Skattatillögur verkalýðshreyfingarinnar

Síðustu vikur hefur verkalýðshreyfingin komið með hugmyndir að aðkomu ríkisins vegna komandi kjarasamninga. Tvær þrepaskatthugmyndir hafa komið fram, þó nokkuð mismunandi, sér í lagi þegar jaðarskattsáhrif þeirra eru skoðuð.

Síðustu vikur hefur verkalýðshreyfingin komið með hugmyndir að aðkomu ríkisins vegna komandi kjarasamninga. Tvær þrepaskatthugmyndir hafa komið fram, þó nokkuð mismunandi, sér í lagi þegar jaðarskattsáhrif þeirra eru skoðuð.

Í komandi kjarasamningum hefur verkalýðshreyfingin lagt aðaláherslu á að lyfta allralægstu laununum. Hins vegar er ætlunin að krefjast ekki mikilla hækkana yfir línuna til að reyna að lágmarka verðbólguþrýsting og er það virðingarvert. Hins vegar eru miklar og margvíslegar kröfur gerðar til ríkisins til að liðka fyrir samningaviðræðum.

Fyrir um tveimur vikum kom Starfsgreinasambandið með fyrri skattþrepatillögur sínar. Þær fólust fyrst og fremst í því að lækka skattprósentu á þá tekjulægstu. Nánar tiltekið ætti 15% skattur að leggjast á tekjur undir 200 þúsund krónum, og væntanlega þá að skattleysismörk ættu að haldast óbreytt.

Í síðastliðinni viku kom ASÍ síðan fram með nýjar hugmyndir sem beinast að því að bæta aðeins hag þeirra lægst launuðu en hafa engin áhrif á skattgreiðslur hærra launaðra. Þessar hugmyndir felast í sérstökum persónuafslætti til handa þeim tekjulægstu. Hinir lægst launuðu fengju þá 20 þúsund króna persónulafsláttur sem myndi síðan lækka jafnt og þétt frá 150 þúsund til 300 þúsund króna tekna. Þessi hugmynd myndi því í raun hafa þau áhrif að skattleysismörk myndu lyftast um tæpar 60þúsund krónur, þ.e. tekjur upp að um 150 þúsundum væru skattfrjálsar. Við 150 þúsund króna mörkin þarf hins vegar að fara að endurgreiða persónuafsláttinn jafnt og þétt auk þess sem almennur tekjuskattur fellur líka á tekjur þar. Áhrif minnkandi sérstaks persónuafsláttar frá 150 þús upp í 300 þús jafngilda um 13% skatti á því bili. Þegar venjulegur skattur leggst svo ofan á er skattur af hverri krónu á þessu bili hátt í 50%! Þessi hugmynd felur því klárlega í sér þrepaskatt þótt ASÍ hafi ekki talið svo vera.

Munurinn á hugmyndunum tveimur felst aðallega í tvennu:

1) Fyrri hugmyndin skilar sér til allra skattgreiðenda. Sú seinni aðeins til þeirra sem hafa tekjur undir 300 þúsund krónur.

2) Hinn munurinn felst í mismunandi jaðarskattsáhrifum. Fyrri hugmyndin felur í sér að jaðarskattur á tekjum milli 100 þús og 200 þús er 15% og svo um 35% (almenna skattprósentan) á hærri tekjur. Sú seinni felur í sér engan skatt upp að 150 þús en um 48% jaðarskatt upp að 300þús og síðan 35% þaðan í frá.

Hið skaðlega í seinni hugmyndinni er þessi hái jaðarskattur á tekjulága. Mjög margir Íslendingar, líklega nálægt þriðjungi, eru með tekjur undir 300 þúsundum. Þetta þýðir að með breytingunni er verið að hækka jaðarskatt stórs hluta skattgreiðenda upp í tæp 50%. Það að sjá á eftir helmingi tekna sinna í skatt getur ekki annað en haft mjög neikvæð áhrif á áhuga á að sækja sér tekjur. Þessi breyting myndi því að líkindum hafa þau áhrif að tekjulágir myndu vinna minna en ella og tekjuójöfnuður aukast til lengri tíma.

Af hugmyndunum tveimur virðist því ljóst að sú fyrri er betri. Það er ljóst af stöðu ríkissjóðs að skattalækkanir munu verða á næstu árum og stórhækkun jaðarskatts, þótt hún sé aðeins á ákveðnu tekjubili, er algjörlega öfug þróun.

Aðrar hugmyndir verkalýðshreyfingarinnar eru meðal annars minnkun á skerðingu barnabóta, aukin menntun hinna minnst menntuðu og miklar hækkanir á vaxta- og húsaleigubótum.

Um fyrri tvær hugmyndirnar er lítið nema gott að segja. Full ástæða er hins vegar til þess að vara við hækkunum á vaxta- og húsaleigubótum eins og raunar hefur verið gert áður hér á Deiglunni. Hækkanir þeirra bóta, sér í lagi miklar hækkanir eins og ASÍ leggur til, munu draga verulega úr líkunum á að húsnæðisverðshækkunum linni en þessi þáttur hefur einmitt dregið vagninn í hárri verðbólgu á síðustu árum. Þótt ástæða sé fyrir ríkið til að gæta að útgjöldum núna, virðist ljóst að það væri mun jákvæðara að fara út í skattalækkanir en að hækka bætur í húsnæðismálum.