Heilafóður á nýju ári

Til að skilja betur hvernig heimurinn umhverfis þig virkar er hagfræðileg grundvallarhugsun ákveðin lykilforsenda. Tilvalin leið til að fóðra heilann nauðsynlegum sterum er að leggja reglulega leið sína í bloggheima hinna nýju rokkstjarna hagfræðinnar og er kannski ekki vitlaust nýársheiti nú um áramótin.

Hagfræði er sennilega sú fræðigrein sem hefur einna minnstan kynþokka af þeim vísindagreinum sem í dag eru viðteknar sem ein af grunnstoðum vísindasamfélagsins (og ekki þykja þær margar kynþokkafullar yfir höfuð). Það var t.a.m. ekki langt liðið frá fæðingu hagfræðinnar að hún var uppnefnd „drungavísindin“ eða „The dismal science“ af þeim sem hugnaðist lítt hagfræðilegur þankagangur um miðja 19. öldina. Enda upphaflega aðallega byggð á tölfræði og ýmsum stærðfræðitækjum til að lesa út úr henni.

Sá heillandi heimur sem hagfræðin er í dag er einnig að verulegu leyti fjarverandi úr íslensku námsefni á nánast öllum skólastigum. Það litla sem námsmenn fá að kynnast hagfræðinni – ef þeir þá eru svo lánsamir – virðist vera lítið annað en hálfsnautlegt yfirborðskrafs á formi framboðs-og-eftirspurnar línurita , markaðsjafnvægis, verðmyndunar og ýmissa tóla og tækja sem hagfræðin hefur þróað í gegnum árin.

Hagfræðin er því sennilega sú vísindagrein ungir Íslendingar kynnast einna verst á sinni skólagöngu frá grunnskóla í háskóla.

En hagfræðin er í raun orðin að miklu fjölbreyttari fræðigrein en að útbúa gagnleg tól og tæki. Í dag flokkast hún sem stór félagsvísindagrein sem rannsakar mannlega hegðun út frá því flókna samspili sem liggur milli upphaf og endamarkmiða þar sem leiðirnar eru takmörkunum háðar og notkunarmöguleikar fjölbreyttir, svo reynt sé að þýða hinu viðteknu skilgreiningu Lionel Robbins frá 1932 á hugtakinu (e. „the science which studies human behaviour as a relationship between ends and scarce means which have alternative uses). Hún tengist heimspekivísindum sífellt nánari böndum.

Í mjög fáum orðum er hagfræðin sú vísindagrein sem rannsakar það sem kalla má „markaðurinn“. Og markaðurinn er orðinn töluvert heimspekilegra fyrirbæri en sá markaður sem flestum okkur dettur í hug þegar hugtakið ber á góma, þ.e. áþreifanlegt vörutorg með efnislegum vörum. Markaðurinn er í raun orðinn að einni heildrænni tilgátu um mannleg samskipti á flestum sviðum þar sem hver og einn er neytandi og/eða framleiðandi á efnislegum sem óefnislegum vörum og með eigið verð- eða gildismat. Markaðurinn er í raun orðinn rammi utan um samfélagsregluna, ef svo má að orði komast (byggt á Aldrigde 2005: „The Market“).

En hagfræðingar hafa lengi vel verið tregir að víkka sjóndeildarhringinn út fyrir ramma vel skilgreindra kennistærða fjármálageirans og skoða samfélagið í víðu samhengi. Því hefur lengi verið eftirlátið pólitískum kenningasmiðum 19. og 20. aldar, oftar en ekki til óheilla frekar en heilla. Milton Friedman er sennilega einn þekktasti brautryðjandinn í þeim efnum á seinni hluta síðustu aldar. Hann hóf að skýra út samfélagsmálefni út frá kennisetningum hagfræðinnar (ekki síst eigin hagfræðikenningum, hér má sjá hann á spjalli í sjónvarpssal RÚV árið 1984). En undanfarin misseri hafa sprottið fram hagfræðingar sem þora að takast á við samfélagið í víðum skilningi og nýta tól og tæki hagfræðinnar til að leita skýringa á mannlegri hegðun.

Freakonomics er bók sem ætti að vera mörgum lesendum Deiglunnar vel kunn, enda fjallað um hana í ágætum pistli Jóns Steinssonar frá 2005 (Hvers konar börn fá góðar einkunnir?). Freakonomics er eftir hagfræðinginn Steven Levitt (Chicago) og blaðamanninn Stephen Dubner (New York Times). Í henni leitast höfundarnir við að svara óvenjulegum spurningum eins og: Af hverju búa fíkniefnasalar oftar en ekki í foreldrahúsum? Hvað eiga Ku Klux Klan og fasteignasalar sameiginlegt? og Hvað eiga kennarar og súmóglímumenn sameiginlegt?

Lesendur eru hvattir til að lesa pistil Jóns og bókina sjálfa.

Einnig má nefna bókina „The Undercover Economist“ er síðan önnur frábær bók sem veitir innsýn inn í hugarheim hagfræðings sem nálgast samfélagsspurningar með hagfræðilegum tólum og tækjum. Hún er eftir breska hagfræðinginn og blaðamanninn Tim Harford sem er sömuleiðis umsjónarmaður BBC þáttaraðarinnar „Trust me, I’m an economist“.

En þótt bækur hafi reynst öflugar fyrir hagfræðinga að koma hugðarefnum sínum á framfæri þá er bloggið jafnvel að reynast enn öflugri miðill. Á undanförnum árum hafa margir af færustu hagfræðingum heimsins haldið inn á vit bloggheima til að gefa nýja sýn á ýmis málefni líðandi stundar, og oftar en ekki þannig að úr spretta mjög öflugar og lifandi umræður í kjölfarið, þar sem einstaklingur úr öllum heimshornum og með margs konar bakgrunn veita andsvör og skapa lifandi umræður sem bækur geta aldrei framkallað.

Bloggvefur hagfræðiprófessoranna Tyler Cowen og Alex Tabarrok við George Mason háskólann í Washington – MarginalRevolution.com – er í dag sennilega langvinsælasti bloggvefur svokallaðra hagfræðibloggara eða „econobloggers“ eins og þeir eru stundum kallaðir. Vefurinn nýtur þess sem hlýtur að flokkast sem hálfgerð ofvirkni og ólæknandi forvitni Cowens, sem uppfærir vefinn oft of mörgum sinnum á dag, og virðist hafa einstaka gáfu til að lesa í gegnum heilu bækurnar á svo sem einni kvöldstund (aðferðina við að lesa hratt í gegnum bækur og verða „menningarmilljónamæringur“ eru síðan útskýrðar á skemmtilegri bók hans sem kom út á síðasta ári: Discover Your Inner Economist).

Aðrir góðir vefir eru síðan öðrum hagfræðiprófessorum á borð við Gregory Mankiw á gregmankiw.blogspot.com og Gary Becker (ásamt lögfræðiprófessornum Richard Posner) á becker-posner-blog.com. Á þessum síðum eru samfélagsmálin krufin með tækjum hagfræðinnar, vísað er í nýjust rannsóknir og bent á upplýsandi og athyglisvert efni annars staðar á netinu, svo vitnað sé í annan góðan pistil eftir Snæbjörn Gunnsteinsston um svipuð mál og birtist hér á Deiglunni 2006 (Ósýnilegi háskólinn). Levitt og Dubner blogga svo á The Freakonomics Blog og blogg skrifuð af hagfræðiprófessorum má sömuleiðis finna á Cafe Hayek og New Economist.

Það er óhætt að fullyrða að lestur þessara bóka og reglulegt bloggvafur um hugðarheima helstu hagfræðiprófessora heimsins veitir ómetanlega innsýn inn í það hvernig heimurinn í kringum okkur virkar. Í hverju felist skynsemi og hverju ekki. Og mesta snilldin er sú að það er ekki forsenda að vera hagfræðimenntaður til að komast fljótt og vel inn í helstu hugtök hagfræðinnar og ná grundvallarskilningi á hagfræðilegri hugsun. Hagfræðin byggir á einfaldri rökhyggju sem flestir ráða við, ef þeir einbeita sér að því og láta tilfinningar og fordóma ekki flækast fyrir. Flest hugtökin eru útskýrð á mannamáli og yfirleitt má finna góðar skilgreiningar á Wikipedia.

Ég vil því leggja til að sem flestir strengi þess heit á árinu að fæða heilann sinn alvöru heilafóðri og lesi umræddar bækur og leggi leið sína reglulega inn á vefi hagfræðibloggaranna. Það eru alvöru sterar fyrir heilann.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.