Hvað er í matinn?

Þessarar spurningar er án efa spurt á nánast öllum heimilum í hverri viku. Úrvalið sem við höfum úr að velja er næstum því orðið óyfirstíganlegt og erum við flest að miklu leyti búin að missa tengslin við uppruna þeirra matvæla sem við verðum okkur út um.

Óhætt er að segja að íslenskur landbúnaður hafi átt undir högg að sækja síðustu áratugina. Himinháa ríkisstyrki virðist þurfa til að halda lífi í sveitunum og sætta Íslendingar sig við að drjúgur hluti skatttekna ríkisins fer í að halda úti framleiðslu á landbúnaðarvörum. Því er eðlilegt að fólk spyrji sig hvort þessi kostnaður sé réttlætanlegur og hvort það sé akkur fyrir okkur Íslendinga að halda úti öflugum landbúnaði svo nálægt Norðurheimsskautinu.

Ekki alls fyrir löngu kom út ágæt bók sem fjallar í grófum dráttum um innihald matarkörfu Bandaríkjamanna. Bókin heitir Omnivore´s Dilemma, eða klemma alætunnar eftir Michael Pollock. Í bókinni er tekið á áleitinni spurningu sem nánast allar fjölskyldur kljást við hvern einasta dag: Hvað eigum við að hafa í kvöldmatinn? Í þeim tilgangi rekur höfundurinn uppruna og tilurð fjögurra mismunandi máltíða með tilliti til umhverfis- og siðfræðisjónarmiða, pólitískra viðhorfa og samfélagslegra gilda: Máltíðar sem samanstendur af fjöldaframleiddum iðnaðarmatvælum, máltíðar sem samanstendur af fjöldaframleiddum lífrænt ræktuðum afurðum og máltíðar með lífrænt ræktuðum afurðum frá litlum sjálfbærum býlum. Síðast en ekki síst lýsir hann máltíð sem hann aflar algjörlega sjálfur.

Útgangspunktur höfundarins er sú siðferðilega klemma sem hann lendir í þegar hann veltir fyrir sér kjötáti út frá réttindum dýra og kenningum heimspekingsins Peter Singer um tegundahyggju, sem áður hefur verið fjallað um á Deiglunni.

Þó að hann gangi ekki svo langt að gerast grænmetisæta, veltir hann upp ágætis spurningum um hvort meðferð þeirra dýra sem enda á disknum okkar skipti máli.

Athyglisvert er að lesa um iðnaðarframleiðslu á matvælum í Bandaríkjunum og lýsir höfundur bókarinnar því hvernig maískorn varð ein af meginuppistöðunni í öllu sem fólk hér vestanhafs borðar. Korn er notað sem dýrafóður, það er notað í lyf og kornsterkja er í nánast öllum unnum matvörum. Vísar Pollock í rannsóknir á hlutfalli kolefnissamstæðna í líkömum Bandaríkjamanna sem gefur til kynna að stór hluti fæðu þeirra eigi rætur sínar að rekja til maískorns.

Það er ekki að ástæðulausu sem korn hefur verið nýtt í svo ríkum mæli. Bandarísk kornrækt hefur verið ríkisstyrkt um áraraðir og bændum í raun gefinn hvati til að framleiða eins mikið og þeir geta. Styrkirnir og skilvirkni maísplöntunar við að nýta næringarefni náttúrunnar hafa því leitt til þess að bændur rækta eins mikið og þeir geta óðháð markaðsverði vörunnar og offramboði. Því hefur maískornið verið hræódýrt um áraraðir sem aftur hefur leitt til þess að það hefur verið notað eins mikið og hægt er í hverskyns matvælaframleiðslu. Gott dæmi um það er notkun Bandaríkjamanna á sírópi unnu úr kornsterkju sem hefur að miklu leyti komið í stað sykurs.

Lýsing Michael Pollock á meðferð þeirra dýra sem eru alin á stórbýlum er vægast sagt óhugnanleg. Fjallar hann meðal annars um aðbúnað nautgripa sem eru í langflestum tilfellum fóðraðir á maískorni. Jórturdýr eru ekki vel gerð til að melta kornið og er mjög þröngt um dýrin sem oftar en ekki lifa og hrærast í eigin úrgangi. Því eru veikindi í nautgripunum algeng sem er þó haldið í skefjum með sýklalyfjum, svona rétt nóg lengi til að þau nái kjörþyngd til slátrunar.

Höfundurinn gefur ekki mikið fyrir flestan þann lífræna mat sem boðið er upp í stórmörkuðum. Telur hann að eftirlit með því hvort að matur sé raun og veru lífrænn sé mjög óbótavant og gefur í skyn að það sé t.d. þversögn að hægt sé að kaupa lífrænan mat til upphitunar í örbylgjuofni.

Segja má að hann tali fyrir því að fæða eigi ekki einungis að vera lífræn, heldur eigi ferlið allt að vera vistvænt og meðferð eldisdýra mannúðleg. Því sé lífrænn landbúnaður á smáum búum, í nálægð við markaðina sem þeir þjónusta, í raun skásti kosturinn ef neytendum er umhugað um að það sem þeir leggja sér til munns sé vistvænt, lífrænt og siðferðilega réttlætanlegt.

Hér í New York er greinilega eftirspurn eftir vörum sem uppfylla þessi skilyrði. Ákveðinn hópur neytenda sækir í matvæli sem eru framleidd á búum í nágrenninu og gera miklar kröfur um framleiðsluferlið og t.d. að ótæpilegri orku hafi ekki verið sóað í framleiðsluna, svo sem með flutningum. Vissulega er ekki hægt að segja að slíkur markaður sé öllum opinn því að alla jafna geta þessi bú ekki keppt við ríkisstyrkta iðnaðarframleiðslu og er því matvaran nokkuð dýr. En markaðurinn virðist þó vera að stækka og telja eflaust margir það til lífsgæða að hafa aðgang að slíkum munaði, ásamt því að höfundur bókarinnar vill meina að um sé að ræða ljúffengari matvöru.

Gaman er að velta fyrir sér hvaða einkunn íslenskur landbúnaður fengi hjá Michael Pollock en við erum blessunarlega laus við mörg þeirra vandamála sem hann bendir á í bókinni. Kannski væri ráð að endurskoða hugmyndir okkar um sjálfbæra framleiðslu okkar á matvörum. Líta á það sem almenn lífsgæði og munað að t.d. íslenska fjallalambið sé í raun villibráð, þorskurinn sé ekki alinn í þröngum sjókvíum á misgóðu fóðri og ekki þurfi fúkkalyf til að halda lífi í íslenskum nautgripum áður en þeim er slátrað.

Stöðluð, einkennalaus og ríkisstyrkt framleiðsla er líklega eitthvað sem við ættum að forðast og leggja þess í stað áherslu á að framleiða matvæli í þokkalegri sátt við náttúruna. Tryggja að við höldum okkar vistvænu framleiðslu – og sætta okkur við að hún kosti sitt.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.