Pappírstígrar og slúðurberar V

Undanfarin misseri hafa skrif í skjóli nafnleysis riðið röftum í íslenskum fjölmiðlum og verið stór þáttur í umræðu hér á landi meira segja í þeim fjölmiðlum sem vilja láta taka sig alvarlega. Sú þróun er varhugaverð og beinlínis hættuleg þegar lesendum þessara fjölmiðla er ógert að meta raunverulegan tilgang fréttanna eða öðlast skilning á raunverulegri stöðu mála.

Þórlindur Kjartansson, fyrrum ritstjóri Deiglunnar, skrifaði í síðustu viku mjög athyglisverða pistlaröð hér á Deigluna um þann ábyrgarðlausa og hvimleiða sið í íslenskum fjölmiðlum að birta fréttir og aðra umfjöllun í skjóli nafnleyndar, hvort sem er í dagblöðum, tímaritum eða á netinu.

Kveikjan að pistlaröð Þórlinds voru þau hörðu viðbrögð sem umdeild bloggfærsla Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, um pólitíska framtíð Gísla Marteins Baldursson, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vakti. Fjölmargir gerðu opinberlega athugasemdir við bloggfærslu Össurar á vefsíðu ráðherrans og sögðu hann fara langt yfir strikið. Þórlindur tók undir þá gagnrýni að bloggfærlsan væri ráðherranum til minnkunar en benti jafnframt á að öllum var ljóst hver þar hélt á penna. En það er því miður ekki alltaf svo.

Undanfarin misseri hafa nefnilega skrif í skjóli nafnleysis riðið röftum í íslenskum fjölmiðlum og verið stór þáttur í umræðu hér á landi meira segja í þeim fjölmiðlum sem vilja láta taka sig alvarlega. Slíkir gjörningar eru orðnir nokkuð þekktir í netheimum þar sem nafnlaus óhróður og andlitslaus illmælgi eru látin falla á ýmsum blogg- og spjallsíðum. Svo langt hefur þetta gengið að sérstakar slúðursíður hafa sprottið upp sam hafa það að markmiði að skapa vettvang fyrir pólitískar kjaftasögur. Það sama má segja um slúðurdálka og nafnlausa pistla í íslenskum dagblöðum sem oft á tíðum eru dulbúinn áróður notaður í þeim tilgangi að hafa áhrif á umræðuna.

Enn verra er að það virðist vera orðin viðtekin venja meðal allra fjölmiðla á Íslandi að vitna óforskammað í nafnlausra heimildarmenn og jafnvel á þá leið að slengt er fram fullyrðingum á forsíðum virtustu dagblaðanna þar sem látið er nægja að vísa í almannaróm eða fullyrðingar örfárra manna sem hafa ekki hugrekki til að koma fram undir eigin nafni, í þeim tilgangi einum að segja meira en næsti fjölmiðill, vera fystur með skúbbið eða hafa áhrif á umræðuna og hreinlega kynda undir frekari glæringar í von um bitastæðari frétt í kjölfarið.

Sú þróun sem hér að ofan er lýst er afar varhugaverð og beinlínis hættuleg þegar lesendum þessara fjölmiðla er ógert að meta raunverulegan tilgang fréttanna eða öðlast skilning á raunverulegri stöðu mála.

Nýverið féll tímamótadómur í meiðyrðamáli vegna óvæginnar bloggfærlsu á netinu þar sem höfundur var dæmur til fjársektar vegna ummæla um annan mann. Um leið og það er algjörlega nauðsynlegt að skrif á netinu heyri undir sömu lögformlegu grunnreglur og í öðrum fjölmiðlum þá er hætt við að dómurinn hvetji menn ekki til að setja nafn sitt undir ómálefnalega árásir af þessu tagi. Það verður því öllu áhugaverðara að fylgjast með ef og þegar einstaklingur mun fá bót mála sinna eftir að hafa orðið fyrir barðinu á nafnlausri árás. Slíkur dómur mundi vafaluast hafa mun meira gildi fyrir umræðuhefðina og hugsanlega verða til þess að vefmiðlar sem og aðrir fjölmiðlar dragi úr rógsherferðum af þessu tagi.

Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðissamfélaga og ber að standa vörð um það. En þetta mikilvæga frelsi þarf að umgangast af virðingu og frelsinu fylgir órjúfanleg ábyrgð. Þegar það þykir eðlilegt að vandaðir fjölmiðlar vitni ítrekað í nafnlausar heimildir í fréttaflutningi sínum þarf að staldra við. Þá eru fjölmiðlarnir farnir að aðskila frelsið og ábyrgðina sem þeim hefur verið treyst fyrir. Þeir sýna lesendum sínum lítilsvirðingu og fótum troða traustið sem til þeirra er borið.

Því miður virðast ritstjórnir og ábyrgðarmenn okkar stærstu fjölmiðla ekkert sérstaklega umhugað um breyta aðferðafræði sinni enda uppskera þeir lestur frétta-og slúðursólgins almennings. Eins og Þórlindur bendir réttilega á í síðasta pistilnum í pistlaröð sinni þá er eina leiðin til að sporna við þessari þróun að halda uppi þrýstingi á fjölmiðla með stöðugri umræðu um það hvaða aðferðir eru ásættanlegar í opinberri umræðu. Það er mikilvægt að grasrótarfjölmiðlar eins og Deiglan og annar sambærilegur vettvangur haldi uppi merkjum umræðu á hærra plani en við höfum orðið vitni að undanfarið og hveti alla hlutaðeigandi aðila til að leyfa ekki slúðurberum og pappírstígrum að misnota trúverðuga fjölmiðla í annarlegum tilgangi.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)