Íslensk tunga í alheims(ku) höfði

Um daginn komst höfundur að því að það færi honum afar illa að tjá sig skynsamlega.

Um daginn komst höfundur að því að það færi honum afar illa að tjá sig skynsamlega.

Og þegar mér varð ljóst að skynsemin kærði sig ekki um félagsskap minn ákvað ég að fagna. Hví? Jú, hvað ræður ríkjum utan lögsögu skynseminnar, hvað veldur gjörðum, veltir ranglæti og byltir viðhorfum þegar skynseminni hefur verið úthýst? Hver er aflvakinn þegar skynsemin heldur ekki um tónsprotann, nefnilega: Stoltið, heiðurinn – einmitt! Hetjur mundu missa vinnuna ef þær gerðust skynsamar.

Það var þess vegna sem ég, í tilefni af degi íslenskrar tungu, lét tattóvera prófílmynd af Jónasi Hallgrímssyni á – já nema hvar – á tunguna. Síðan hef ég ekki getað hætt að sletta dönskum orðum, hef tilhneigingu til að tala rímað mál (enda- og innrím) og hugsjónir fara um hugarsali í torfum. Ég er reyndar fyrirfram hálfhræddur um lifrina. Jæja, og enn í tilefni af deginum þegar við minnumst þess að við erum full af tungumáli sem er sjaldgæfara en flest og grunnur þjóðerniskenndar…, birtist hér í fyrsta sinn stutt, frumsamin saga. Hún er á íslensku og gerist einhvers staðar, nema á Íslandi.

Tíminn er blár

Hann var fyrir löngu hættur að klæðast búningnum og hann var fyrir löngu hættur að þvo framan úr sér eftir sýningarnar. Hann var gamall trúður.
Tíminn var greinilegur um allt í sirkusnum. Tjaldið var aflitað og rifið og rifrildin blöktu þegar blés yfir engið. Loftfimleikararnir voru í bættum búningum og bæturnar féllu illa að. Þær voru sniðnar úr bláa rúskinnsjakkanum ljónatemjarans sem lést úr tómleika skömmu eftir að síðasta ljónið drapst úr hungri, tannlaust. Og liðamótalausa konan – hún var öll skökk af liðagigt.
Tíminn var líka augljós í andlitum gestanna. Ömmur og afar leiddu afkomendur sína inn í tjaldið: Æskan skerpti ellina. Oft var sirkusfólkið fjölmennara en áhorfendurnir. Þá fengu þeir yfirleitt að sitja innan um hrossa- og úlfaldaskít í hringnum og jafnvel að taka þátt í atriðum. Það var ábót á upplifunina fyrir börnin, en fullorðna fólkið vissi betur.
Þegar ekki var sýnt í tjaldinu var gamli trúðurinn glaðastur; daprastur á sýningarkvöldum þegar hann lagaði málninguna framan í sér: Skerpti rauðu skeifuna um munninn, bláu kringlurnar um augun og dró svartar brúnir langt upp á enni – allt á hvítum grunni. Þá þurfti hann að rifja upp orð föður síns, sem var líka trúður og kenndi honum allt: „Sonur, sonur minn. Þegar fólkið hlær opinmynnt að hrakförum þínum verður þú að halda áfram og skvetta olíutárum þínum á logann í augum þeirra, gleðilogann sem við höfum svarið eið að.” Hann gerði eins og hann gat.
Eftir sýningu sagði enginn orð. Gamli trúðurinn var sérlega hljóður, auk þess að þegja horfði hann ekki í augun á neinum áður en hann hvarf út í kvöldið um eina af rifunum í tjaldinu með hárið stíft af rauðum lit og brúnu ullarjakkafötin samanskroppin svo sást í prjóngranna leggina. Hann stefndi á dýragerðin, fékk úlfalda lánaðan og reið honum inn í bæinn. Þar var búlla sem gamli trúðurinn stundaði, og hafði stundað árum saman; þar var spilaður blús.

(Úr bókinni ,,Vaxandi nánd – orðhviður“ sem einmitt kemur út á næstu dögum.)

Latest posts by Guðmundur Jóhann Óskarsson (see all)