Reikningurinn sendur borgarbúum

Er ekki kominn tími til að nýr meirihluti í Reykjavíkurborg fari í naflaskoðun hvað fjármálin varðar í stað þess að heimta alltaf sífellt meira fé frá íbúum borgarinnar?

Þann 31. desember síðastliðin tók í gildi nýtt fasteignamat sem er grundvöllur fasteignaskatta 2008. Fasteignamat eignar tekur bæði til húss og lóðar og er fasteignamati skipt í húsmat og lóðarmat. Um er að ræða gangverð sem umreiknað er til staðgreiðslu.

Tilgangur fasteignamats er fyrst og fremst að skapa grundvöll fyrir álagningu opinberra gjalda en fasteignamatið er stofn fasteignagjalda, eignarskatts og erfðafjárskatts. Yfirfasteignamatsnefnd ákveður í nóvembermánuði ár hvert stuðla fyrir skráð matsverð fasteigna með hliðsjón af breytingu verðlags fasteigna við kaup og sölu síðustu tólf mánuði á undan.

Um áramótin hækkaði matsverð íbúðarhúsa um 6% – 20% eftir því hvar á landinu fasteignin var staðsett. Í kjölfarið ákváðu mörg sveitarfélög að lækka fasteignaskatta á íbúa sína til að koma í veg fyrir aukin útgjöld vegna breytts matsverðs á fasteignum. Nýr meirihluti í Reykjavík ákvað hins vegar að afhafast ekkert og láta íbúana taka á sig alla þá hækkun sem tilfellur vegna breytts fasteignamats sem er um 12% hækkun.

Það ætti svo sem ekki að koma neinum á óvart að núverandi meirihluti hafi brugðist við þessari óvæntu tekjuaukningu með þessum hætti. Með þessari hækkun færast auknir fjármunir frá borgarbúum í hendur stjórnmálamanna sem nú eru við völd í borginni. Vinstrimenn eru ekki þekktir fyrir að standa að skattalækkunum og finnst væntanlega ekkert athugavert að þessir fjármunir falli í þeirra skaut.

Reykjavíkurborg fullnýtir nú útsvarið samkvæmt lögum og innheimtir 13,03% ásamt því að taka til sín auknar tekjur vegna hækkaðs matsverðs fasteigna. Er ekki kominn tími til að nýr meirihluti fari í naflaskoðun hvað fjármálin varðar í stað þess að heimta alltaf sífellt meira fé frá íbúum borgarinnar? Er ekki mun vænlegra að borgarbúar hafi meira að segja um í hvað tekjum þeirra sé varið eða fái yfir höfuð að eyða þeim sjálfir.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.