Völvuspá fyrir 2008

Framtíðin er ráðin. Valva Koskinkorva spámiðill hefur svipt hulunni af helstu viðburðum komandi árs og upplýsir við lesendur um sitt hvað óvænt. Vafi um framtíðina tilheyrir fortíðinni og lesendur Deiglunnar geta hafið undirbúning fyrir nýtt ár með fullkomnar upplýsingar um hvað það ber í skauti sér.

Það var viðeigandi óveður yfir borginni þegar ritstjórn Flugufótarins hélt á árlegan fund með spámiðili í þeim tilgangi að leita frétta af óorðnum atburðum. Síðasta ár hefur reynst ritstjórninni þungbært þar sem völvan harðneitaði að setja fram spá fyrir árið 2007 og skellti dyrum í andlitið á útsendurum Flugufótarins – jafnvel þegar þeir mættu dulbúnir. „Þetta Deiglupakk fær ekki áheyrn hjá mér,“ þrumaði hún bak við lokaðar dyrnar eftir að hafa skellt á trýnin á okkur. Við vorum stórundrandi á þessari hegðun enda höfðum við greitt umsamið verð fyrir völvuspá undanfarinna ára og staðið í þeirri trú að samband okkar við Völvu Koskinkorvu væri í prýðilegu standi. Jafnvel þótt hún hafi einnig afboðað okkur um áramótin þar á undan þá töldum við að ekkert væri athugavert og áttum á engu illu von þegar við hófum tilraunir okkar til þess að tryggja okkur starfskrafta hennar fyrir þessi áramót.

Valva Koskinkorva, spámiðill, völva og fjárfestir, hefur verið óvenjulega stygg síðustu mánuði. Ritstjórn Deiglunnar reyndist erfitt að fá tíma til að hitta hana fyrir þessi áramót en hún gaf sig á endanum með þeim skilyrðum að fulltrúar Flugufótarins sýndu tilhlýðilega virðingu í háttum og klæðaburði. Við mættum þess vegna uppáklædd í síðkjólum og smókingum, stífpressuðum skyrtum, háglansandi skóm og með litskrúðuga klúta, linda og handhnýttar slaufur. Valva tók á móti okkur klædd á hefðbundin hátt, í litríkum prjónakjól með tóbaksklút á höfðinu, fremur reikul í spori og virðist annars hugar. Hún horfið niður í rennvott teppið við útidyrahurðina og muldraði „Komið inn“ – og snérist á hæl. En fraus svo skyndilega í sporum sínum lyfti upp hægri hendinni hægt en ákveðið og sagði stundarhátt: „En ekki konan. Í þetta hús stígur engin önnur kona en ég og móðir mín.“

Eftir örlítinn fund ákváðum við að senda konuna í okkar hópi heim. Það er seinni tíma mál að sigrast á þessu kynjamisrétti með viðeigandi löggjöf og lögregluaðgerðum. En þetta kvöld létum við jafnréttishugsjónina víkja og skildum kvenkyns ritstjórnarmeðlimi eftir úti í storminum en vonuðum að hann yrðu fljótur að fá leigubíl. Við hinir settumst inn í hlýjuna og virtum fyrir okkur þá torkennilegu muni sem prýða heimili völvunnar, ýmsar greinilega ættaðar úr djúpt úr Afríku meðal annars torkennilegar smábrúður með brjálæðissvip og tugi títiprjóna á kafi í sér.

„Ég hef á tilfinningunni að árið 2008 verði langt ár og í því verði margir dagar, óvenjulega margir. Ég sé fyrir mér að ýmsir stórviðburðir eigi sér stað á árinu. Sérstaklega sé ég fyrir mér að augu heimsins beinist bæði til Nýja heimsins í Vestri og forna heimsins í austri þegar líður á haustið. Mun þetta verða af ólíkum ástæðum,“ segir hún. „Valdaskipti verða í einu voldugasta ríki heims, og munu margir fagna því innilega,“ bætir hún við en vill lítið tjá sig nánar um það.

Völva segir að samheldni í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins muni ná nýjum hæðum. „Árið 2007 var nokkkuð erfitt fyrir borgarstjórnarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins af því þeir stóðu svo mikið saman að þeir tróðu nánast hver öðrum um tær og voru svo sáttir að þeir máttu vart þrengra sitja – þannig að þeir stóðu upp hver í sínu lagi. En árið 2008 verður miklu þægilegra þar sem þeir munu nú geta staðið saman einir og óstuddir af framsóknarmanninum slóttuga sem lék á þá á síðasta ári,“ segir hún – og kveikir á reykelsi.

„Það verður allra veðra von og miklar líkur á jarðhræringum á árinu, jafnvel eldgosum. Ég útiloka það ekki. En það er náttúrlega bara náttúrulegt,“ bætir hún við kíminn á svip. „Ég hef meiri áhuga þetta árið á íþróttunum þar sem ég sé mikla gerjun. Það verða margir spennandi kappleikir og mikið um dýrðir næsta haust. Íslenskir íþróttamenn munu margir koma á óvart, sumir vegna góðrar frammistöðu en aðrir vegna slakrar frammistöðu. Miklar væntingar verða gerðar til ákveðinna íþróttamanna. Þær munu bregðast,“ segir hún.

Um ríkisstjórnina vildi völvan lítið tala en sagði þó. „Ég sé fyrir mér að ýmsir ráðherrar muni hafa uppi yfirlýsingar sem aðrir munu túlka á versta veg og bregðast ókvæða við. En foreldrarnir í ríkisstjórninni munu halda aga á barnaskaranum,“ bætir hún við. Um Morgunblaðið sagði völvan: „Ritstjórn Morgunblaðsins mun halda áfram að stjórna samfélaginu með prýðilegum árangri í gegnum sífellt minna dulbúin skilaboð í leiðaraskrifum og umbrotI blaðsins. Heimsmynd Morgunblaðsins og raunveruleikinn munu þó halda áfram að þróast í sitthvora áttina án þess að ritstjóri Morgunblaðsins geri greinarmun þar á,“ segir hún – og bætir svo við – dottin úr transi. „Reyndar kom hér maður af ritstjórn Morgunblaðsins um daginn og afhenti mér sérstakt blað undir yfirskriftinni „Framtíðin ráðin“ þar sem fram komu ákvarðanir um framtíð landsins og var ég beðin um að koma þeim áleiðis í spádómum mínum. Þar átti ég m.a. að spá fyrir stjórnarslitum, nýjum borgarstjórnarmeirihluta, algjöru hruni hlutabréfamarkaðar, gjaldþroti Kaupþings, fangelsun Jóns Ásgeirs upp á vatn og brauð í rússnesku fangelsi og að leiðarar Morgunblaðsins yrðu á ný marktækir í þjóðmálaumræðunni. En ég sinni náttúrlega ekki svoleiðis enda væri það gegn siðareglum völva og spámiðla,“ segir hún.

Fjölmargar aðrar spár kvað Völvan á meðan stormurinn buldi á húsinu þetta dimma kvöld. Hún spáði því að hlutabréfarmarkaðurinn yrði sveiflukenndur, að óraunhæfar væntingar yrðu gerðar í kringum Eurovision, að þjóðkunnir menn myndu heimsækja landið í sumar og vekja athygli, að deilt verði á ofsalaun forstjóra og athafnamanna og ýmislegt fleira óvænt og áhugavert kom þar fram.

En völvan okkar vildi ekki láta meira hafa eftir sér að þessu sinni. „Ég get ekki tjáð mig um meira því spár mínar eru svo nákvæmar að þær flokkast sem innherjarupplýsingar og þarf að tilkynna bæði í Kauphöll og til Greiningardeildar Ríkislögreglustjórans áður en kemur fyrir almenningssjónir.“

thorlindur@deiglan.com'
Latest posts by Flugufóturinn (see all)