Af hverju að afnema lágmarksútsvar, en ekki hámarksútsvar?

Í kjölfar umræðu um afnám lágmarksútsvars hafa einhverjir haldið því fram að hægt væri að afnema hámarksútsvar með sömu rökum. Í þessu felst grundvallar misskilningur á hlutverki löggjafarvaldsins annarsvegar og sveitarfélaga hinsvegar. Heildarlög um tekjustofna sveitarfélaga voru upphaflega sett árið 1989. Í þeim var ekki talin þörf á að setja ákveðinn lágmarkskatt eins og kveður á um í núverandi lögum, heldur var eingöngu um að ræða hámarksútsvar.

Heildarlög um tekjustofna sveitarfélaga voru upphaflega sett árið 1989. Í þeim var ekki talin þörf á að setja ákveðinn lágmarkskatt eins og kveður á um í núverandi lögum, heldur var eingöngu um að ræða hámarksútsvar.

Árið 1993 skipaði félagsmálaráðherra nefnd sem kom með tillögur um tekjur til handa sveitarfélögum í stað aðstöðugjaldsins. Þegar lögum um tekjustofna sveitarfélaga var breytt í samræmi við tillögur nefndarinnar var gerð grundvallarbreyting á lögunum, en þá var lágmarksútsvar tekið upp í fyrsta sinn og var lágmarksskattheimta sveitarfélaganna þannig bundin í lög óháð lögbundnum verkefnum eða útgjaldaþörf þeim tengdum. Ákvæðið um sérstakt lágmarksútsvar var mjög umdeilt meðal annars vegna þess að það leiddi til verulegrar hækkunar á útsvari ákveðinna sveitarfélaga á sínum tíma.

Í stjórnarskránni kemur fram að sveitarfélögin skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Hlýtur það að teljast eðlilegur skilningur á því ákvæði, að haldgóð rök og verulegir hagsmunir þurfi að koma til að þessi ákvörðunarréttur sé skertur. Bein íhlutun um lágmarksútsvar getur tæpast talist uppfylla þau skilyrði.

Óeðlilegt er að bundið sé í lög að innheimta skuli að lágmarki tiltekinn skatt af íbúum, hvort sem þörf sé á honum til að sinna lögbundnu hlutverki eða ekki. Sveitarfélag þarf að uppfylla lögbundið hlutverk sitt, en óhófleg afskipti löggjafans af því hvernig slíkt er fjármagnað eru óþörf og draga úr valdi og ábyrgð kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnarmálum til þess að leita sem hagkvæmastra leiða til þess að uppfylla hlutverk sitt.

Í kjölfar umræðu um afnám lágmarksútsvars hafa einhverjir haldið því fram að hægt væri að afnema hámarksútsvar með sömu rökum. Í þessu felst grundvallar misskilningur á hlutverki löggjafarvaldsins annarsvegar og sveitarfélaga hinsvegar. Álagning skatta er íþyngjandi aðgerð. Þess vegna segir í stjórnarskránni að skattamálum skuli skipað með lögum og að ekki sé heimilt að fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema. Það er því hlutverk og skylda löggjafans að takmarka heimildir sveitarfélaga til að innheimta skatt af íbúum sínum. Af þessum ástæðum er nauðsynlegt að ákvæði um hámarksútsvar sé til staðar.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.