Fullorðnir heimskari en áður?

Ein þreyttasta tugga allra tíma er sú staðhæfing að ungt fólk sé á einhvern hátt orðið, dónalegra, háværara, heimskara og latara en það var einu sinni. Slíkar staðhæfingar virðist mega setja fram án nokkurs vísindalegs rökstuðnings heldur nægir oftast óljós tilfinning manna sem voru ungir einu sinni en hafa hætt því. En sjónarhorn skipir auðvitað heilmiklu máli. Þannig er það pistlahöfundi ljóst að fullorðið fólk sé orðið bæði leiðinlegra, dónalegra og heimskara en það var fyrir 20 árum síðan.

Ein þreyttasta tugga allra tíma er sú staðhæfing að ungt fólk sé á einhvern hátt orðið, dónalegra, háværara, heimskara og latara en það var einu sinni. Slíkar staðhæfingar virðist mega setja fram án nokkurs vísindalegs rökstuðnings heldur nægir oftast óljós tilfinning manna sem voru ungir einu sinni en hafa hætt því. En sjónarhorn skipir auðvitað heilmiklu máli. Þannig er það pistlahöfundi ljóst að fullorðið fólk sé orðið bæði leiðinlegra, dónalegra og heimskara en það var fyrir 20 árum síðan.

Fyrir tuttugu árum síðan, þegar undirritaður var sjö ára voru fullorðnir upp til hópa frekar jákvæður þjóðflokkur. Þeir voru duglegir að hrósa fyrir vel unnin störf og dáðust af flestu því sem maður tók sér fyrir hendur. Smám saman virðist þjóðfélagið hafa breyst því á þessum tveimur áratugum hefur orðið sjaldgæfara að manni sé hrósað fyrir verk sín. Nú þegar maður vaskar upp eða fer út með ruslið er litið á það sem gefinn hlut. Já, fullorðið fólk var tvímælalaust þakklátara í gamla daga.

Í staðinn virðist fullorðið fólk orðið uppteknara af því að nöldra en áður. Þau nöldra yfir umferðarteppum, peningum, heilbrigðiskerfinu, en mest af öllu nöldra þau yfir hvert öðru. Fullorðið fólk gerði minna af því að baktala annað fullorðið fólk þegar ég var lítill. Mikið hefur samfélagið breyst til hins verra!

Svo er fullorðið fólk líka orðið mun dónalegra og kuldalegra. Þegar maður gekk í skólann með skólatöskuna og endurskinsmerkin á níunda áratugnum stoppuðu allir bílar fyrir manni óttaslegnir yfir því að meiða mann. Þetta gerir fullorðið fólk ekki lengur, því virðist standa meira á sama en áður. Og þegar menn meiddust í gamla daga eða lentu í einhverju mótlæti þá var fullorðið fólk sjaldnan lengi á staðinn til að hugga mann. Nú er öldin önnur. Ef einhver harmleikur hendir mann, mun kannski einhver segja þurrt: „Ég samhryggist þér innilega.“ En hvar eru faðmlögin og ljúfu huggunarorðin: „Þetta verður allt í lagi. Ég lofa því.“ Fólk virðist hafa glatað allri tilfinninganæmni á þeim tveimur áratugum frá því að ég var sjö ára.

Greind fullorðins fólk er síðan sérkapítúli út af fyrir sig, en allir jafnaldrar mínir geta vottað það að fullorðið fólk í dag eru algjörir hálfvitar samanborið við fullorðið fólk árið 1987. Í þá daga gat fullorðið fólk svarað flestum þeim spurningum sem maður hafði, hvort sem það var um alheiminn, mannkynssögu, lög og reglur samfélagsins eða ástæður þeirra. Það gat svo nær undantekningalaust unnið mann í rökræðum. Í dag rekst maður æ oftar á fullorðið fólk sem er hefur litla sem enga þekkingu á ofantöldum atriðum, og pistlahöfundur, sem hefur að sínu mati ekkert breyst frá því að hann fæddist, hefur æ oftar haft betur við fullorðið fólk í málefnalegum umræðum. Hvað hefur gerst á þessum tuttugu árum? Hefur allt þetta nöldur og öll þessi neikvæðni eyðilagt heilana í fullorðnu fólki?

Getur það kannski verið að ég sjálfur hafi breyst og sjónarhorn mitt þar með? Gæti það verið að hin aldargamla klisja um hnignun æskunnar mótist af því að fylleríslæti séu öllu fyndnari þegar Gunni og Siggi úr bekknum eiga í hlut en þegar um er að ræða ónefnda „karlmenn á tvítugsaldri“ í dagbók Lögreglunnar? Hmm… leyfið mér að hugsa. Nei, rökréttari skýring hlýtur að vera að allir í þjóðfélaginu, börn, unglingar, ungt fólk, fullorðnir og gamalt fólk séu orðnir dónalegri, neikvæðari, kuldalegri og heimskari en áður.

Nema ég. Ég er alltaf eins.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.