Heilbrigði með góðu eða illu

Hvað sem fólki finnst um reykingar hljóta flestir að vera sammála um að framkvæmd reykingabannsins hér á landi sé hálfgert skrípi og því hafi mistekist að uppfylla tilgang sinn. Það segir sitt að mörg stærstu öldurhús miðbæjarins hafa undanfarna daga leyft gestum sínum að reykja inni, sumir í sérstökum rýmum og aðrir bókstaflega um allt, og borgaryfirvöld staðið ráðþrota hjá með sárt ennið. Er ekki verr af stað farið en heima setið þegar lögin eru þverbrotin og afleiðingar þess engar?

Síðan bann við reykingum á vinnustöðum tók gildi síðasta sumar hefur frjálshyggjumótspyrnan hægt og bítandi látið undan síga og prinsippraddirnar sem jafnan mótmæla ríkisafskiptum á borð við reykingalögin hljóðnað. Svo kom að undirrituðum fannst nóg um lydduna og skrifaði greinarkorn á vefsíðuna frelsi.is um málið, og minnti á að þótt lögin hefðu formlega tekið gildi væri algjör óþarfi að sætta sig við óréttlætið þegjandi og hljóðalaust. Viðbrögðin létu ekki á sér standa; veitingamenn sýndu mótþróa sinn í verki með borgaralegri óhlýðni að hætti hússins og hópur þingmanna undirbýr nú nýtt frumvarp til reykingalaga

Hvort þjóðfélagsfrömuðnum sem pistil þennan ritar sé um að þakka þessar framfarir skal látið ósagt en alls ekki útilokað. Framvindan er engu að síður gleðileg. Hvað sem fólki finnst um reykingar hljóta flestir að vera sammála um að framkvæmd reykingabannsins hér á landi sé hálfgert skrípi og því hafi mistekist að uppfylla tilgang sinn. Það segir sitt að mörg stærstu öldurhús miðbæjarins hafa undanfarna daga leyft gestum sínum að reykja inni, sumir í sérstökum rýmum og aðrir bókstaflega um allt, og borgaryfirvöld staðið ráðþrota hjá með sárt ennið. Er ekki verr af stað farið en heima setið þegar lögin eru þverbrotin og afleiðingar þess engar?

Það skrítnasta við framkvæmd bannsins hlýtur þó að vera það gildismat sem haft er að leiðarljósi. Það er alveg ljóst að ef yfirvöld hefðu haft áhuga á að sætta mismunandi sjónarmið, þ.e. eignarréttinn og vinnuvernd, hefði hæglega verið hægt að fara sömu leið og til dæmis Danir. Þar eru skemmtistaðir undir ákveðnum stærðarmörkum undanþegnir banninu og öðrum er heimilt að halda úti sérstökum loftræstum reykrýmum innanhúss. Þannig geta reykingamenn reykt í friði úti í horni og aðrir geta skemmt sér í reyklausu umhverfi. Þeir frændur okkar gerðu líka ráð fyrir því að framkvæmd laganna myndi ekki heppnast fullkomlega í fyrstu atrennu og verða þau því endurskoðuð að tveggja ára reynslutíma liðnum.

Það kveður við annan tón hér á landi þar sem heilsuverndin er svo ofstopafull að meira að segja reyklausum vinstri mönnum blöskrar. Það þarf ekki annað en að horfa á Kastljósið þann 4. Febrúar, en þar er einn helsti forvígismaður reykleysis og reykingabanns, þingmaðurinn Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, spurð álits á dönsku leiðinni, þ.e. að leyfa reykingar í lokuðum og loftræstum rýmum. Hún svaraði því til að þó enginn þyrfti að fara inn í herbergin nauðugur væri ræstingafólkið sem síðan yrði að þrífa herbergin í hættu vegna nikótínmengunar. Hún tjáði sig sannarlega ekki um heilsuspillandi áhrif þess að standa heilt kvöld úti í 15 gráðu frosti með sígarettu í hönd. Það var og. Ætli nokkur þingmaður hafi áður sagt „étið það sem úti frýs“ jafn hátt og snjallt við kjósendur?

Líklegast finnst fæstum stórhætta fylgja nikótínögnunum sem gætu leynst í lofti hinna loftræstu reykherbergja mörgum klukkutímum eftir að drepið var í síðustu sígarettunni þar inni. Þegar málsvarar heilsuverndar eru farnir að seilast svo langt eftir réttlætingu á jafnvitlausum lögum er alveg ljóst að einhverskonar trúarlegt ofstæki liggur að baki, en ekki heilbrigð skynsemi, og slíkar hvatir kunna aldrei góðri lukku að stýra þegar þær drífa áfram fólkið sem setur samborgurum sínum lög og reglur.

Það er því full ástæða til að þakka þeim veitingamönnum sem hæst hafa haldið frelsiskyndlinum og fylgt sannfæringu sinni í kjölfar lagasetningarinnar. Sömuleiðis ber að fagna þeim þingmannahópi sem hefur í hyggju að endurskoða lögin. Þeir sem kvíða því mest að bakka með bannið ættu að lokum að leiða hugann að því að nú hefur reyklaus rekstur í fyrsta sinn skotið rótum á landinu og því engin ástæða til að ætla að allir fari aftur í sama farið og leyfi reykingar innanhúss. Þá er bara að róa sig niður og vona að ofstækið beri ekki skynsemina ofurliði öðru sinni.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)