Hvað hefði Bríet viljað?

Forkólfar jafnréttisbaráttunnar og femínstafélaga í dag virðast þó margir hverjir vilja beita misrétti til að ná fram jafnrétti. Jákvæð mismunun og kynjakvótar eru að þeirra mati til þess fallin að ná þeim markmiðum um jafnrétti kynjanna. En var það markmið Bríetar?

Þann 7.nóvember síðastliðinn var afhjúpaður minnisvarði um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, einn helsta baráttumann fyrir réttindum kvenna og stofnanda Kvenréttindafélags Íslands. Bríet átti veigamikinn þátt í helstu afrekum kvenréttindabaráttunar á Íslandi, með hennar baráttu fengust lágmarksréttindi eins og kosningaréttur og kjörgengi kvenna og almennur réttur kvenna til menntunar og atvinnu.

Þegar Bríet stofnaði Kvenréttindafélag Íslands voru miklir umbrotatímar í íslensku þjóðfélagi. Þau réttindi sem við ungar konur þekkjum í dag og tökum sem sjálfsögðum hlut voru hins vegar ekki eins sjálfsögð þá og erfitt að gera sér í hugarlund þá aðstöðu um ungar konur bjuggu við á þessum tíma.

Þegar við minnumst baráttumanna eins og Bríetar Bjarnhéðinsdóttur er óhjákvæmilegt að spyrja sig hvar við erum stödd í dag. Hefur fullu jafnrétti verið náð og hefði Bríet sjálf verið sátt við jafnréttisbaráttuna eins og hún er í dag?

Jafnréttisbaráttan hefur alla tíð gengið út á það að kynin séu jöfn á öllum stigum þjóðfélagsins. Enn þann dag í dag hefur þessum markmiðum ekki verið náð að fullu. Enn eru konur að fá lægri laun en karlar fyrir sömu vinnu og enn eru færri konur í stjórnum fyrirtækja og á Alþingi svo dæmi sé tekið.

Forkólfar jafnréttisbaráttunnar og femínstafélaga í dag virðast þó margir hverjir vilja beita misrétti til að ná fram jafnrétti. Jákvæð mismunun og kynjakvótar eru að þeirra mati til þess fallin að ná þeim markmiðum um jafnrétti kynjanna. En var það markmið Bríetar að alls staðar yrði jafn mikið af konum og körlum, að fólk væri valið í störf á grundvelli kynferðis og setja þyrfi kvenkyns endingar á íslensk orð sbr. stjóri – stýra, formaður – forkona?

Þegar aðalmálið virðist vera að telja hversu margar konur og karlar koma fram í sjónvarpsþáttum spyr maður sig hvort þetta sé það sem barist hafi verið fyrir öll þessi ár. Er jafnrétti kynjanna náð þegar í öllum fréttum, öllum sjónvarpsþáttum, dagblöðum, fyrirtækjum og í stjórnmálum sé nákvæmlega jafn mikið af körlum og konum?

Einhvern veginn vil ég leyfa mér að efast um það. Ég trúi á einstaklinginn og það sem hver og einn hefur fram að færa. Ég met ekki annað fólk á grunvelli kynferðis heldur horfi ég á einstaklingana. Sjálf vil ég líka vera metin sem sá einstaklingur sem ég er, en ekki á grundvelli kynferðis míns.

Að öllum jafnréttissinnum og femínistum ólöstuðum held ég að Bríet hefði fyrst og fremst viljað að kynin hefðu jöfn tækifæri og jafna möguleika til að ná markmiðum sínum. Því jöfn tækifæri fólks eru grundvöllur jafnréttis. Ég held að Bríet sjálf hefði viljað vera metin á sínum eigin verðleikum en ekki eftir kynferði. Allir karlar og allar konur eiga hvorki að njóta sérstaklega né gjalda fyrir kynferði sitt. Við erum öll einstaklingar sem höfum okkar eigin markmið og eigum öll að hafa jöfn tækifæri til að ná þeim, óháð því hvort við erum karlar og konur.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.