Hið háa ímyndarálag

Skuldatryggingaálag íslensku bankanna er mikið til umfjöllunar á Íslandi í dag, en ekki ætti að hafa farið framhjá neinum að téð álag er í hæstu hæðum þessa dagana. Þrátt fyrir að skuldatryggingaálag allra fjármálastofnana hafi hækkað mikið á undanförnum mánuðum í kjölfar óróleika á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum, er álag íslensku bankanna úr öllum takti við önnur sambærileg fyrirtæki.

Skuldatryggingaálag íslensku bankanna er mikið til umfjöllunar á Íslandi í dag, en ekki ætti að hafa farið framhjá neinum að téð álag er í hæstu hæðum þessa dagana. Álagið hjá Kaupþingi hefur skotist hæst, og sló upp í 620 punkta í liðinni viku. Þrátt fyrir að skuldatryggingaálag allra fjármálastofnana hafi hækkað mikið á undanförnum mánuðum í kjölfar óróleika á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum, er álag íslensku bankanna úr öllum takti við önnur sambærileg fyrirtæki.

Skuldatryggingaálag er afleiddur vaxtaskiptasamningur sem getur gengið kaupum og sölum. Ef að fjármálastofnun gefur út skuldabréf til að fjármagna sig, gera annar og þriðji aðili með sér samning um tryggingu skuldarinnar sem hlýst af útgáfu bréfanna. Tryggingakaupandinn greiðir því gjald til tryggingaseljandans með ákveðnu millibili, en fær á móti tryggingu frá seljandanum um ákveðna greiðslu ef útgefandi skuldabréfanna getur ekki greitt af sínum skuldum. Því endurspeglar skuldatryggingaálagið væntingar fjárfesta til greiðslufalls útgefenda skuldabréfa. Skuldatryggingar sveiflast þó oft mjög mikið eins og sést hefur glögglega á undanförnum dögum, og endurspegla ekki endilega undirliggjandi virði þeirra bréfa sem þær tryggja. Skýringin er sú að skuldatryggingar eru vinsælt tól í spákaupmennsku, en seljendur skuldatrygginga geta hagnast talsvert á að selja skuldatryggingar á háu verði og bíða þess síðan að þær lækki.

Daglega eru send út verðtilboð hjá þeim aðilum sem veita þessar skuldatryggingar, en bankar eru vissulega fjármagnaðir til lengri tíma en svo. Það er hins vegar að ljóst að ef álagið helst jafn hátt og það er núna til lengri tíma eru íslenskar fjármálastofnanir í vanda. Skuldatryggingaálag leggst beint ofan á millibankavexti, og ef fjármálastofnun þyrfti að lifa við 600 punkta álag (6%) á alla sína fjármögnun liggur í augum uppi að sú stofnun stæðist ekki samkeppni við keppinauta sína. Með svo háu álagi er í raun verið að verðleggja skuldatryggingar viðkomandi fyrirtækis út af markaðnum.

Talsmenn íslensku bankanna hafa keppst við að benda á að hið gríðarlega háa skuldatryggingálag sem þyrfti að greiða í dag endurspegli ekki raunverulega stöðu þeirra. Það er eflaust rétt, en þrátt fyrir að markaðurinn geti oft hagað sér á órökréttan hátt, þá virðast einhverjir vera að veðja gegn íslensku bönkunum. Þrátt fyrir að innlendir aðilar séu meira og minna sammála um að staða bankanna sé góð með tilliti til ytri aðstæðna, þá skortir einhvern veginn upplýsingar erlendis um raunstöðuna. Þegar íslenskir bankar búa við viðlíka skuldatryggingar og ríkið Venesúela er eitthvað að.

Íslenskir athafnamenn höfðu á orði í liðinni viku að hefja þyrfti meiriháttar ímyndarherferð erlendis til að útskýra erlendis raunverulega stöðu Íslands. Til lengri tíma munu íslenskir bankar standa mun verr haldist skuldatryggingaálagið jafn hátt og nú – sem er tilkomið, að því virðist, vegna ónægrar vitneskju um stöðuna. Lausnin við ímyndarvanda verður ekki fundin hér, en það gæti í það minnsta orðið á brattan að sækja með erlendir greiningaraðilar og fjölmiðlar hamast sem þeir mega á íslenskum fyrirtækjum.

Latest posts by Þórður Gunnarsson (see all)