Spámenn og spekingar

Áhugafólk um pólitík hefur fengið mikið fyrir sinn snúð undanfarna mánuði þar sem forkosningar um forsetaefni demókrata og repúblikana hafa staðið yfir í Bandaríkjunum. Það sem hefur þó glatt mig hvað mest er hversu ‘pólitískir sérfræðingar’ höfðu skemmtilega rangt fyrir sér um þróun kosningabaráttunar og hverjir stæðu uppi sem sigurvegarar.

Ef það er eitthvað sem við getum lært af þessu tímabili í bandarískum stjórnmálum þá væri það einna helst að það borgar sig engan veginn að vera sigurstranglegastur. Fyrir rétt rúmu ári síðan þegar spekingar bandarískrar pólitíkur voru að komast á flug, virtist sem komandi mánuðir væru með öllu tilgangslausir. Þá þegar var öllum sem nokkuð vit höfðu á málavöxtum alveg ljóst að forsetakosningarnar 2008 myndu standa á milli kjarnakvenndisins Hillary Clinton og glæpahrellisins Rudy Giuliani. Clinton hafði þá allt sem þurfti að bera til þess að vera verðugur fulltrúi Demókrata. Gríðarlegt fylgi og samúð kvenna auk ómetanlegrar reynslu eftir ár sín í Hvíta húsinu við hlið eiginmanns síns. Styrkur Giuliani var þó af öðrum toga en um hann blésu ferskir vindar framkvæmdamanns sem átti ‘fylgi fólksins’ eftir að hafa upprætt glæpi New York borgar upp á eigin spýtur.

Ekki hefur þó ræst úr þeim frygðarspám sem fylgdu baráttu þessara tveggja skötuhjúa úr hlaði. Giuliani hefur þegar dregið sig út úr baráttunni eftir afspyrnuslakan árangur og þá sérstaklega í Flórída þar sem hann var með öll tromp undir. Clinton berst reyndar enn í bökkum en ólíklegt þykir að hún nái þeim stórsigrum í Texas og Ohio sem eru henni nauðsynlegir ef hún á að eiga einhvern möguleika gegn Barack Obama. Það skal þó ekki útilokað enda best að vaða ekki í drullupollana með hinum spámönnunum, þeim hættir nefninlega til að fá skítinn upp á bak.

Vandamálið við pólitískar vangaveltur og getspár er að þeir sem þær stunda hafa tilhneigingu til þess að reyna lyfta þeim upp á eitthvert æðra akademískt plan. Á þessum vettfangi hafa síðan aðeins fáir sjálfskipaðir sérfræðingar málskotsrétt. Það er þess vegna einstaklega ánægjulegt þegar þessir sömu sérfræðingar vaða í villu sem þeir reyna síðan réttlæta með því að gagnrýna á allan hátt kosningabaráttu þeirra sem voru sigurstranglegir. Á þeim tímapunkti má sem sagt vera vitur eftir á, óháð fyrri yfirlýsingum.

Einna áhugaverðasta gagnrýnin á kosningabaráttu Hillary Clinton er sú að hún og hennar fólk (og allir sérfræðingarnir sem nú benda á þennan punkt) hafi lesið kolvitlaust í hugarástand hins bandaríska almennings. Þeir sem færa fram þessi rök eru þó ekki að eyða tíma sínum í að útskýra hvert hugarástand þessa almennings (sem telur hundruðir þjóðarbrota, tugi trúarhópa og fjölda kynþátta, sem búa við margvíslegar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður) var, eða er, í raun og veru. En það er náttúrulega ekki þeirra hlutverk sem sérfræðinga og spekinga, þeir þurfa ekki að finna lausnir heldur einfaldlega halda einhverju fram og sópa síðan skömmum yfir á hluteigandi aðila ef getspáin reynist röng.