Þú ert það sem þú hugsar

Þegar það kemur að því að ná árangri, á hvaða sviði sem er, virðast flestir vera sammála um mikilvægi þess að setja sér markmið. Markmiðin þurfa að vera skýr og mælanleg ásamt því sem æskilegt er að þeim fylgi nákvæm aðgerðaráætlun. Við þurfum jú að ákveða hvernig og hvenær við ætlum að ná viðkomandi markmiðum. En eitt er það sem stundum virðist gleymast þegar rætt er um hvernig ná má auknum árangri í starfi og einkalífi. Við gleymum mikilvægi hugarfarsins.

Þegar það kemur að því að ná árangri, á hvaða sviði sem er, virðast flestir vera sammála um mikilvægi þess að setja sér markmið. Markmiðin þurfa að vera skýr og mælanleg ásamt því sem æskilegt er að þeim fylgi nákvæm aðgerðaráætlun. Við þurfum jú að ákveða hvernig og hvenær við ætlum að ná viðkomandi markmiðum.

En eitt er það sem stundum virðist gleymast þegar rætt er um hvernig ná má auknum árangri í starfi og einkalífi. Við gleymum mikilvægi hugarfarsins.

Hugarfar byggist á hugsunum okkar sem geta verið af ýmsum toga.

Jákvæðar hugsanir eru til þess fallnar að byggja okkur upp og eru yfirleitt taldar skila sér í betri líðan og þar með betri árangri. Áhrif neikvæðra hugsana eru einungis neikvæð. En er nóg að einbeita sér að því að hugsa jákvætt eins og Pollýanna? Er nóg að reyna að sjá ávallt það góða í öllu?

Það er vissulega kostur að geta hugsað eins og Pollýanna, en það er ekki nóg. Uppbyggilegum hugsunum má í raun skipta í tvo flokka, það eru til jákvæðar hugsanir og svo kraftmiklar hugsanir. Munurinn á þeim er sá að jákvæðu hugsanirnar eru einmitt “bara” það, jákvæðar, en kraftmiklu hugsanirnar leiða til aðgerða og athafna. Kraftmiklu hugsanirnar eru drífandi og leiða til þess að við gerum eitthvað í raun og veru. Kraftmiklar hugsanir leiða til árangurs. Hvort hugsar þú oftar jákvæðar hugsanir eða kraftmiklar?
Til viðbótar við greiningu hugsana okkar er einnig mikilvægt er að velta því fyrir sér hvaðan þær koma, hvort heldur sem þær eru jákvæðar, kraftmiklar eða neikvæðar. Hefur þú einhvern tíma velt því fyrir þér afhverju tiltekin hugsun hefur skotist upp í kollinum á þér? Hvaðan hugsanir þínar koma og ekki síst hver stjórnar þeim?

Hugsanirnar koma vitaskuld frá okkur sjálfum. Það erum við sjálf sem hugsum þær og getum því ákveðið hverjar þeirra fá að fljóta áfram í kollinum á okkur og hverjar ekki. Hverjar þeirra fá að hafa áhrif á líf okkar og líðan, og hverjar ekki. Ef við gerum okkur grein fyrir þessu verður auðveldara fyrir okkur að henda frá okkur öllum neikvæðum, letjandi og niðurbrjótandi hugsunum og velja frekar kraftmiklar hugsanir sem eru til þess fallnar að byggja okkur upp, drífa okkur áfram og gera okkur kleift að ná árangri.
Einfalt, ekki satt?

Meðalmaðurinn hugsar fleiri þúsund hugsanir á dag og getur það því orðið nokkuð viðamikið verkefni að ætla að fylgjast með þeim öllum á hverjum degi. Lykilatriði í þessu er einfaldlega að taka eftir. Með því að taka reglulega eftir hvaðan hugsanir okkar koma, og afhverju, aukum við vitund okkar. Aukin vitun leiðir til aukins lærdóms og sjálfsþekkingar, sem hefur svo jákvæð áhrif á árangur okkar.

Væri það ekki magnað ef lykillinn að árangri væri fólginn í eins einföldum hlut og stjórnun hugsana?

Prófaðu að auka vitund þín og taka eftir. Taktu eftir afhverju þú hugsar það sem þú hugsar. Veltu því fyrir þér hvaðan hugsanir þínar koma og veldu þær vandlega. Ég get lofað þér því að magnaðir hlutir munu gerast í kjölfarið vegna þess að þú ert það sem þú hugsar.

Latest posts by Ingunn Guðbrandsdóttir (see all)