Skilar neikvæð kosningabarátta árangri?

Nú þegar lokaspretturinn er hafinn í forvali Demókrata fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum hefur umræðan um áhrif neikvæðrar kosningabaráttu fengið töluverða umfjöllun síðustu daga.

Átökin á milli Barack Obama og Hillary Clinton verða harðari með hverjum deginum sem líður. Við fáum reglulegar fréttir um kosningabaráttu þeirra og undanfarna daga hafa borist fregnir um að hlutfall neikvæðs áróðurs sé að aukast. Umdeildar sjónvarpsauglýsingar Hillary Clinton hafa vakið athygli ásamt dreifiriti sem kosningaskrifstofa Barack Obama hefur gefið út. Bæði framboð hafa sakað hvort annað um að reka óheiðarlega kosningabaráttu og því virðist sem að baráttan ætli að taka á sig ekta bandarískan blæ.

Neikvæð kosningabarátta einkennist af því þegar frambjóðendur reyna að koma höggi á mótframbjóðendur sína með því að beita áróðri þar sem áherslur þeirra eru gagnrýndar, efast er um afrek þeirra og hæfni til þess að gegna embætti. Slík kosningabarátta er hvergi eins algeng og í Bandaríkjunum. Þar er mikið lagt upp úr því að koma höggi á andstæðinginn og til þess eru notaðar margar vafasamar leiðir.

En skilar neikvæð kosningabarátta tilsettum árangri? Getur ekki verið að hún hafi neikvæð áhrif á kjósendur, sem missa áhugann á kosningunum og hafi því þveröfug áhrif en henni var ætlað? Við þessum spurningum er ekki til eitt einfalt svar.

Neikvæð kosningabarátta hefur verið viðfangsefni stjórnmálafræðinnar í áratugi og eru skiptar skoðanir um áhrif hennar á meðal fræðimanna. Algengasta skoðunin er þó sú að neikvæð kosningabarátta getur skilað tilsettum árangri ef henni er beitt rétt. Það getur verið mjög fín lína á milli þess að slík kosningabarátta skili þeim árangri sem vonast er eftir og að hún hafi neikvæð áhrif á þann sem heldur úti áróðrinum. Til að útskýra þetta hefur hugtakið bjúgverplaáhrif (e. boomerang effect) oft verið sett fram. Með því er verið að líkja því við ef að neikvæði áróðurinn hittir ekki mark þegar honum er beitt þá eru líkur á því að hann muni skjótast til baka og koma höggi á þann sem reyndi að beita honum.

Þrátt fyrir að deilt sé um áhrif neikvæðrar kosningabaráttu þá virðist sem að hlutfall hennar hafi aukist verulega á undanförnum árum og áratugum og þá sérstaklega þegar litið er til Bandaríkjanna. Forvalið hjá Demókrötunum hefur verið blóðugt og munu átökin á milli Hillary Clinton og Barack Obama án efa harðna mikið á næstu dögum og vikum. Á meðan bíður stórskotadeild Repúblikanaflokksins í biðstöðu til að hefja árásir sínar á frambjóðenda Demókrataflokksins og ég efast ekki um það að þeir séu tilbúnir með heljarinnar vopnasafn fyrir þá löngu og ströngu baráttu sem er framundan.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)