Teis!!!

Bandaríska fyrirtækið Taser International framleiðir lömunarvopn (stun guns) sem verða æ vinsælli meðal löggæsluliðs og hernaðaryfirvalda. Fyrirtækið vinnur ötullega að útvíkkun vörulínu sinnar.

Bandaríska fyrirtækið Taser International framleiðir lömunarvopn (stun guns) sem verða æ vinsælli meðal löggæsluliðs og hernaðaryfirvalda. Fyrirtækið vinnur ötullega að útvíkkun vörulínu sinnar.

Lömunarbyssurnar skjóta tveimur örvum, sem stingast í brjóst fórnarlambsins eða festast í fötum þess, og eru tengdar við byssuna sjálfa með grönnum málmþræði. Þegar örvarnar hafa komist á áfangastað senda þær rafbylgjur um brjóstkassa fórnarlambsins. Bylgjuform þessara rafbylgna er verndað af einkaleyfi, og hannað með það fyrir augun að hafa hámarksáhrif á vöðva í hinu sjálfráða vöðvakerfi, en lágmarksáhrif á hjartavöðvann. Þetta ferli kallast í daglegu tali að „teisa“ menn (e. „tase someone“).

Útkoman (þegar allt fer eins og það á að fara) er að vöðvarnir læsast og lamast. Hugmyndin er í fyrsta lagi að lama fórnarlambið í stað þess að drepa það, og í öðru lagi að sársaukinn sem fylgi lömuninni sé minni en ef ætti að ná sambærilegum áhrifum með barsmíðum. Það er því ljóst að þótt vörurnar sjálfar séu ekki sérstaklega aðlaðandi, þá er hugmyndafræðin í sjálfu sér góð.

En engin er rós án þyrna, og ýmsir hafa gagnrýnt þessi vopn harðlega. Það er einkum tvennt sem gagnrýnendur þessara vopna hafa sett fyrir sig. Í fyrsta lagi hefur viljað brenna við að fórnarlömbin hafa það átt til að deyja, þrátt fyrir hátæknina og einkaleyfin á bak við tækið. Þá er auðvitað verr af stað farið en heima setið, því á meðan ein X26 Taser byssa ætluð til notkunar í löggæslu kostar yfir þúsund bandaríkjadali er hægt að kaupa hálfsjálfvirkar skammbyssur fyrir vel innan við helming þeirrar upphæðar, og henta þær raunar mun betur til manndrápa, eins og bandarískar fréttir minna okkur reglulega á.

Hins vegar hefur verið gagnrýnt að þótt hugmyndin sé að Taser byssurnar komi í staðinn fyrir hefðbundin skotvopn þá sé sú oft ekki raunin. Því þótt sumar lögreglusveitir hafi skipt út skotvopnum fyrir slíkar byssur virðist líka nokkuð um að þeim sé einfaldlega bætt við hefðbundið skotvopnabúr lögreglumanna, eða jafnvel tekin í notkun af lögreglusveitum sem áður notuðust ekki við nein skotvopn.

Fyrir þá sem finnst þessi þróun ónotaleg er ekki uppörvandi að skoða vöruúrvalið á heimasíðu fyrirækisins, eða að lesa um hvað vöruþróunardeildin hefur fyrir stafni. Meðal þess sem þar má finna eru sjálfvirkir Taser eftirlitsstandar með innrauðum myndavélum, sem fylgjast með óboðnum gestum og „teisa“ þá án þess að mannshöndin komi þar nærri. Fyrirtækið býður einnig upp á „haglateis.“ sem eru haglabyssuskothylki með innbyggðum Taser bylgjugjafa, og virka því á mun lengra færi en hefðbundar Taser byssur.

En þessar vörur blikna þó í samanburði við „frisbíteis.“ Frisbíteis er svokallað UAV (Unmanned Aerial Vehicle), eða sjálfvirkt flugtæki. Tækið, sem minnir á fljúgandi furðuhlut eða frisbídisk, er búið myndavélum, og verður að öllum líkindum hægt að fjarstýra því, auk þess sem það muni að nokkru leyti geta stýrt sér sjálft. Þungamiðja tækisins er svo að sjálfsögðu Taser búnaður, svo tækið getur elt uppi misyndismenn, mótmælendur, karlrembur og aðra vitleysinga og teisað þá, á meðan lögregluþjónninn situr í grafítgráa Aeron skrifstofustólnum sínum í reyklausu bakherbergi og japlar á Hlölla Sojabáti – með engri sósu.

Ó, fagra nýja veröld!

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)