Prinsipplaus pólitík

Kjósendur eru ekki fífl og þá ber að umgangast af virðingu. Málefnin skipta máli umfram valdapot og eiginhagsmuni þá sem nú virðast vera í tísku í höfuðborginni. Stjórnmál snúast fyrst og fremst um það að vinna traust kjósenda til að geta staðið fyrir góðum og gegnum verkum í anda þeirrar stefnu sem stjórnmálaflokkar hafa markað sér. Sú hegðun sem stjórnmálamenn í Reykjavík hafa sýnt undanfarin misseri er því ekki til eftirbreytni þar sem hún rýrir traust kjósenda á stjórnmálum, málefnum og flokkunum.

Í annað sinn á rétt ríflega hundrað dögum hafa kjósendur í Reykjavík verið hafðir að fíflum af þeim fulltrúum sem voru valdir til trúnaðarstarfa fyrir þeirra hönd í borgarstjórn Reykjavíkur. Skeytingarleysið við kjósendur í borginni er algjört og valdagræðgin ein ræður för öllum til minnkunnar. Kjósendur eru látnir efast um eigin dómgreind og stjórnmálamennirnir láta hugsjónir lönd og leið í þeirri einu von að fá að sitja við stjórnartaumana, annað hvort með hnífasett í bakinu eða vopnaðir rýtingum tilbúnir til að bregða þeim þegar síst er von.

Eftir öll lætin í borgarstjórn í október síðastliðnum: tár Björns Inga, bros Svandísar og takkaskó Dags er ótrúlegt að hugsa til þess að í fyrradag hafi sama staðan komið upp. Fischer heitinn hefði ekki einu sinni séð þessa fléttu fyrir og lái honum það enginn. Er það nema vona að menn hafi haldið 1. apríl vera í gær þegar fréttin birtist fyrst á netinu? Fyrrverandi borgarstjóri er orðinn núverandi formaður borgarráðs og núverandi fyrrverandi stjórnarandstöðumaðurinn sem taldi sig svikinn á vormánuðum 2006 er nýr borgarstjóri.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, maðurinn sem hartnær klauf Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn og gerði hvert axarskaftið á fætur öðru telur sig hafa traust borgarbúa til starfa aftur í meirihluta. Og meðreiðarsveinninn? Ólafur F. Magnússon, andstæðingur byggðar í Vatnsmýri og heilagur verndari bárujárnshúsa við Bergþórugötuna og Laugaveginn. Nýi borgarstjórinn vart kominn úr leyfi þegar hann slítur samstarfi við núverandi, fyrrverandi meirihluta, í trássi við varaborgarstjórnarmanninn, Margréti Sverrisdóttur, sem styður hann ekki. Ekki beint traustvekjandi meirihlutasamstarf í uppsiglingu. Ef borgarstjórinn forfallast t.a.m. vegna veikinda eða frís þá má ekki halda borgarstjórnarfundi með varamanninum því að hún styður ekki meirihlutann. Þetta er svo ótrúleg atburðarrás að manni langar helst til að flytja – það er víst gott að búa í Kópavogi.

Núverandi meirihluti, sem gagnrýndi REI-listann óspart, er einfaldlega kominn í sama leik og fyrrverandi meirihluti og er því engu skárri en Samfylkingin, Framsókn og Vinstri-Græn. Grundvallarhugsjónir eru látnar víkja fyrir draumnum um að vera við stjórnvölinn. Hamagangurinn var t.a.m. svo mikill við fyrri hallarbyltinguna í október að það gleymdist að útbúa málefnaskrá. Nýi meirihlutinn ætlaði þó greinilega ekki að láta hanka sig á hinu sama og kynnti á blaðamannafundinum í gær málefnaskrá. Þegar litið er á hana er ljóst að Ólafur F. Magnússon hefur gengið skælbrosandi frá samningaborðinu. Ekki nóg með að hann fái borgarstjórnarstólinn heldur verða öll hans helstu baráttumál í forgrunni. Það á t.a.m. að tryggja flugvöllinn í sessi í Vatnsmýrinni allt of lengi og halda sem fastast í alla ónýtu kofana í miðbænum. Haldið er aftur til fortíðar í skipulagsmálum borgarinnar, þvert á yfirlýstan vilja einhverra fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðismenn hafa klárlega gefið eftir á málefnasviðinu. Í ljósi þess og meirihlutasamstarfs sem vegur salt á forfallaleysi Ólafs er ótrúlegt að sjálfstæðismenn hafi lagt út í myndun nýs meirihluta. Í þokkabót verður Ólafur borgarstjóri og getur í því starfi gert ýmsan óskunda. Áhættan sem flokkurinn tekur er mikil enda einsýnt að ef þetta samstarf bregst að þá blasa við ákaflega erfiðar kosningar að tveimur árum liðnum. Ekki bætir úr skák að Vilhjálmur viðurkenndi í Kastljósinu í gærkvöldi að hafa ekki vitað af afstöðu Margrétar Sverrisdóttur. Það lítur því út fyrir að nýi meirihlutinn hafi verið myndaður í miklum flýti án tryggs baklands.

Á næstu dögum þarf svo að manna nefndir og ráð borgarinnar í þriðja sinn á þremur mánuðum. Þrír borgarstjórar og jafnmargir nefndarformenn og formenn borgarráðs. Hvernig geta kjósendur treyst því að menn komi einhverju í verk? Og loks þegar menn hafa setið af sér hveitibrauðsdagana í borgarstjórnarsætinu þá verður enn einu sinni skipt. Að vísu sest þá gamall maður í hettunni í sætið og vonandi stendur hann sig þá betur í annarri tilraun. Er nema von að kjósendur spyrji sig hver sé eiginlega kostnaðurinn við þennan farsa? Biðlaun og starfslokasamningar, bætur vegna afturkallaðra framkvæmdaleyfa vegna Laugavegar 4-6, tapaðar vinnustundir og endurunnar hugmyndar. Ókeypis í strætó skiptir bara engu máli þegar peningunum er sólundað í vitleysisgang.

Kjósendur eru ekki fífl og þá ber að umgangast af virðingu. Málefnin skipta máli umfram valdapot og eiginhagsmuni þá sem nú virðast vera í tísku í höfuðborginni. Stjórnmál snúast fyrst og fremst um það að vinna traust kjósenda til að geta staðið fyrir góðum og gegnum verkum í anda þeirrar stefnu sem stjórnmálaflokkar hafa markað sér. Sú hegðun sem stjórnmálamenn í Reykjavík hafa sýnt undanfarin misseri er því ekki til eftirbreytni þar sem hún rýrir traust kjósenda á stjórnmálum, málefnum og flokkunum.

Þessi kafli stjórnmálasögunnar sem nú er að skrifast í borginni er einfaldlega öllum sem að honum koma til vansa. Réttast væri að kasta öllum meðlimum borgarstjórnar fyrir Róða, bæði meirihluta og minnihluta og velja nýtt fólk til starfa. En til þess þarf kosningar og þær koma víst ekki fyrr en eftir tvö og hálft ár. Þangað til þarf maður að fylgjast með sífellt breytilegri framvindu í borginni og farsakenndum átökum stjórnmálamanna í prinsipplausri pólitík.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)