Clinton, McCain og Obama – bestu kostirnir

Áhugi um heim allan á prófkjörum fyrir bandarísku forsetakosningarnar er skiljanlegur. MIkilvægast er að með sigur fari frambjóðandi sem mun stuðla að betri utanríkisstefnu og meiri virðingu fyrir mannréttindum. Á þessum tveimur sviðum hafa Bandaríkin brugðist síðustu ár. Repúblikaninn John McCain og demókratarnir Barack Obama og Hillary Clinton eru líkleg til þess að bæta eitthvað af þeim skaða sem orðið hefur.

Ljóst er að fáar kosningar hafa eins mikil áhrif á þróun heimsmála eins og forsetakosningar í Bandaríkjunum og af þeim sökum er ekki óeðlilegt að áhugi á málinu nái langt út fyrir bandaríska landsteina. Deiglan hefur undanfarna viku fjallað um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum sem fram fara næsta nóvember. Helstu frambjóðendum hefur verið gerð nokkur skil og einnig ýmsum þeim málum sem hæst bera meðal kjósenda.

Utanríkisstefna Bandaríkjanna undanfarin átta ár hefur valdið mörgum hugarangri og vonbrigðum. Innrásin í Írak var óþörf var óþörf og byggðist bersýnilega á ósannindum á sínum tíma og hafa Bandaríkin sopið seyðið af þeirri ákvörðun sinni síðan, en bætt gráu ofan á svart með því að gera hver mistökin á fætur öðrum í rekstri stríðsins og samskiptum sínum við írösku þjóðina, nágrannaþjóðirnar og heimsbyggðina. Bandaríkin hafa fórnað mikilvægum gildum, svo sem eins og virðingu fyrir mannréttindum, í stríðinu sem sagt er vera gegn hryðjuverkum. Einkafyrirtækjum hefur verið falinn stríðsreksturinn í auknum mæli með þeim afleiðingum að fjöldi þungvopnaðra manna gengur þar um í skjóli þess að enginn lög þessa heims ná yfir aðgerðir þeirra. Pyntingar í fangelsum í Írak, ótrúleg vanvirðing við réttarríkið í tengslum við rekstur fangabúðanna í Guantanamo á Kúbu og meðvirkni bandalagsþjóða Bandaríkjanna við flutning fanga til landa þar sem pyntingar þykja réttlætanlegar hafa valdið orðspori allra Vesturlanda illbætanlegu tjóni.

Pólitísk forysta í Bandaríkjunum er því langt frá því að vera einkamál Bandaríkjamanna. Eins og sjá má á upptalningunni hér að ofan hefur á Deiglunni verið fjallað ítarlega um utanríkismál Bandaríkjanna á undanförnum árum. Þessi áhugi Deiglunnar á Bandaríkjunum kemur vitaskuld til af því mörgum aðdáendum Bandaríkjanna hefur sviðið að horfa upp á þróun undanfarinna ára og frjálslynt fólk um heim allan, sem bar ákveðnar vonir til George W Bush, hefur orðið fyrir miklum vonbrigðum. En það er dýrt fyrir þjóðir að velja sér vanhæfa forystu.

Helstu frambjóðendur í prófkjörum stóru flokkana í Bandaríkjunum virðast líklegir til þess að snúa við stefnu Bandaríkjanna í utanríkismálum. Þeir eru líklegri en núverandi valdhafar til þess að skapa nægilega samúð og samstöðu meðal þjóða heims til þess að ráðast með réttum meðölum að þeim vandamálum sem helst ógna friði og frelsi. Þeir eru líklegri til þess að standa vörð um mannréttindi og virðast ekki hafa sömu þörf og Bush stjórnin til þess að breiða yfir sannindi og fela staðreyndir.

Tveir frambjóðendur Demókrata hafa raunverulega möguleika á því að verða frambjóðendur flokksins. Þetta eru Barack Obama og Hillary Clinton. Ef annað þeirra verður forseti Bandaríkjanna mun kjör þeirra í sjálfu sér valda gleðilegum tímamótum í sögu Bandaríkjanna. Ef kona eða blökkumaður verður forseti Bandaríkjanna ætti sú staðreynd ein og sér að vekja með fólki vonir og væntingar, enda hafa þessir tveir hópar verið útilokaðir frá helstu valdastöðum í Bandaríkjunum. Starf Bandaríkjaforseta felst ekki síst í því að vekja sjálfstraust og stuðla að jákvæðni og bjartsýni í bandarísku samfélagi, enda sýnir sagan að huglægir þættir geta miklu ráðið um hvort samfélög upplifa framþróun, stöðnun eða afturför. Þessir frambjóðendur eru báðir líklegir til þess að valda því hlutverki með sóma. Einkum á þetta við um Obama sem nýtur þess að vera laus við þá bagga sem fylgja Hillary vegna þeirra fjölmörgu hatrömmu orrusta sem hún hefur háð ásamt eiginmanni sínum. Ókostir Obama felast í vantrú hans á frjálsan markað og nokkuð popúlíska afstöðu til ýmissra innanríkismála. Engu að síður er líklegt að hvort þeirra sem er muni móta og fylgja heilladrýgri utanríkisstefnu en núverandi forseti.

Í röðum Repúblikana koma fjórir frambjóðendur enn til greina. Rudy Guiliani, fyrrum borgarstjóri New York, kann raunar að hafa misst af lestinni nú þegar. Gott ef satt er, enda virðist Giuliani jafnvel enn sinnalausari um réttindi og friðhelgi borgaranna heldur en núverandi stjórnvöld. Mike Huckabee, presturinn frá Arkansasa, hefur fordæmt utanríkisstefnu Bandaríkjanna fyrir hroka og þröngsýni. Hann hefur mun skynsamlegra hugarfari í þessum efnum heldur en núverandi stjórn. Huckabee er hins vegar ekkki líklegur til þess að njóta mikillar virðingar á alþjóðavettvangi. Hann er reyndar einstakur ræðumaður, býr yfir miklum persónutöfrum – en afneitun hans á þróunarkenningu Darwins og fleiri furðulegar bókstafstrúarkenningar hans munu líklega duga til þess að hann verði afskrifaður af stærstum hluta heimsbyggðarinnar sem læs er á bækur.

Þá eru ótaldir þeir frambjóðendur sem líklegastir eru til að verða frambjóðendur Repúblikana. Þeir eru Mitt Romney og John McCain. Hinn fyrrnefndi hefur stuðning núverandi stjórnvalda og hefur aðgang að æðisgenginni kosningastríðsvél þeirra. Hann fylgir sömu aðferðum og Bush og trúir því að neikvæð kosningabarátta og persónulegt skítkast séu fullkomlega eðlileg meðöl í baráttunni fyrir völdum. Hann vill að fangabúðirnar í Guantanamo verði tvöfaldaðar og lýst sérstökum áhuga á að grunaðir hryðjuverkamenn hafi ekki aðgang að lögmönnum. John McCain hefur hins vegar verið í forystu þeirra bandarísku stjórnmálamanna sem hafa barist gegn pyntingum og ólöglegum handtökum. Hann styður stríðið í Írak en hefur fordæmt framgang þess og krafðist eindregið afsagnar Donalds Rumsfeld.

Líklega eiga Romney og Clinton betri möguleika en mótherjar þeirra um þessar mundir. Skipulagsgeta mun ráða miklu um niðurstöðu í prófkjörunum sem eftir eru, enda byggjast þau mjög á smölun. Kosningabarátta McCain virtist fyrir skemmstu vera á grafarbakkanum og því mun þurfa að lyfta grettistaki til að koma upp kosningavélum í þeim fylkjum sem næst munu kjósa. Í tilviki Obama munu hinir áhugasömu, ungu og einlægu aðdáendur hans eiga erfiðara með að hafa sambærileg áhrif þegar kosið er í tugum fylkja á skömmum tíma heldur en þegar unnt var að beina öllum kröftum að Iowa og New Hampshire.

Þegar skoðaðir eru þeir fjórir frambjóðendur sem helst koma til greina, og þeir metnir á grundvelli þess hversu líklegir þeir eru til að bæta það tjón sem núverandi stjórn hefur valdið í alþjóðamálum virðast þrír þeirra gefa tilefni til bjartsýni. Sá eini sem líklegur er til þess að halda áfram að valda skaða er Mitt Romney, enda líklegt að margir þeirra pótintáta sem tengjast Bush veldinu muni halda áhrifastöðum sínum í ríkisstjórn hans.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.