Að úthlutuðum skáldalaunum

Gagnrýni frjálshyggjumanna á listamannalaun snýst ekki um krónur og aura. Frelsi listamanna til þess að koma sér illa við ráðamenn og valdhafa eru hin raunverulegu verðmæti sem gæta þarf að í samskiptum listamanna við ríkið og aðrar valdastofnanir.

Það er hægt að treysta því eins og nýju neti að frjálshyggjumenn æmta sérstaklega ár hvert þegar úthlutað er listamannalaunum ríkisins – svoköllluðum heiðurslaunum. Þar er vissulega ekki um sérlega mikið fé að tefla, í hinu stóra samhengi hlutanna og langt er frá að þar sé að finnu heimskulegustu sóun skattfjár sem stjórnmálamönnum hefur dottið í hug. En það eru aðrar ástæður fyrir því að listamannalaunin eru sérstakur þyrnir í augum frjálshyggjumanna.

Listamenn gegna veigamiklu hlutverki í samfélaginu. Það hlutverk er ekki síst að gagnrýna valdhafa og valdakerfið sjálft – að sýna hluti í nýju ljósi og þora að segja það sem er óþægilegt en nauðsynlegt. Þegar miklar ýfingar verða í samfélögum eru það gjarnan listamenn sem eru í fararbroddi þeirra sem skynja tímans kall og bera út þann boðskap. Þetta er framúrskarandi mikilvægt hlutverk og allir þeir sem tortryggja opinbert vald hljóta jafnframt að vera þakklátir þeim einstaklingum sem taka að sér að vera brimbrjótar þegar valdinu er storkað.

Frelsi listamanna er þess vegna mikilvægt í augum frjálshuga manna. En þar er ekki aðeins átt við frelsi í formi mannréttinda á borð við tjáningarfrelsi, eignarrétt og þar fram eftir götunum. Við viljum að listamenn séu lausir við klafa samfélagsins sem krefjast þjónkunar við ríkjandi öfl og hefðbundin hugsunarhátt. Þeir eiga að búa við þann munað að vera engu háðir öðru en eigin samvisku.

Listamannalaun sem Alþingi ákveður eru ekki há – og hún er mörg vitleysan verri en að verðlauna fólk sem skarað hefur fram úr og fórnað starfskröftum sínum til þess að skapa list. Hún er jú krúndjáns hverrar siðmenningar – listsköpun er yfirlýsing siðmenningarinnar um að hún sé fær um meira en að sinna frumhvötum sínum. En það er vandmeðfarið að verðlaun listamenn sem á sama tíma eiga að kæra sig kollótta um afstöðu stjórnvalda til sín.

Kúgun listamanna í Sovétríkjunum fólst í því að þeim voru settar skorður í sköpun sinni og listin var látin þjóna pólitískum markmiðum. Þeir sem hafa frelsi einstaklingsins að leiðarljósi hafa mikla samúð með þeim kvölum sem hljóta að fylgja því fyrir sanna listamenn að vera vængstýfðir á þann hátt. Fyrir skapandi snilling er það að vera neyddur til þess að sóa listrænum hæfileikum í að vinna á auglýsingastofu fyrir Jósef Stalin sennilega einhver mesta andlega píning sem hugsast getur.

Og það er því ekki skrýtið að íslenskir listamenn hafi margir hverjir verið tortryggnir í garð listamannalauna. Þá sögu hef ég heyrt að ljóðið „Únglingurinn í skóginum“ hafi Halldór Laxness ort meðal annars til þess að stugga við þingmönnum sem ræddu hvort hann ætti að fá listamannalaun – og að sú ráðagerð hafi lukkast því þingmenn hafi fæstir haft mikinn skilning á því að „Eia. Eia perlur. Eia gimsteinar,“ hafi verið mikil list. „Kondu táta, kondu litla nótintáta.“

Steinn Steinarr orti ljóð með það markmið beinlínis að fá skáldastyrk. Með sínum óborganlega húmor setti hann í því skyni saman ljóð sem hefst á ákaflega væminni melódramatík, þjóðlegum náttúrurembingi sem hvergi annars staðar finnur sér stað í ljóðum skáldsins – og svo viðurkenningu á þeirri andlegu uppgjöf sem felst í því að sækja um skáldastyrk:

Svo milt og rótt er kveldið og kyrrð um jörð og græði,
ei kvikar strá í túni né gjálfrar unn við sand.
Og loksins sest ég niður og kveð hið besta kvæði,
sem kveðið hefur verið frá því byggðist þetta land.

Svo hef ég þá upp raust mína og byrja á byrjuninni,
og beygi mig í auðmýkt fyrir landsins kirkju og stjórn,
þótt lítilsháttar breyting kunni að sjást á sálu minni,
og samviskunni förlist, slíkt er þegnleg skylda og fórn.

Steinn fer svo yfr hin ýmsu mál og friðmælist við kristnina, Jónas frá Hriflu, Kveldúlf, Landsbankann, Sjálfstæðisflokkinn, SÍS og þetta helsta. Þessi hótfyndni er auðvitað eðlileg enda er óhjákvæmilegt að pólitískt úthlutuð skáldalaun séu skömmtuð út frá einhverjum annarlegri sjónarmiðum en alúð í garð listarinnar – og það væri skrýtinn listsnillingur sem léti það hafa raunveruleg áhrif á sjálfsálit sitt að fá slík laun. Alvöru listamaður ætti að líta á heiðurslaun listamanna sem ránsfeng. Hann ætti að blóðmjólka þann hégóma að stjórnmálamenn setji sig í dómarasæti yfir list hans, taka peninginn og hlæja að vitleysunni.

En á endanum fékk Steinn Steinarr skáldalaun og orti þá annað ljóð – „Að fengnum skáldalaunum“. Í því ljóði fer hann hreinlega loftköstum af uppgerðri kæti yfir árangrinum – en undir niðri býr heilbrigð fyrirlitning á þeirri hugsun að stjórnmálamenn noti peninga til að kaupa listamenn:

En eitthvað er breytt og annaðhvort ég eða þjóðin
r ekki jafn trúföst sem fyrr við sín markmið og heit,
því nú hefur íslenska valdstjórnin launað mér ljóðin
eins og laglega hagorðum framsóknarbónda í sveit.

Samt þakka ég auðmjúkur þetta sem ég hefi fengið,
en þrálát og áleitin spurning um sál mína fer:
Er stríðinu lokið? Er loksins til þurrðar gengið
það litla af ærlegri hugsun sem fannst hjá mér?

Listamannalaun eru ekki það versta sem skattpeningar ríkisins fara í. En það er mikilvægt umhugsunarefni hvaða áhrif það getur haft ef listamenn eru upp á valdhafa komnir um afkomu sína. Um það – en ekki bara krónur og aura – snýst gagnrýni frjálshyggjumanna á heiðurslaun listamanna.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.