Þröngt á miðjunni

Nýlegar skoðanakannanir hafa sýnt fram á að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur farið þverrandi undanfarnar vikur. Slíkt gengistap er skiljanlegt í ljósi atburða í Reykjavík þar sem mikill óstöðugleiki hefur ríkt í langan tíma og kjósendur hafa ekki haft tíma til þess að kynnast vinnubrögðum og verkum nýs meirihluta og móta sér skoðun á þeim.

Nýlegar skoðanakannanir hafa sýnt fram á að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur farið þverrandi undanfarnar vikur. Slíkt gengistap er skiljanlegt í ljósi atburða í Reykjavík þar sem mikill óstöðugleiki hefur ríkt í langan tíma og kjósendur hafa ekki haft tíma til þess að kynnast vinnubrögðum og verkum nýs meirihluta og móta sér skoðun á þeim.

Það er á vettvangi landsmálanna sem aðstæður gætu gefið tilefni til áhyggna. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórnarsamstarfi með Framsóknarflokki þá áttu kjósendur nokkuð auðvelt með að þekkja verk hvors flokks fyrir sig. Sjálfstæðisflokkurinn lækkaði skatta, einkavæddi fyrirtæki og minnkaði völd hins opinbera. Vegna þessa gekk þjóðinni vel og fylgi flokksins var sterkt fyrir vikið.

Nú horfa málin öðruvísi við. Sú ríkisstjórn sem er að störfum í dag hagar störfum sínum ekki á þann hátt að kjósendum sé ljóst hvaðan góðu verkin koma. Þetta hefur komið Samfylkingunni betur en Sjálfstæðisflokknum eins og stendur.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki sýnt jafn góða takta þar sem landsmenn virðast ekki ná að tengja þá nægilega vel við verk núverandi ríkisstjórnar. Kannski er ástæðan sú að núverandi verk ríkisstjórnarinnar eru of miðjusækin.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að eiga sín hægrimál sem kjósendur geta borið kennsl á. Mál sem verða seint kennd við vinstri pólitík. Hér skulu nefnd nokkur dæmi.

Tillögur nefndar forsætisráðherra um Ísland sem fjármálamiðstöð eru hvergi sjáanlegar í starfi ríkisstjórnaflokkana. Þetta mál þarf að komast aftur á dagskrá.

Í tengslum við kjarasamninga hafa skattalækkanir loksins aftur verið teknar á dagskrá. Skoðanir margra þingmanna Samfylkingarinnar á skattalækkunum eru velþekktar („Galið!“). Lækkum skatta þrátt fyrir úrtölumennina.

Frumvarp sem gekk út á að skerða eignarrétta kráreigenda og banna reykingar á veitingahúsum skildi eftir sig gott loft en vont eftirbragð. Hér er þörf á meiri meðalhófi en lagt var upp með í byrjun.

Annað frumvarp var lagt fram sem gekk út á að leyfa landsmönnum að kaupa rauðvín af öðrum verslunum en áfengiseinokunarverzlun ríkisins hefur mætt gríðarmikilli tortryggni á þingi. Svo mikilli tortryggni reyndar að má nær fullyrða að núverandi Alþingi hefði ekki samþykkt endurkomu bjórsins árið 1989.

Eftir að Þingvallarstjórn tók við völdum var handbremsubeygja tekin í einkavæðingum ríkisfyrirtækja. Það var einungis með herkjum að ríkisstjórninni tókst að selja tugþúsundir fermetra af tómu húsnæði á Suðurnesjum en það má alls ekki ræða sölu á smásöluverslun Ríkisins sem er í nokkur hundruð metra fjarlægð.

Þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru hvattir til þess að muna að lykill að velgengni flokksins og landsins alls undanfarna tvo áratugi hefur verið byggt upp á einu orði:

Frelsi.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.