Pólitísk áhrif innflytjenda

Vonbrigði Ny Alliance í dönsku þingkosningunum vekja ýmsar spurningar um áhrif og kosningahegðun innflytjenda. Niðurstaða kosninganna bendir til þess að þeir hafi ekki hópað sér á bak við „innflytjendaflokkinn“. Það þarf þó ekki að koma á óvart, enda eru innflytjendur með fleiri og fjölbreyttari skoðanir og hugsjónir en þær sem snúa eingöngu að þeim sjálfum. En hvernig er þessu málum háttað hér á landi?

Í nýafstöðnum þingkosningum í Danmörku vakti einna mesta athygli nýtt framboð sem stofnað var um málefni innflytjenda, þ.e. Ny Alliance undir forystu þingmannsins Naser Khader. Um tíma leit út fyrir að flokkurinn kynni að komast í oddaaðstöðu að kosningunum loknum og geta verið ráðandi um myndun ríkisstjórnar. Þrátt fyrir ágætis byrjun var fylgi flokksins í nánast frjálsu falli síðustu vikurnar fyrir kosningar og að lokum var uppskeran heldur rýr – 2,8% fylgi og 5 þingmenn. Að vísu standa nú yfir viðræður milli Khaders og Fogh Rasmussen um stuðning við ríkisstjórn þess síðarnefnda en ljóst er að fylgið er minna en að var stefnt.

Vegferð þessa flokks, sem hafði fyrst og fremst málefni innflytjenda á stefnuskránni – þótt önnur stefnumál hafi fengið meiri vigt þegar á leið – vekur spurningar um vægi innflytjenda í kosningum. Þessi spurning á ekki síst við hér á Íslandi þar sem mikill straumur innflytjenda hefur verið til landsins undanfarin ár.

Íslenskur innflytjendaflokkur
Raunar hafa verið lögð drög að sérstökum flokki innflytjenda hér á landi líka. Paul Nikolov, sem tók einmitt sæti á Alþingi í vikunni, gerði tilraun til þess að framkvæma það sem Khader gerði í Danmörku, þ.e. að stofna sérstakan flokk fyrir innflytjendur á síðasta ári. Nikolov stofnaði flokkinn formlega og fékk framtakið nokkra athygli í fjölmiðlum á sínum tíma. Þrátt fyrir að stefnan væri sett á framboð til þingkosninga árið 2011, varð flokkurinn ekki langlífur og lagði fljótlega upp laupana. Þetta endaði svo með því að Nikolov gekk til liðs við VG, enda fann hann þar að eigin sögn samhljóm við þau baráttumál innflytjenda sem flokkurinn barðist fyrir. Skilaboðin til stuðningsmanna sinna voru því þau að allir sem ætluðu að kjósa innflytjendaflokkinn gætu allt eins kosið VG. Vandinn við þessa lausn var hins vegar sá að innflytjendur eru ekki endilega allir á móti virkjanaframkvæmdum, með feminískar áherslur í stjórnmálaskoðunum sínum og stuðningsmenn skattahækkana.

Íslandshreyfingin og Baráttusamtökin
Ferill Íslandshreyfingarinnar frá því í kosningunum í vor sýnir sama vanda. Flokkurinn var að mestu settur saman í kringum umhverfismál en eftir því sem á leið duttu inn ýmis önnur baráttumál, þ.á.m. afdráttarlaus afstaða til inngöngu í ESB. Vesalings fólkið sem ætlaði að kjósa flokkinn til þess að standa vörð um fallega fossa og ósnortin svæði þurfti allt í einu í leiðinni að skella sér í Evrópusambandið. Baráttusamtök eldri borgara eru enn annað dæmið en eftir að samtökin hefðu tekið höndum saman við Höfuðborgarsamtökin með fyrirhugað framboð til þingkosninganna í vor voru stefnumál á borð við „stöðvun útþenslu höfuðborgarinnar“ ásamt stórfelldum skattahækkunum allt í einu komin á stefnuskránna. Þeir sem höfðu hugsað sér að sýna samstöðu með málefnum eldri borgara voru allt í einu lentir í því að þurfa að styðja fullt af öðrum málum í leiðinni. Ekkert varð þó af framboðinu á endanum.

Ólíkur kosningaréttur í sveitastjórnar- og þingkosningum
En hvers konar áhrif kynnu innflytjendur að hafa í kosningum hér á landi? Kosningaréttur innflytjenda hér á landi er ólíkur eftir því hvort um er að ræða sveitarstjórnir eða þingkosningar. Í þingkosningum er krafist íslensk ríkisborgararéttar (almenna skilyrðið er sjö ára búseta á Íslandi) og lögheimilis á Íslandi en í kosningum til sveitarstjórna hafa auk íslenskra ríkisborgara danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar, sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag, kosningarétt. Þá njóta aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag kosningaréttar í sveitarstjórnarkosningum.

Ólíkar reglur fyrir þing- og sveitarstjórnarkosningar að þessu leyti byggja á þeirri hugmynd að eðlilegra sé að rýmri kosningaréttur gildi á sveitarstjórnarsviðinu, enda hafa sveitarstjórnir ekki lagasetningarvald en hafa á sínu valdsviði málefni nánasta umhverfis fólks, sem eðlilegt er að sem flestir hafi eitthvað um að segja. Aftur á móti er litið svo á að nokkuð meira þurfi til að koma til að kosningaréttur til Alþingis sé fyrir hendi, enda um sjálfa löggjafarsamkomuna að ræða.

Innflytjendur kjósa ekki allir eins
Það kann að vera freistandi við fyrstu sýn að draga þá ályktun að hin dæmigerða kosningahegðun innflytjenda gangi út á að kjósa flokka innflytjenda eða þann flokk sem leggur mesta áherslu á þennan málaflokk. Það er hins vegar langt í frá gefið. Jafnvel í Danmörku, þar sem þessi málaflokkur er ofarlega á baugi og hefur verið mikið til umræðu undanfarin ár, flykktust innflytjendur ekki sem einn hópur á bak við Naser Khader, fyrir það eitt að hann væri innflytjandi sjálfur. Því má heldur ekki gleyma að aðrir flokkar hafa líka áherslur í þessum málaflokki og ekki óhugsandi að einhverjir úr hópi innflytjenda hafi getað fellt sig við þær – þótt danska innflytjendalöggjöfin sé að vísu nokkuð ströng. Þegar leið á kosningabaráttuna í Danmörku virtist flokkur Khaders meira að segja gera sér grein fyrir þessu og kynnti áherslur sínar í fleiri málaflokkum.

Það er í grunninn eðlilegt að setja einhverjar skorður og skilyrði um dvalartíma áður en innflytjendum er veittur réttur til þess að kjósa hér á landi. Því má hins vegar ekki gleyma að þeir greiða hér skatta og skyldur og þurfa að reiða sig á almannaþjónustuna eins og aðrir. Engin ástæða er til að hafa slíkar hömlur of þungar eða erfiðar. Ennfremur er engin ástæða til þess að ætla innflytjendum að vera fullkomlega einsleitur hópur þegar kemur að kosningum. Reynslan frá Danmörku sýnir það vel að jafnvel í samfélagi þar sem innflytjendamál hafa verið mikið á dagskrá nær flokkur sem fókuserar aðallega á þennan málaflokk ekki þremur prósentum í fylgi. Því má ekki gleyma að innflytjendur eru jú fjölbreyttur hópur sem er ólíkur innbyrðis.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.