru farnar að búa sig undir einhverskonar dystópískt stríðsástand í stórborgunum og stjórnvöld fylgdust ráðþrota með þróuninni.

Öllum að óvörum tók glæpatíðnin hinsvegar að lækka, og það verulega – ár eftir ár, á öllum sviðum, um allt landið. Árið 2000 höfðu morð ekki verið færri í 35 ár! En hvað hafði gerst? Svör sérfræðinga stóðu ekki á sér: efnahagslífið hafði aldrei verið betra en á 10. áratugnum, lög um byssueign höfðu verið hert og lögregluaðgerðir voru nú loksins að skila sér. Frekar augljóst dæmi, og útkoman eftir því – eða hvað?

Levitt neitaði að sætta sig við það að augljósasta svarið væri hið rétta og gróf aðeins dýpra. Með snilldarlegri hagfræðilegri skarpskyggni komst hann að annari og öllu áhugaverðari niðurstöðu. Ástæða fækkandi glæpa var einföld að hans mati, en allt annað en augljós: lögleiðing fóstureyðinga í landinu árið 1973.

Í kjölfar lögleiðingarinnar gripu fátækar mæður til þess í auknum mæli að fara í fóstureyðingar frekar en að ala börn sín upp við bagaleg skilyrði. Þar með fækkaði börnum sem annars hefðu alist upp við fátækt, en þau eru að öllu jöfnu líklegust til að leiðast út á glæpabrautina. Afleiðingin var síðan fækkun glæpa á landsvísu.

Hvort Steven Levitt hafi hitt naglann á höfuðið skal ósagt látið, en viðleitnin er í það minnsta aðdáunarverð. Hún minnir mann á að augljósasta svarið er ekki alltaf hið rétta, viðtekinn sannindi eru ekki alltaf sönn og að gagnrýnin hugsun fær jörðina til að snúast (spyrjið bara Galileó). Eitthvað sem öllum er hollt að rifja upp annað slagið.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)