Romney: Íhaldsmaður af Guðs náð… eða hvað?

Auðjöfurinn og fv. ríkisstjóri Massachusetts Mitt Romney hefur af mörgum verið kallaður óskakandidat flokkseigandafélags Repúblikanaflokksins í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum. Hann er ýmsum kostum búinn en er þó jafnframt umdeildur.

Auðjöfurinn og fv. ríkisstjóri Massachusetts Mitt Romney hefur af mörgum verið kallaður óskakandidat flokkseigandafélags Repúblikanaflokksins í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum. Hann er ýmsum kostum búinn, þykir glæsilegur, á sand af seðlum til að auglýsa sig, er af góðum Repúblikanaættum og stefnumál hans bera vott um íhaldssemi í félagslegum efnum (sem þykir mjög fínt hjá mörgum vestanhafs). Hann er þó jafnframt umdeildur og virðist líklegur til að fara í ansi hart í baráttu sinni ef eitthvað er að marka ásakanir úr herbúðum andstæðinga hans.

Það sem vinnur helst gegn honum er að hann er mormóni og er sagður skipta um skoðun eftir því hvernig vindar blása. Kannanir hafa bent til þess að einn fjórði kjósenda Repúblikanaflokksins sé ekki neitt voðalega opinn fyrir að velja forsetakandídat sem er mormóni. Aftur á móti hefur heyrst gagnrýni úr röðum evangelíka sem telja Romney ekki vera nógu mikinn mormóna. Vandlifað er í henni veröld.

Afstaða Romneys til vissra umdeildra málaflokka hefur breyst nokkuð frá því hann sóttist eftir sæti öldungarþingmanns árið 1994. Mest áberandi eru sinnaskipti hans til fóstureyðinga og til réttinda samkynhneigðra. Skoðanir hans hafa breyst í íhaldssama átt, furðu mikið að sumra mati. Andstæðingar Romneys hafa stokkið á sinnaskiptin, notað hvert tækifæri til að benda á þau og uppnefnt hann flip-flop Romney.

Samkvæmt Romney eru grunnstoðir Bandaríkjanna fjölskyldan, herinn og efnahagurinn. Stefna Romneys í félagslegum efnum, frá lögleiðingu kannabisefna til byssueignar almennings, höfðar nokkuð vel til kristinna íhaldsmanna. Romney verður seint settur í flokk með frjálslyndum mönnum.

Stefna Romneys í efnahagsmálum þarf ekki að koma á óvart. Hann er almennt stuðningsmaður skattalækkana, styður frjáls milliríkjaviðskipti og vill að Bandaríkin séu óháð öðrum ríkjum þegar kemur að orkumálum.

Utanríkisstefna Romneys þykir nokkuð lík stefnu núverandi valdhafa í Hvíta húsinu. Romney studdi innrásina í Írak, fjölgun hermanna þar og er ekkert á þeim buxunum að senda hermennina heim. Hann útilokar ekki beitingu kjarnorkuvopna gegn Íran ef ekkert annað dugar, er mótfallinn að forseti Bandaríkjanna ræði við ráðamenn ríkja sem eru fjandsamleg Bandaríkjunum og er hlynntur fjölgun innflytjenda til Bandaríkjanna svo lengi sem þeir eru þar löglega.

Margar yfirlýsingar Romneys varðandi utanríkismál hljóta að stuða hinn venjulega Íslending, t.a.m. telur Romney að tvöfalda eigi Guantanamo og að óvinir Bandaríkjanna sem teknir eru höndum í Írak eigi að vera geymdir í Guantanamo þar sem þeir hafa ekki aðgang að lögmönnum sem þeir myndu hafa á bandarískri grundu. Romney er stuðningsmaður svokallaðra “enhanced interrogation techniques” en það eru harkalegar aðferðir sem notaðar eru við upplýsingaöflun í hinu svokallaða stríði gegn hryðjuverkum.

Þrátt fyrir að Romney væri ekki líklegur til að ná árangri með stefnumál sín á Íslandi á margt sem hann stendur fyrir hljómgrunn meðal íhaldssamra Bandaríkjamanna. Hvort Mitt Romney höfði til annarra en þeirra er ólíklegt.
——————-
www.mittromney.com