Ósiðir borðgesta skemma ekki veisluna

Þó það sé rótgróinn ósiður að leita til ríkisins með tilteknar breytingar á skatta- og bótamálum til þess að liðka fyrir kjarasamningum virðist sem ræst hafi úr veislunni að þessu sinni, því meðal þess sem ríkisstjórnin mun leggja áherslu á eru skattalækkanir á einstaklinga og fyrirtæki. Sveitarfélögin ættu að taka þátt í þessum veisluhöldum líka.

Þrátt fyrir að óánægja með framvindu mála í borgarstjórn sé mál málanna í fjölmiðlum þessa dagana, eru önnur og stærri mál að verða að veruleika fjarri vettvangi borgarstjórnarinnar. Aðilar vinnumarkaðarins hafa náð saman um meginlínur í kjarasamningum fyrir næstu árin sem meðal annars fela í sér að mest áhersla verður lögð á að bæta hag þeirra sem setið hafa eftir í launa- og kaupmáttarhækkunum undanfarinna ára. Þetta er ekki lítið mál – í raun hefur stærsta skrefið í því að tryggja frið á vinnumarkaðnum næstu árin verið stigið og þeir sem haldið hafa á málum fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda eiga hrós skilið fyrir að landa þessum samningum.

Samningsaðilar ætla þó að viðhalda þeim ósið að leita á náðir ríkisvaldsins með tilteknar aðgerðir og breytingar í bóta- og skattkerfinu. Nú er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að ríkið tímasetji slíkar breytingar í samráði og í takt við aðila vinnumarkaðarins en það má ekki verða að reglu að fulltrúar tiltekinna félagasamtaka geti í krafti samningsstöðu sinnar knúið í gegn breytingar á bóta- og skattamálum eftir sínu höfði. Valdið til að gera slíkar breytingar er hjá hinum kjörnu fulltrúum eins og vera ber enda eru skatta-, bóta- og kjaramál þjóðarinnar og stefnur stjórnmálaflokka á því sviði ekki síst það sem kosið er um á fjögurra ára fresti hér á landi.

Þrátt fyrir ósiði ákveðinna borðgesta virðist þó ætla að rætast úr veislunni í ár því boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til þess að liðka fyrir kjarasamningum munu m.a. fela í sér að álögur á fyrirtæki og einstaklinga verða lækkaðar. Það er frjálslyndu fólki gleðiefni en skattar á fyrirtæki voru síðast lækkaðir árið 2001, úr 30% í 18%. Það mun létta undir með fyrirtækjum en það sem meira er gerir skattalækkun á fyrirtæki Ísland að enn eftirsóknarverðari stað fyrir fyrirtæki til að starfa á. Þar á Ísland auðvitað í samkeppni við önnur lönd um ákjósanlegar aðstæður til fyrirtækjareksturs og skattar spila eðlilega stórt hlutverk.

Skattar á einstkalinga voru hins vegar lækkaðir myndarlega á síðasta kjörtímabili, eða um 3 prósentustig auk þess sem persónuafsláttur var hækkaður verulega. Sú breyting hefur raunar nú orðið að persónuafsláttur mun hækka árlega í samræmi við verðlag sem ætti að slá á þá gagnrýni sem fram kom að hann hafi ekki hækkað nægilega að raungildi. Þessar tvær stærðir – persónuafsláttur og skattprósentan ákvarða skattleysismörk á Íslandi, sem eru um 95 þúsund krónur eins og sakir standa og munu líklega hækka ráðist ríkisstjórnin í frekari skattalækkanir.

Það skatthlutfall sem íslenskir launþegar sjá á launaseðli sínum mánaðarlega er tæplega 36%. Það er umhugsunarefni hve stóran hluta sveitarfélög eiga af þeirri innheimtu en flest sveitarfélag eru með útsvar sitt í lögbundnu hámarki – 13,03% en ríkið tekur 22,75% til sín. Ríkið hefur lækkað sitt hlutfall, þ.e. sinn hluta af innheimtunni, hratt undanfarin ár á meðan sveitarfélögin hafa aukið við sig. Þótt sveitarfélögin hafa vissulega tekið yfir ákveðin verkefni undanfarin ár og þurfi tekjustofna til þess að standa undir þeim virðist oft sem skattagleðin sé óhemjanleg á sveitarstjórnarstiginu. Til þess að bæta gráu ofan á svart er það skilyrði af hálfu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna fyrir hluta af sínum styrkveitingum að sveitarfélög séu með útsvarið í hámarki. Hvatinn til að lækka álögurnar er því enginn en Jöfnunarsjóður útdeilir mörgum milljörðum árlega. Út úr þessum vítahring verða sveitarfélögin að brjótast.

Sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa tækifæri til þess að taka frumkvæði í þessum efnum. Það þarf ekki að fletta lengi í gegnum fjárhagsáætlun borgarinnar til þess að sjá að þar má hagræða og gera margt betur. Lækkun útsvarsins þyrfti ekki að vera stórtæk – t.d. 0,10% lækkun sem tæki gildi næstu áramót og önnur eins að ári liðnu. Aðalatriðið væri að stærsta sveitarfélag landsins taki forystu í að vinda ofan af þeirri stefnu í skatta- og fjármálum sem sveitarfélögin hafa markað sér.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.