Umferðalögin hvetja til afbrotahegðunar

Getur verið að í samfélagi eins og okkar sé verið að ala upp glæpamenn án þess að við veitum því sérstaka athygli? Er það meðvituð og upplýst ákvörðun að brjóta lög? Eða er það fáfræði og heimska sem verður til þess? Ef til vill er skynsemin og gagnrýn hugsun borgaranna stundum í stríði við laganna bókstaf?

Það er forvitnilegt að velta fyrir sér hvernig umferðalögin geta hvatt ökumenn til afbrotahegðunar. Pistlahöfundi eru umferðaljós sérstaklega hugleikin og vill vekja máls á því að stundum er betra að auka frelsi ökumannanna í umferðinni til þess að bæta umferðamenningu og auka löghlýðni borgaranna.

Á Íslandi, sérstaklega í Reykjavík, er mikil þörf á umferðaljósum til þess að stjórna umferðinni. Þörfin er þó misjöfn og mætti í raun skipta henni niður, annars vegar eftir vikudögum og svo hins vegar eftir tímum dagsins. Frá mánudögum til fimmtudaga á milli 07:00 – 23:00 má ætla að það sé mikil þörf á því að hafa umferðaljós til að stjórna umferðinni en eftir kl 23:00 er þörfin ekki eins mikil. Á þessum tímapunktum væri e.t.v. ráð að setja flest öll umferðaljóst á blikkandi gul.

Það er þó nauðsynlegt að hafa stærstu gatnamótin, eins og til dæmis Kringlumýrabraut og Miklabraut o.fl., með óbreyttu fyrirkomulagi. Á meðan fáfarnar götur eins og við Nýbýlaveg, Bústaðarveg ættu að vera með blikkandi gul ljós að kvöld- eða næturlagi.

Með því að breyta umferðarljósunum og setja gult blikkandi ljós á viðeigandi staði væri í raun verið að höfða til varkárni ökumanna og einnig taka sterkt upp hina gömlu góðu hægri reglu. Þetta fyrirkomulag myndi gera það að verkum að þegar aðilar væru á leið heim úr vinnu, skóla eða hvað eina annað þá væru þeir ekki að gerst lögbrjótar með því að fara yfir gatnamót á blikandi gulu sem þeir ella væru að gera ef þeir færu yfir á rauðu ljósi.

Þessi breyting myndi hafa það í för með sér að hugsanlega myndu ökumenn bera meiri virðingu fyrir umferðaljósunum á þeim tímum dagsins sem virkilega er þörf á því. Þegar reglurnar eru of strangar og nálægt því að vera ósanngjarnar þá getur það leitt til þess að hinn almenni ökumaður fari að vanvirða þær. Sú þróun er ekki þróun sem við viljum sjá verða.

Með því að taka tillit til ökumanna með því að breyta þar sem það á við, stjórnun umferðarljósa, er stuðlað að því að ökumenn sýni umferðarreglunum meiri virðingu.

Með þessi væri verið að auka frelsi ökumannsins í umferðinni en ekki hefta það með því að neyða ökumanninn til að stöðva þegar engin þörf er á því. Þetta myndi líklega bæta geðheilsu ökumanna og þannig stuðla að meira umburðarlyndi sem aftur myndi leiða til aukins öryggi í umferðinni.

Það er ekki æskilegt að við líði séu lög og reglur sem hvetja, annars löghlýðna borgara, til afbrotahegðunar. Ég held að það velji enginn að vera afbrotamaður og flestir forðist það í lengstu löð að brjóta af sér. Rödd skynseminnar er hins vegar mjög sterk rödd í hugum flestra og þegar hún segir þér að það skaði þig ekki að fara yfir gatnamótin, er lagabókstafur sem lítur út eins og rökvilla þegar ökumaðurinn ákveður að fara yfir gatnamótinu, veik mótbára.