Smjörþefurinn af taugaveikluðu heimsveldi

Frásagnir Íslendinga af viðskiptum sínum við lögregluyfirvöld í Bandaríkjunum hafa vakið marga til umhugsunar undanfarna daga. Sú meðferð sem Erla Ósk Arnardóttir og aðrir hafi orðið að sæta er þó í raun angi af sama meiði og hin hysteríska og ógeðfellda löggæslustefna sem Bandaríkjamenn hafa staðið fyrir undanfarin misseri og á sér margar skuggahliðar.

Stríðsreksturinn í Írak hefur verið stærsta pólitíska mál undanfarinna ára. Í ljós hefur komið að margt í stríðsrekstrinum og áætlanagerð Bandaríkjamanna var ótrúlega vanhugsað og illa undirbúið. Svo virðist sem ráðamenn og skipuleggjendur hafi skort allt innsæi í hugarheim írösku þjóðarinnar og undirliggjandi átök ólíka trúarhópa í landinu.

Í raun virðist að mörgu leyti sem hugarfar þeirra sem véla með mál í Washington sé orðið æði undarlegt. Stórhertar öryggisráðstafanir í landinu og ógeðfelldar aðgerðir löggæsluyfirvalda bera merki taugaveiklaðs ofsóknaræðis á hendur þeim sem vekja á sér hinar minnstu grunsemdir.

Hlekkjuð alla leið út í vél
Við Íslendingar höfum fengið smjörþefinn af þessari stefnu. Mál Erlu Óskar Arnardóttur Lilliendahl, sem var á ferð til Bandaríkjanna og var handtekin fyrir að hafa dvalið þremur vikum lengur en ferðamannaáritunin leyfði árið 1995, hefur vakið mikla athygli bæði hér heima og erlendis. Erlu var meinað að hringja heim til Íslands úr fangelsinu, hlekkjuð í fangaklefanum og spurð spurninga um hvort hún væri trúuð og hvort hún hefði hugleitt sjálfsvíg. Eftir að yfirvöld ákváðu að leyfa henni að fara heim daginn eftir, var henni engu að síður haldið í hlekkjum og fór þannig um meðal fólks á flugstöðinni. Algjörlega fáránleg meðferð.

Í kjölfar umfjöllunar um mál Erlu Óskar hefur önnur ung kona, Þórdís Björnsdóttir, stigið fram og tilkynnt um sambærilegt atvik á JFK-flugvellinum í nóvember í fyrra. Þar var henni og 8 ára dóttur hennar haldið í um 5 tíma þar sem æpt var á þær og Þórdís ítrekað spurð hvað hún væri að gera í Bandaríkjunum. Þennan tíma fékk hún ekki að hringja eða láta vita af sér.

Sat við hliðina á manni sem fékk símtal…
Í nýútkominni bók sinni, Velkominn til Bagdad, lýsir Davíð Logi Sigurðsson, blaðamaður, ferðalögum sínum til Írak, Afghanistan, Guantanamo Bay, Jórdaníu og Bandaríkjanna undanfarin ár en óhætt er að segja að Davíð Logi sé sá Íslendingur sem einna gleggst til þessara mála þekki. Afar athyglisverð lýsing í bók Davíðs er þegar hann heimsótti landsfund Repúblikanaflokksins í New York árið 2004.

Þrátt fyrir að vera skráður inn á fundinn sem blaðamaður var hann tekinn afsíðis af öryggisvörðum fundarins fyrir þær sakir að hafa setið við hlið tiltekins manns á samkomunni. Davíð lýsir „sökum“ sínum svona í bókinni:

Tvisvar í ræðu Bush hafði það gerst að andstæðingar forsetans birtust skyndilega niður á gólfi og veifuðu spjöldum sem á stóðu slagorð gegn Bush og stefnu hans. Maðurinn sem setið hafði við hliðina á mér hafði fengið símtal skömmu síðar sem gaf mér tilefni til að halda að hann hefði hugsanlega þekkt aðra konuna sem mótmælti. […] Einn öryggisvarðanna fullyrti að hann hefði séð mig heilsa manninum með virktum þegar hann settist, að við hefðum greinilega þekkst.

Fljótlega magnaðist þetta upp og sérleg leyniþjónusta forsetans hafði verið kölluð til og spurðu Davíð Loga ítrekað út í málið. Um 40 mínútum síðar komust þeir svo að þeirri niðurstöðu að Davíð Logi væri sennilega ekki neinn glæpamaður (þrátt fyrir að hafa setið við hliðina á manni, sem fékk símtal sem var sennilega frá konu sem hafði mótmælt Bush) og íslenski blaðamaðurinn var leiddur út. (Velkominn til Bagdad, bls. 61-63).

Tekinn og fangelsaður í ár
Þessi atvik vekja okkur Íslendinga eðlilega til umhugsunar enda eru þau ákveðin birtingarmynd á því hugarfari sem virðist ríkja í Bandaríkjunum um þessar mundir. Það sem allra alvarlegast hefur verið við stefnu Bandaríkjamanna í stríðinu gegn hryðjuverkum undanfarin ár eru einmitt hinar ógeðfelldu eftirlits- og lögregluaðgerðir sem farið hefur verið út í. Mál Kandamannsins Maher Arars er annað og öllu alvarlegra dæmi, en hann var handtekinn í New York árið 2002 og fluttur til Sýrlands þar sem hann var í haldi í um það bil eitt ár vegna gruns um að tengjast hryðjuverkasamtökum. Grunur leikur á að hann hafi verið pyntaður í fangelsinu. Í ljós kom að ekkert var hæft í þessum ásökunum.

Vatnsbrettaaðferðin
Á dögunum steig fram maður að nafni John Kiriakou, fyrrverandi starfsmaður í CIA, og tjáði sig opinberlega um þær aðferðir sem beitt hefði verið við yfirheyrslu á Zayn Abidin, liðsmanni al-qaeda samtakanna sem var handtekinn í Pakistan. Eftir að hinn síðarnefndi hafði til að byrja með þráast við að svara spurningunum sem fyrir hann voru lagðar, ákváðu starfsmenn CIA að nota hina svonefndu vatnsbrettaaðferð, sem lýsir sér þannig að plastfilma er sett yfir höfuð viðkomandi og vatni hellt yfir hann, þannig að sá sem fyrir verður fær á tilfinninguna að hann sé að drukkna. Þetta, sagði Kiriakou, hreif strax og Zayn Abidin veitti þeim allar þær upplýsingar sem þeir þurftu á að halda.

Í viðtalinu er Kiriakou spurður út í afstöðu sína til svona aðferða – svona pyntinga. Hann svarar því þannig til að þótt þetta sé harkalegt og ekki Bandaríkjunum sæmandi, geti svona aðferðir bjargað mannslífum, enda fáist með þeim mikilvægar upplýsingar.

Höfnum pyntingum og afslætti af grundvallarréttindum
Siðferðisspurningin um hvort það sé réttlætanlegt að pynta hina allra verstu glæpamenn til að fá upp úr þeim upplýsingar hélt maður að hefði verið afgreidd fyrir löngu síðan. Svarið er einfalt. Það réttlætir ekkert pyntingar á fólki. Það er ekki viðeigandi að velta því upp hvaða máli ákveðnar upplýsingar skipti – þetta er prinsippafstaða siðmenntaðra og upplýstra þjóða.

Það eru grundvallaratriði réttarríkisins og siðmenntaðra samfélaga að réttarhöld skuli vera opinber og að fangar njóti ákveðinna réttinda. Bann við pyntingum er eitt af þessum grundvallaratriðum. Þetta eru ekki bara einhvers konar velmegunarþægindi Vesturlandabúa, sem er rétt að henda út í hafsauga þótt óttinn yfirtaki stjórnvöld. Þessi réttindi byggjast á mannúð og virðingu fyrir einstaklingnum. Þessari sýn mega bandarísk stjórnvöld ekki glata, ætli þau sér að vinna aftur stuðning þjóða heimsins í baráttu sinni við að uppræta hryðjuverkastarfsemi.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.