Árið sem Múrinn féll

Fyrir rúmlega einu ári síðan benti Deiglan á ártalsvillu í umfjöllun Múrsins um sögu Suður-Ameríku. Í kjölfarið hætti Múrinn að koma út. Það var nú kannski fullmikið af hinu góða.

Fyrir rúmlega einu ári síðan benti Deiglan á ártalsvillu í umfjöllun Múrsins um sögu Suður-Ameríku. Í kjölfarið hætti Múrinn að koma út. Það var nú kannski fullmikið af hinu góða.

Í greininni Alræmdasti einræðisherra samtímans sem birtist á Múrnum þann 17. desember 2006 var því ranglega haldið fram að þjóðaratkvæðagreiðslan þar sem Pinochet tapaði völdum hafi farið fram árið 1989 og komið í kjölfarið á hruni járntjaldsins, á meðan að hið sanna er að hún fór fram árið 1988, a.m.k. átta mánuðum fyrir fyrstu hálflýðræðislegu kosningarnar í Póllandi sem mörkuðu upphaf endaloka kommúnismans í Austur-Evrópu. Undirritaður benti á þessa staðreyndavillu í pistlinum Róttæklingur fokkar upp ártali sem birtist á Deiglunni þann 29. desember árið 2006.

Það liðu um það bil 6 mánuðir frá fyrstu hálflýðræðislegu kosningum í Póllandi og þar til kommúnískar harðstjórnir höfðu fallið í Póllandi, Ungverjalandi, Tékkóslóvakíu, Austur-Þýskalandi, Búlgaríu og Rúmeníu. Það liðu sömuleiðis einungis 6 mánuðir frá ártalsvillunni meinlegu og þangað til að Múrinn, hinn íslenski, var fallinn. Svo valtur var kommúnisminn í Austur-Evrópu að hann féll með hraðanum eitt ríki á mánuði. Var Múrinn svo brothættur að það þurfti ekki nema eina innsláttarvillu til að kippa fótum undan tilveru hans?

Það var sagt á sínum tíma að vefritin höfðu komið í staðinn fyrir flokksblöð. Færslan úr flokksblöðunum yfir í vefrit þýddi fjölmennari, hraðari, óvægari og oftast nær óvandaðri málflutning. Nú spá því margir að vefritin fari sömu leið og flokksblöðin og bloggið taki alfarið við. Þetta mun væntanlega þýða enn fjölmennari, enn hraðari, enn óvægari og oftast nær enn óvandaðri málflutning en áður, en það þýðir ekkert að býsnast yfir því. Og flest bendir til að þessar spár séu að rætast. Mörg vefrit hafa lagt upp laupanna að undanförnu eða átt í miklu basli með að halda uppi reglulegri uppfærslutíðni og háum gæðum. Nema Vefþjóðviljinn, sem kemur ótrauður út alla daga ársins, og enginn vafi liggur á að þar séu ágætir íslenskumenn á ferð.

Ein af fyrstu greinum sem ég skrifaði á Deigluna fjallaði um Hrun kommúnismans og greinin svar við þeirri fullyrðingu, sem oft hefur heyrst meðal margra íslenskra vinstrimanna, að það hafi verið harðstjórnarþátturinn í sósíalisma Austur-Evrópu sem hafi gert hann ónýtan og vondan en ekki sósíalisminn sjálfur. Flest okkar sem bjuggu handan járntjaldsins litu með öfundaraugum til þess vöruúrvals og lífsgæða sem íbúar á Vesturlöndum bjuggu við. Það hefði verið frábært að geta sagt að við þráðum málfrelsið og lýðræðið heitar en gosið, plastinnkaupapokana og gallabuxurnar, en það var bara ekki þannig. Aðalástæða hrunsins var ást fólks á kapítalisma, ekki andúð á þess á harðstjórn.

Þessar fullyrðingar mínar kölluðu vitanlega á viðbrögð, hér og þar um vefinn, meðal annars á Múrnum. Það var mikil upphafning fyrir ungan penna og var mér hvatning í áframhaldandi skrifum. Ég hafði ekki haft aldur eða þroska til að reyna brjóta hinn gamla múr í Berlín. En hinn íslenska Múr reyndi ég að kítla af og til.

Múrsins, hins íslenska, sakna ég. Reglulega lendi ég í því þegar ég sest fyrir framan tölvuna að fingurnir slá lén Múrsins af gömlum vana, ég horfi á óuppfærðu síðuna birtast og renni yfir seinustu greinar. Í seinustu grein er aftur minnst á Pinochet, sem virðist vera rauður þráður í þessari sögu. Þar á eftir les maður kveðjugreinar allra helstu besservisseranna á vefritinu, sem maður vissi ekki að væru kveðjugreinar þótt þeir hefðu eflaust vitað það. Mér finnst það erfitt við hinn frjálsa markað þegar rótgróin fyrirtæki breyta um nafn eða hverfa þann fyrsta einhvers mánaðar án þess að maður fái tíma til að kveðja gamla vörumerkið. Dag einn hætti Tal að vera til. Og ég sem hafði fjárfest í kúli öll þessi ár!

Þannig kvaddi Múrinn skyndilega vefhringinn minn eftir sjö ára samveru. Við hin verðum bara að halda áfram að halda uppi merkjum vefritanna. Og passa vel upp á ártölin okkar.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.