Helst af haustþingi

Fyrsti snúningur stjórnar og stjórnarandstöðu fór fram á haustþinginu. Það sem til tíðinda telst er hin nýja uppbygging stjórnarandstöðunnar sem telur það ekki hlutverk sitt að vera samstillt eða valkostur við ríkisstjórnina. Af málum á haustþinginu stendur þingskaparfrumvarpið upp úr en einnig fyrstu skrefin að stórum og mikilvægum breytingum á heilbrigðissviðinu.

Haustþingi lauk nú um miðjan desember og þar með fyrsta snúning nýrrar ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu. Ljóst er að miðað við það sem áður hefur þekkst var þinghaldið með rólegra móti og markast kannski fyrst og fremst af því að þingheimur er að venja sig við hinu nýju hlutverk sem kosningarnar í maí sköpuðu þeim.

Það er í sjálfu sér athyglisvert sem fram hefur komið hjá ýmsum fulltrúum stjórnarandstöðunnar, þ.e. að það sé ekki hennar hlutverk að stilla sér upp sem sameinuð heild gegn ríkisstjórninni. Þetta er nokkur breyting frá því sem verið hefur, t.d. á síðasta kjörtímabili, þar sem formenn stjórnarandstöðuflokkanna mynduðu saman Kaffibandalagið til þess að stilla sér upp sem valkostur við þáverandi ríkisstjórn. Sú fyrirætlun stjórnarandstöðunnar tókst að vísu ekki en ljóst er að himinn og haf er á milli núverandi stjórnarandstöðuflokka. T.d. er ekki óalgengt að þingmenn VG hnýti í þingmenn Framsóknarflokksins, þegar hinir síðarnefndu eru að halda uppi gagnrýni á ríkisstjórnina. Ríkisstjórnin þarf ekki marga vini þegar hún á svona andstæðinga!

Þrátt fyrir rólegt yfirbragð þingsins þessa fyrstu mánuði hafa vitaskuld ýmis mál afgreidd. Af þeim málum stendur þingskaparfrumvarpið svokallaða upp úr en það mun hafa þónokkrar breytingar í för með sér á störfum þingsins. Ekki veitir af – þegar kannanir sýna að þingið nýtur aðeins traust 29% þjóðarinnar.

Eitt og annað felst í þessum breyttu reglum, m.a. bætt aðstaða stjórnarandstöðunnar, formenn stjórnarandstöðuflokka fá sérstakan aðstoðarmann og þingmenn landsbyggðarkjördæmanna fá aðstoðarmenn í hlutastarfi. Breytt fyrirkomulag ræðutíma þingmanna hefur þó vakið mesta athygli enda mótmælti þingflokkur VG þeirri breytingu afar kröftuglega.

Mikilvægt er þó að hafa í huga að breytingin á ræðutímanum hefur ekki endilega í för með sér skerðingu ræðutíma, eins og haldið hefur verið fram. Áður fyrr var fyrirkomulagið þannig að þingmenn gátu við 2. umræðu talað eins lengi og þeir vildu, en aðeins í tvö skipti. Með öðrum orðum var ræðutíminn ekki takmarkaður en fjöldi skiptanna var það hins vegar. Segja má að nýja fyrirkomulagið kúvendi þessu, þar sem sett eru tímatakmörk við 2. umræðu (5 mín) en takmörkun á því hve oft þingmenn mega tala er felld úr gildi.

Undanfarin ár hafa þingmenn VG skipað sér nánast undantekningarlaust í efstu sæti á lista yfir þá sem lengstan ræðutíma hafa á þinginu. Þeirra stíll gengur út á að setja á langar ræður um mál og jafnvel langt fram á kvöld. Setji menn sig í spor annarra þingmanna, sem vilja einnig leggja orð í belg, er auðvelt að sjá hve slíkar langlokuræður setja allt tímaplan og eðlilegar rökræður í mikið uppnám. Sú gagnrýni þingflokks VG að verið sé að takmarka umræðu, er því auðvitað fyrst og fremst vörn fyrir þeirra eigin vinnubrögð og það fyrirkomulag sem þeir hafa vanið sig á. Það sést ef til vill best á því að allir aðrir þingflokkar stóðu að frumvarpinu. Þó myndi maður nú ætla að stjórnarandstöðuflokkar gerðu slíkt ekki af gamni sínu ef í frumvarpinu fælist sú mikla skerðing og takmörkun á lýðræðislegri umræðu sem forystumenn VG létu í veðri vaka.

Þótt haustþingið hafi um margt verið rólegt hafa ýmis mál á haustþinginu markað fyrstu skrefin í stærri og róttækari breytingum. Þar má sérstaklega nefna breytingar í heilbrigðis- og tryggingarmálum en í frumvarpi heilbrigðisráðherrasem samþykkt var fyrir þinglok var bæði skerpt á línum og verkaskipting milli heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis gerð skýrari.

Meðal annars verður sett á laggirnar ný stofnun sem hefur á sinni könnu öll innkaup ríkisins á heilbrigðissviði og með þessu verður unnt að ná fram þeirri langþráðu breytingu að skilja á milli hlutverks ríkisins sem kaupanda og seljanda í heilbrigðismálum og opna möguleikann á því að nýta fleiri rekstrarform. Sú breyting og þróun í heilbrigðismálum hér á landi er ekkert nema nauðsynleg og tímabær.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.