Styrmir, landsfundur er andvígur auðlindagjaldi

Látum vera að ritstjóri Morgunblaðsins nýti leiðara sína undir baráttu fyrir sérstakri skattlagningu á útgerðina í formi auðlindagjalds, það er hans skoðun og blaðsins þá væntanlega líka, þar sem leiðarar Morgunblaðsins eru ómerktir. Það er hins vegar hvorki ritstjóranum né blaðinu sæmandi að bera ranglega á þingmenn Sjálfstæðisflokksins þær sakir að þeir vinni gegn stefnu flokksins þegar þeir standa að því að létta þessu gjaldi af útgerðinni.

Ritstjóri Morgunblaðsins hefur á síðustu vikum farið mikinn í árásum sínum á þá sem ekki eru honum sammála um skattlagningu útgerðarfyrirtækja á Íslandi. Tilefnið er sú ákvörðun meirihluta Alþingis að fella niður tímabundið hið svokallaða auðlindagjald til að mæta þeim búsifjum sem útgerðir verða fyrir vegna mikils niðurskurðar aflaheimilda.

Og ritstjórinn sparar ekki stóru orðin. Hann vegur að Arnbjörgu Sveinsdóttur, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, með eftirfarandi hætti í leiðara sínum sunnudaginn 16. desember sl.:

„[Útgerðarmenn] hlaupa undir pilsfald Arnbjargar Sveinsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokks og formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis.
Arnbjörg er auðvitað búin að gleyma grundvallarþáttum í stefnu þess flokks sem hún situr á Alþingi fyrir og beitir sér fyrir sértækum aðgerðum í þágu útgerðarmanna en gegn hagsmunum almennings í landinu.“

Látum vera að Styrmir Gunnarsson haldi fast við sérstaka skattlagningu útgerðarfyrirtæki umfram önnur fyrirtæki hér á landi. En það er ekki hægt að una við það að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, nú Arnbjörgu Sveinsdóttur, og áður Sigurður Kára Kristjánssyni, svo dæmi sé tekið, sé brigslað um að ganga á svig við stefnu Sjálfstæðisflokksins og gegn hagsmunum almennings.

Stefna Sjálfstæðisflokksins er algjörlega skýr í þessum efnum:

„Landsfundur er andvígur því að ein atvinnugrein sé skattlögð umfram aðrar með innheimtu svokallaðs auðlindagjalds. Samræma ber slíka gjaldtöku milli atvinnugreina sem nýta auðlindir eða fella gjaldið niður ella,“ (úr ályktun um umhverfismál og auðlindanýtingu frá landsfundi í apríl 2007).

Hvernig er hægt að halda því fram að Arnbjörg Sveinsdóttir og Sigurður Kári Kristjánsson séu búin að gleyma grundvallarþáttum í stefnu Sjálfstæðisflokksins þegar þau halda fram á vettvangi Alþingis stefnu sem landsfundur flokksins hefur tekið af öll tvímæli um?

Það er einfaldlega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt aðra stefnu en ritstjóri Morgunblaðsins í þessu máli, eins og svo mörgum öðrum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.