Forsetinn þarf mótframboð

Ólafur Ragnar Grímsson ætlar að gefa kost á sér til þess að halda áfram í embætti. Líklegt er að mikill meirihluti kjósenda styðji þá hugmynd, enda hefur forsetinn eignast marga nýja aðdáendur í embætti. En yfirburðastaða eins frambjóðenda telst ekki vera rök gegn því að halda kosningar, nema í löndum þar sem lýðræðið stendur höllum fæti.

Ef einhver hefur í hyggju að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands í vor er hætt við að sá eða sú muni eiga á brattan að sækja. Þegar líkur eru til þess að forseti láti af embætti er vinsæll samkvæmisleikur að strjúka egó manna með því að kenna þá við forsetaframboð. Núna vill að líkindum ekki nokkur maður vera kenndur við hugsanlegt forsetaframboð enda er af einhverjum ástæðum örlítið minni glans yfir því að vera gaurinn sem býður sig fram gegn sitjandi forseta heldur en að bjóða sig fram í ómannað forsetaembættið.

Yfirburðalíkur eru á því að ákvörðun forsetans um að gefa áfram kost á sér njóti stuðnings meðal þjóðarinnar. Fyrir fjórum árum fór Ólafur Ragnar í gegnum kosningar skömmu eftir að hafa framkvæmt sína umdeildustu embættisfærslu í embætti en hlaut þó um 86 prósent gildra atkvæða og ríflega tvoþriðju hluta greiddra atkvæða. Ef einhvern tímann hefði verið lag til þess að fella sitjandi forseta þá má ætla að það hefði verið þremur vikum eftir þennan gjörning, þótt vitaskuld kunni það að hafa hjálpað forsetanum að framboðsfrestur til embættisins var liðinn þegar mestu lætin urðu.

Og það þarf ekki að koma á óvart að Ólafur hafi nánast verið einn í framboði fyrir fjórum árum. Eins lengi og ég man eftir mér hefur það nefnilega verið almennt stemmning í samfélaginu að það væri óviðeigandi að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta. Það hefur mátt leggja það að jöfnu við að stofna til illdeilna við háaldraðan og virðulegan afa í fyrsta jólaboðinu með tengdafjölskyldunni eða að svara í símann í jarðarför þess sama eftir að hafa leyft rapptónlistarhringingunni að hljóma um stund á meðan minningarorðin eru lesin. Hámark ruddamennsku eða dómgreindarleysisins. Það hafa enda ekki alltaf verið helstu broddborgarar landsins sem hafa látið vaða og skorað sitjandi forseta á hólm og aldrei hefur sitjandi forseti fallið í kosningum.

Þegar einhverjar sögur fara að heyrast um líkleg mótframboð gegn sitjandi forseta upphefst að jafnaði kórsöngur um afleiðingar þess háttar upptækis. Þar er fyrst og fremst talað um hinn ofboðslega kostnað sem felst í því að halda kosningar sem allir vita hvernig muni enda. Þeir sem voga sér að bjóða sig fram þurfa að sitja undir því í fjölmiðlum og í almennum umræðum að vera úthrópaðir fyrir að valda skattgreiðendum þeim búsifjum sem felast í kostnaði við kosningahaldið.

Fyrir áhugafólk um aðhald í ríkisrekstri og frjálshyggjumenn er margt sorglegt við þetta sjaldgæfa dæmi um almenna óánægju með ríkisútgjöld. Það er nefnilega ekki oft sem nánast öll þjóðin missir nánast svefn yfir nokkur hundruð milljóna óþörfum ríkisútgjöldum. Sem slíkt ætti það vitaskuld að gleðja áhugamenn um lágmörkun ríkisútgjalda og hvetja þá til dáða. En málið er því miður þannig vaxið að engin rök eru fyrir því að kvarta yfir þessum tilteknu útgjöldum. Raunar má ganga lengra en það og segja að það sé áhyggjuefni að fleiri átti sig ekki á glapræðinu sem felst í því að amast út í fólk fyrir að valda þessum tilteknu útgjöldum ríkissjóðs.

Kostnaður við að viðhalda lýðræðinu er nokkuð augljóslega réttlætanlegur – sé lýðræðið borið saman við önnur stjórnarform. Jafnvel þótt embættið sem um ræðir sé fyrst og fremst táknrænt er nauðsynlegt að um það fari fram umræða og að engin sé fældur frá framboði vegna samviskubits yfir kostnaði eða hræðslu við að vera stimplaður sem furðufugl.

Á sama hátt og flest okkar myndu gagnrýna hugmyndir í útlöndum um að yfirburðastuðningur við einn frambjóðanda séu rök gegn lýðræðislegrum kosningum hljótum við að vonast eftir því að fá kosningar um hinn vinsæla forseta okkar. Eins og margítrekað hefur komið fram í sögu lýðræðisins þá eru það ekki síst vinsælustu stjórnmálamennirnir sem þurfa reglulega áminningu um að endurnýja umboð sitt og hafa fyrir því. Vesturlandabúar trúa því ekki beinlínis möglunarlaust þegar þeim er sagt að kosningar í Rússlandi séu óþarfar vegna yfirburðastöðu Pútíns – og í Venesúela virðist lýðræðið nú vera að stöðva þróun þess lands í átt til einræðis.

Ólafur Ragnar Grímsson mun eiga góðar sigurlíkur, enda hefur hann sannarlega verið farsæll forseti. Og ef hann tapar verður hann örugglega prýðilegur fyrrverandi forseti. En mestu skiptir þó að þjóðin fái að ákveða niðurstöðuna í kosningum og til þess væri gott að fá sem fyrst fram fleiri góða frambjóðendur – en svo það megi verða þarf að hætta að kvarta yfir peningalegum kostnaði við lýðræðið og láta af þeirri venju að koma fram við þetta embætti eins og það sé þinglýst eign þess sem gegnir því hverju sinni.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.